Monday, September 29, 2014

Sunnudagsbíltúr og ís með dýfu

Það sem við eigum nú fallegt land við frónverjarnir !! Ég viðurkenni að sem barn og unglingur þá fannst mér nú ekki það skemmtilegasta að þeytast um landið og skoða fjöll, fossa og kirkjur (minnir allavega að það hafi verið það eina sem skoðað var). Með aldrinum hefur maður nú eitthvað þroskast og kann betur að meta náttúruna og alla þessa fegurð sem bíður manns bara rétt fyrir utan bæjarmörkin. Við fjölskyldan skutumst nefninlega í sunnudagsbíltúr núna um helgina, enda búið að spá smá glætu og því tilvalið að taka sér frí frá vinnu og draga börnin út úr Mindcraft tölvuveröldinni og skoða þessa "alvöru" fyrir utan veggi heimilisins. Leiðin lá austur á Þingvelli í haustlitaferð, með viðkomu á nokkrum velvöldum stöðum eins og t.d. Efsta Dal þar sem hægt er að smakka ís í íshlöðunni, skoða kálfa og beljur og þessvegna fá sér að borða á hlöðuloftinu. Við stefndum hinsvegar á tómatsúpuna sem við höfðum heyrt af í Friðheimum, Reykholti enda fátt skemmtilegra en að fara í heimsókn til fólks með metnað og drif á öllum sem ég tel þurfa í svona ferðamannarekstri. Við fengum frábæra þjónustu hjá þeim tómatabændum sem buðu upp á girnilega súpu, nýbakað brauð og gúrkumeðlæti. Þjóninn fræddi okkur og þá sem vildu um ræktunina og kynnti okkur fyrir nöfnum mínum býflugunum sem unnu eins og forkar á meðan við kjömsuðum á súpunni. Veðrið var frábært og haggaðist ekki hár á höfði. Síminn var nýttur óspart í myndatökur og ferðinni svo slúttað með viðkomu í sundi á Minni Borg. Betri dag hefðum við ekki getað óskað okkur. Það vantaði reyndar alveg ís með dýfu svo því var reddað í snarhasti þegar heim var komið. Passlega stór skammtur af ís, sletta af dökku súkkulaði og þörfinni var svalað. Allir sáttir eftir þessa fínu helgi.
Íspinni með dýfu
2 egg
2 msk Via health sæta m steviu
1 tsk vanilludropar eða 1/2 tsk vanilluduft
1/3 tsk xanthan gum (má sleppa, en gerir heilmikið)
2 dl rjómi ég notaði laktósafrían, þeytið
 
Þeytið egg, sætu og vanillu vel saman, bætið xanthan gum saman við ef þið eigið, það gerir ísinn þéttari og einhvernveginn "alvöru". Blandið þeytta rjómanum við eggin og hellið svo í form. Ég notaði frekar djúp silikonform sem ég gat nýtt sem íspinna.
Skerið nokkur sogrör í 2 parta og stingið ofan í ísinn. Frystið.

Dýfan:
50 g rapunzel 80% súkkulaði eða annað
sykurlaust súkkulaði
1 tsk kókosolía
10 dropar karamellustevía Via Health t.d.
 
Bræðið saman hráefninu og veltið íspinnunum hratt upp úr dýfunni. Frystið aftur eða njótið strax.
Svo má sáldra kókosmjöli eða hnetumulning yfir ef þið viljið extra bragð.
 

 Thursday, September 25, 2014

Ömmuloka

Það kannast væntanlega fleiri en ég við að þrá sveitta samloku eða pizzu eftir næturbrölt og ég hef áður póstað uppskriftum af þessháttar samlokum í samlokugrilli. Mig langaði hinsvegar núna að steikja hana upp úr smjöri og gera svona ekta "ömmusamloku" æ bara smá persónulegar minningar á ferðinni. Brauðið þurfti að gera hratt og örugglega því mallinn var farinn að garga og ekki átti ég neitt tilbúið svo úr varð einskonar deighræra í matvinnsluvélinni sem ég smurði á bökunarplötu. Bakaði þetta svo á merkilega stuttum tíma og skar niður í 8 parta. Brauðin voru smurð með smá mæjó (Hellmans) enda bauð líðanin ekki upp á fleiri gloríur í eldhúsinu og svo var osti og skinku skellt á milli. Steikt á sveittri pönnu með íslensku smjöri og eftir merkilega stuttan tíma.. (hefði pottþétt ekki verið búin að fá Dominos slæsuna heim á sama tíma), þá var þessi girnilega loka mætt á diskinn. Brauðið sjálft er líka gott í brauðrist daginn eftir ef það er einhver afgangur. Njótið kæru lesendur.


