Wednesday, January 28, 2015

Sælkerabrauð

Sæl öll, í vikunni bakaði ég alveg geggjað brauð eftir uppskrift frá vinkonu minni henni Sibbu og leyfði hún mér að birta hana hér ykkur vonandi til ánægju. Hún Sibba og maðurinn hennar Eddi Arndal eru fólkið á bak við Carb Back Loading og carb nite síðuna sem notið hefur miklla vinsælda á fésbókinni. Þau eru einkaþjálfarar alla leið úr Þorlákshöfn, þeim krúttlega bæ. En það er ekki bara höfn og Herjólfur í Þorlákshöfn sem futt hefur þorra íslendinga í eyjarnar heldur er líka frábær sundlaug í bænum og yndislegt kaffihús sem kallast Hendur í höfn, mæli hiklaust með sunnudagsbíltúr á þessa staði. En aftur að einkaþjálfarahjónunum. Þau eru ofsalega dugleg að halda úti síðunni sinni sem og bjóða upp á fyrirlestra um prógrammið sem þau fara eftir og eru þessi kvöld bæði fróðleg og skemmtileg enda þau hjónin bráðfyndin.  Endilega kynnið ykkur fræðin þeirra sem svipar mikið til LKL mataræðisins en með breyttu áherslum þó. Og prufið að baka brauðið það er geggjað, ekki láta ykkur bregða ef sólblómafræin verða græn í bakstrinum en það er bara eitthvað sem gerist :) Hægt að baka brauðið í silikonmúffuformi líka og gera bollur.

Lágkolvetna sælkerabrauð


1 dl hörfræ
1 dl sólblómafræ
1 dl sesamfræ
1 dl graskersfræ
2 dl möndlumjöl
1 dl kókosmjöl eða kókoshveiti ( ég notaði tæpan dl af kókoshveti)
1 dl olía
4 egg
3 msk lyftiduft
1-2 msk trönuber
1 dl vatn
smá salt

Öllu blandað saman. Bakað í vel smurðu formi eða sílikonformi við 180°C í 40 mínútur

 

Thursday, January 22, 2015

Kjúklingur í parmesanraspi

Ég ætla nú ekki að skrifa mikið í þessu bloggi en eftir að ég prófaði þessa útfærslu af kjúkling sem ég sá á netinu, reyndar með hveiti og leyfði systu að smakka þá vildi hún endilega fá uppskriftina svo hér er hún Katla mín. Ég nota möndlumjöl í stað mjöls og það kemur algjörlega í staðinn fyrir raspið. Þetta er einfaldur og hrikalega góður réttur og ekki skemmir sósan :)
Kjúklingur í parmesan
 
60 g parmesan ostur
2 msk mæjónes (gerði mitt eigið, en Hellmanns er líka fínt)
2 msk ljóst möndlumjöl
2 tsk eðalkjúklingakrydd
timian, steinselja eða anna krydd eftir smekk

hræra vel saman og smyrja þessu á bringurnar
 
Hita í ofni á 210 gráðum í ca 25 mín


 
Hvítlaukssósa
 
2 msk sýrður rjómi
1 msk mæjónes
1 tsk steinselja
salt
sítrónukreista
4-6 dropar via health stevía
1/2 tsk hvítlauksmauk
 
Hræra öllu saman og njóta


Wednesday, January 14, 2015

Smápizzur í veisluna

Ég fór í afmælisboð um síðustu helgi hjá Tótu mágkonu og þar sem nánast allir eru dottnir í átak eftir jólin þá ákvað ég að koma með eitthvað af veitingum sem fólk gæti smakkað án þess að kafna úr samviskubiti. Það var ekki eins og það væri ekkert á boðstólum því systir mín og mágkona eru snillingar þegar kemur að veisluhöldum. En ég vildi samt prófa þetta og smápizzur urðu fyrir valinu. Þær hurfu eins og dögg fyrir sólu og ég mun pottþétt gera þessar aftur. Góðar með hvaða áleggi sem er og mjög fljótlegar. Hæfilega stórar líka, einskonar fingramatur sem gott er að halda á.
 