Osta og skinkuloka
50 g kotasæla ( ath. gleymdist að setja inn í upphafi )
30 g sesammjöl
50 g möndlumjöl
50 g sólblómafræ
1 tsk lyftiduft
2 msk HUSK
dash xanthan gum ef þið eigið
salt
2 egg
1 dl vatn

Aðferð:
Ég malaði aðeins þurrefnin í matvinnsluvélinni minni, bætti svo eggjum og vatni við og
smurði deiginu á smjörpappír. Bakaði í ofni 180 gráður í 10 mín ca. Skar svo niður í 8 parta og smurði hverja sneið með smá mæjónesi, bætti við rifnum osti og skinku og svo steikti ég samlokurnar á pönnu upp úr smjöri  gott að hafa Hlöllasósu með þessu  eða búa til sykurlausa kokteilsósu.

Tuesday, September 23, 2014

Kjúklingasamsuða í anda bloggvinkonu

Ég ætla núna að viðurkenna eitt fyrir ykkur sem ég get ekki þagað yfir lengur... ég er með "stelpuskot"..... í henni Guðrúnu Veigu bloggvinkonu minni. Ég les skrif hennar upp til agna og það gleður mig alltaf jafnmikið því fyndnari penna hef ég sjaldan komist í tæri við. Við tvær gætum ekki verið ólíkari þegar að matargerð kemur en ég held að hún lifi á poppkorni, hnetusmjöri og óreó kökum. Það breytir mig þó engu enda fagna ég fjölbreytileikanum, sykurlausum eða ekki. Hún GV "lenti" í því fyrir stuttu að elda eitthvað annað en poppkorn og úr varð mjög girnilegur kjúklingaréttur sem ég ákvað að herma dálítið eftir enda kominn tími á að tæma úr grænmetisskúffunni. Ég átti ekki alveg allt sem var í réttinum hennar og breytti því sósunni örlítið enda ekki mikið fyrir að kaupa tilbúnar krukkusósur. Þetta varð hin skemmtilegasta kjúllasamsuða sem verður eflaust gerð aftur. Takk Veiga snillingur og ég mæli með að allir lesi bloggið hennar, það gefur lífinu lit.
Kjúklingasamsuða:
 
 1 poki kjúklingabringur frá Rose
1 tsk hvítlauksmauk eða 1-2 geirar hvítlaukur
3 msk smurostur að eigin vali, t.d. camenbert og beikon (ég notaði bæði)
1 lítil paprika
3-4 cm blaðlaukur
3-4 sveppir
1 tómatur
1 msk tómatpúrra
1 dl rjómi
2 msk fetostur, má sleppa
rifinn ostur 2-3 msk
 
Aðferð:
Steikið kjúklinginn í bitum upp úr olíu og hvítlauk.
Kryddið með góðu kryddi ég notaði chipotle krydd úr Kosti.
Setjið bitana í eldfast mót og geymið vökvann í pönnunni.  Bætið tómatpúrru út í og smurostinum, þynnið með smá rjóma og vatni ef þörf krefur.
Hellið sósunni svo yfir kjúklinginn og bætið niðurskornu grænmeti yfir. Bætið fetaostinum saman við og slettu af olíu. Að lokum er rifnum osti dreift yfir og allt hitað í ofni þar til osturinn er orðinn gylltur og girnilegur. Berið fram með þessu, t.d. ferskt grænmeti og blómkálsgrjón.

 

Friday, September 19, 2014

Helgarnammi og kósýheit

Þessa dagana eru fréttaveitur og matarblogg yfirfull af heilsufróðleik, heilsuuppskriftum, sykurgreinum, sætuefnagreinum og þar fram eftir götunum. Deilt er um ágæti vissra sætuefna og er ég vissulega sammála mörgu í þeim málum. Það er stór munur á vörum sem í boði eru og gæðin misgóð. Ég hef reynt að nota eingöngu erythritol og stevíu í bakstur og matargerð en í sumum súkkulaðiplötum má þó finna malitol og svo er sucralose í ákveðnum sýrópum sem nota má í kaffibollann. Allt er auðvitað gott í hófi en í mínu tilfelli þá er erfitt að hætta í súkkulaðinu eftir 2-3 mola. Ég er búin að rekast á nokkrar snickersuppskriftir upp á síðkastið sem kalla flestar á 100-200 g af dökku súkkulaði og þar sem ég þekki mig of vel þá sá ég fram á að klára allt súkkulaðið auk þess að éta upp allt hnetugumsið í leiðinni með tilheyrandi magaverk og hitaeininga"óverload". Skárri kosturinn var að gera sjálf súkkulaðið enda hef ég ekki tíma til að húða hvern bita og svo finnst mér nú algjör glæpur að fara að bræða niður fallega steyptar súkkulaðiplötur. Þetta varð því einhversskonar samsuða úr uppskriftum héðan og þaðan en súkkulaðið hef ég oft gert hér á blogginu. Ég bætti við möndlum, minnkaði sum hlutföll og útkoman var mjög fín. Prófið þið bara, það finnst varla munur á þessu og venjulegu súkkulaði úr búðinni, tekur örstutta stund að gera og fyrr en varir ertu komin með fullt box af gotteríi sem hægt er að njóta með nokkuð hreinni samvisku.


Helgarnammi
 
150 g gróft hnetusmjör ( Sollu er mjög gott)
70 g salthnetur
70 g möndlur með hýði
1 msk Via Health fínmöluð sæta
10 dr stevía
35 g smjör
1 tsk vanilludropar
 
Aðferð:
Grófmalið hnetur og möndlur. Hitið smjör og hnetusmjör, bætið sætuefnum út í leysið vel upp. Bætið hnetum saman við og hellið svo blöndunni í smjörpappírsklætt form.
Frystið í 15 mín ca og búið til súkkulaðið á meðan.
 
Súkkulaði:
50 g kakósmjör
50 g kókosolía
30 g Via Health fínmöluð sæta
10 dr stevía ( karamellu er góð )
20 g kakó
saltögn
1 tsk vanilludropar
 
Aðferð:
Hitið á lágum hita smjörið og olíuna. Bætið þurrefnum saman við og saltið. Sækið hnetunammið úr frystinum og hellið súkkulaðinu yfir. Frystið aftur í 15-20 mín.
Þetta má svo skera í hæfilega bita og njóta með hressandi kaffibolla.

Monday, September 15, 2014

Sunnudagskakan

Já er ekki bara ágætt að skíra þessa því nafni því ég hef prófað ansi margar útgáfur af súkkulaðitertum og bara nokkuð ánægð með þær flestar. Mig langaði hinsvegar að gera extra þykka og flotta tertu núna til að hafa sem eftirrétt fyrir okkur og foreldra mína og mixaði því saman nokkrum uppskriftum með ákveðnum tilfæringum. Hún lyfti sér mjög vel og hélst mjúk og góð og ótrúlegt en satt þá er hún ennþá mjúk og fín, s.s. smá eftir af henni :)  Kremið er útfærsla af tiramisúbollakökukreminu sem ég setti hér inn fyrir nokkrum mánuðum og er það bragðgott og fínt með rjóma sem aðal innihaldi. Það er samt gott að bera þessa fram með pínu extra rjóma :) Ég bauð nokkrum vinum sonar míns upp á afganga og þeir áttu nú erfitt með að trúa því að ekkert hveiti væri í kökunni , né sykur og fóru með súkkulaðiskegg upp í tölvuna, massasáttir !! Ég notaði Via Health strásætuna með stevíunni sem ég er kolfallin fyrir og mun prófa mig áfram með hana á næstunni. Kanilsykur t.d. úr henni er bara nákvæmlega eins og sá gamli góði.
Sunnudagskakan:

230 g möndlumjöl má nota gróft eða fínt
90 g kakó
160 g Via Health sæta með stevíu eða önnur sæta, ef Sukrin er notað þá má bæta við stevíu dropum ca 10-15 dropum
40 g vanilluprótín t.d. NOW eða Nectar
1 msk skyndikaffiduft
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk xanthan gum
1/2 tsk salt
180 g sýrður rjómi ( 1 dós)
5 egg
120 g mjúkt smjör
200 ml möndlumjólk
val: 2 tsk vanilludropar eða duft, eða aðrir kökudropar
 
Aðferð:
Þeytið saman sætuefni, sýðrum rjóma og smjöri. Blandið svo eggjum saman við og þeytið vel. Þurrefnin blandast saman í skál og er bætt út í eggjablönduna ásamt möndlumjólkinni.
Setjið deig í 2 form, ég nota yfirleitt hringlaga há silikonform.
Bakið í 180°C heitum ofni í 30 -35 mín eða þar til pinni kemur hreinn úr kökunni.
Kælið vel áður en kremið er sett á.

Krem:
160 g rjómaostur hreinn
120 g fínmöluð sæta, t.d. Via Health
1 tsk vanilludropar
20 dropar Via Health stevía
250 ml rjómi (má nota laktósafrían)
1 msk kakó
 
Krem:
Þeytið saman rjómaost, sukrin, stevíu og vanillu. Hellið rjómanum varlega saman við og hrærið hægt.
Þegar rjóminn er kominn út í þá setjið þið vélina á fullan kraft þar til toppar myndast í kreminu.
Setjið kremið fyrst á milli botnanna, setjið svo restina í sprautupoka með fallegum skrautstút og skreytið. Má gera ríflega af kreminu ef skreyta á með miklum rósum.

Sunday, September 14, 2014

Skonsudagar

Enn og aftur kemur Tóta mágkona við sögu í tilraunabakstrinum mínum en hún er sérfræðingur í skonsugerð og hefur notað spelthveiti í sinni uppskrift upp á síðkastið til að gera þær ögn hollari. Ég vildi hinsvegar taka þetta alla leið og umbreyta öllu í "löglegt" LKL innihald og eftir nokkrar tilraunir eru þessar skonsur bara orðnar ansi góðar og nánast eins og Tótuskonsur, svei mér þá. Ég bætti nýlega við kotasælunni og þá kom ansi gott bragð sem fullkomnaði fyrir mér útkomuna.
Tótuskonsur:
3 egg
1 msk sæta,Via Health fínmalað t.d.
1 tsk lyftiduft eða matarsódi
2 msk husk, grófa úr pokunum
1/2 tsk vanilludropar
kúfuð msk kókoshveiti
saltögn
1 kúfuð msk kotasæla
1/2 tsk xanthan gum, ekki nauðsynlegt en gerir alveg helling :)
 
Aðferð:
Hrærið öllu saman með töfrasprota og þynnið með vatni eftir hentisemi.
Deigið þykknar örlítið og því gott að þynna þar til gott er að ná því upp með skeið og móta skonsuhring á heitri pönnu, eiga ekki að vera þunnfljótandi.
Steikið á viðloðunarfrírri pönnu til að einfalda ykkur lífið, einnig er gott að spreyja aðeins með kókosfeitispreyji eða bræða dálítið af smjöri á pönnunni.
Þessar skonsur geymast vel og eru góðar nýbakaðar og líka daginn eftir :)

Thursday, September 11, 2014

Móðureðli

Hversu klikkaðir geta dagar verið ? Minn var nokkuð hress! Leikfimi, vinna, tölva, sækja, skutla vörum, kaupa í matinn, sækja litla strump aftur í tónó, kaupa næringu fyrir hann svo hann myndi lifa af klifuræfingu og koma svo heim á búgarðinn í allsherjarástand þar sem hænukjáninn sem við fundum úti í runna fyrir stuttu með 13 egg og 5 nýklakta unga hafði losnað úr búrinu sínu með öll börnin með sér.  "Batman"ranglega kyngreind villikattarlæða sem búið hefur hér síðustu 2 árin sveimaði um svæðið kasólétt af sínum 5,6,7 undu börnum, pirruð og svöng, og beið spennt eftir að hænumamman liti undan svo hún gæti ná sér í síðdegishressingu. Ekki messa við óléttar kisumömmur það er á hreinu !!! Þá má sjá húsmóðurina " mig " á hælunum að elta unga um allar trissur, laga hænsnanet,reyna að koma öllum á sinn stað meðan sonurinn át hrísköku og kókómjólk og spurði sallarólegur... mamma þarftu ekki að skutla mér á æfingu ?? Kettlingarnir 3 sem alið hafa hér manninn fyrstu 3 mánuði ævi sinnar hrutu svo bara á meðan í kofanum sínum sem við græjuðum fyrir stuttu með hitaperu og sæng og minnir kofinn helst á ákveðinn atvinnugeira í Amsterdam !!! hvað er að frétta ... ? Á endanum hringdi ég örvæntingarfull og pirruð í eiginmanninn sem kom og bjargaði mér frá því að missa vitið... Nú sit ég hér og blogga um þetta allt saman, orðin of sein á foreldrafund og reyni að borða eggjaflatköku með kjúkling !! engin kaldhæðni hér á ferð.. En þið kannist nú örugglega við þetta allt saman. Málið er samt að brosa bara að þessu öllu og anda rólega inn og út.. t.d. í pappírspoka.

Husk, egg og beikonsmurostur piskað saman og steikt, fyllt með því sem hentar :)
Legg ekki meira á ykkur eftir þennan dag :)

 
Brattur sem finnur sér alltaf hlýjan stað