Smápizzur - tilvalið í partý og afmæli
 
3 msk beikonsmurostur
3 msk kotasæla
3 egg
3 msk HUSK
1 tsk lyftiduft
1-2 msk pizzukrydd eða oregano
saltklípa
3 msk möndlumjöl
1 msk kókoshveiti
 
Aðferð:
Maukið saman með töfrasprota og látið deigið í sprautupoka.
Leyfið deiginu að bíða í pokanum í 15 mín.
Hitið ofninn í 180°c með blæstri og klæðið 2 bökunarplötur með bökunarpappír.
Sprautið nú litlum hringjum (ca eins og sprittkerti í stærð) á pappírinn með góðu millibili og bakið í 10-12 mín.
Þegar botnarnir eru bakaðir þá má snúa þeim við og setja áleggið á. Bakið svo aftur í nokkrar mínútur þar til osturinn er orðinn gylltur og fínn.
Áleggshugmyndir, Hunts pizzusósa, chorizo sneið og rifinn ostur, pizzuskrydd.
Einnig gott að setja Hunts pizzusósu, skinkubita, og rifinn ost.Thursday, January 8, 2015

Blaðlaukssúpa með kúrbítsnúðlum

Jæja þá er komið að súpudögum, súpa og sítrónur í vatni, alla daga :) Nei grín, en það er mjög gott að byrja daginn reyndar á blessuðu sítrónuvatninu og hafa það volgt, skera svo sítrónurest í sneiðar og geyma í könnu með vatni og gúrkusneiðum. Þetta má svo drekka yfir daginn og líðanin verður mikið betri, segjum það bara. Nú, ég fékk svona fyrirtaks uppskrift af blaðlaukssúpu frá Kötlu systur fyrir nokkru og ákvað að fikta aðeins við hana eins og vanalega til að gera lkl vænni. Í stað þess að nota kjúklingabaunir eins og hún þá ákvað ég að nota kúrbítsnúðlur til að fá smá bit í súpuna og gera hana matarmeiri. Þetta kom ljómandi vel út skal ég segja ykkur. Súpan er rosalega góð, bragðmikil. Þetta er stór skammtur sem dugar vel í hádeginu daginn eftir. Bollurnar eru ljómandi fínar sem meðlæti og í þetta sinn notaði ég dökkt möndlumjöl sem gerir þær dekkri að lit en vanalega hjá mér.

 
 Blaðlaukssúpa með kúrbítsnúðlum
 
smjörklípa
1 1/2 líter sjóðandi vatn
2 dl rjómi
2 tsk þurrkað timiankrydd
2 kjúklingakraftsteningar (má nota aðrar gerðir)
2 tsk paprikuduft
1 blaðlaukur
1 lítill gulur laukur
2 msk beikonsmurostur eða annar rjómaostur
2 msk sýrður rjómi
salt og pipar eftir smekk
 

1 "núðlaður" kúrbítur
 
Aðferð:
Steikið lauk og blaðlauk í smjöri, ég nota þykkbotna pott úr IKEA og þarf þá ekki að færa á milli íláta, allt í einu lagi.
Kryddið með kryddunum og leyfið lauknum að verða glær. Hellið þá vatninu yfir, rjómanum og rjómaostinum síðast. Látið súpuna malla í 30 mín sirka og þá er hún tilbúin.
Hægt að borða eina og sér en mér fannst mjög gott að hella henni yfir kúrbítsnúðlurnar mínar.
 
Núðlur:
 
Látið núðlurnar í skál og stráið sjávarsalti yfir, leyfið núðlum að svitna í 10-15 mín og skolið svo vel.
Þá eru þær tilbúnar í salat, pasta eða í svona súpu eins og hér um ræðir.Létt og góð frærúnstykki um 6 stk.
 
100 g sýrður rjómi
2 egg
15 g kókoshveiti
15 g möndlumjöl ljóst eða dökkt, smekksatriði
5 g fínmalað HUSK eða kúfuð tsk
1/4 tsk salt
1/2 tsk lyftiduft
1 msk chiafræ
1 msk hörfræ
1 msk graskersfræ

Aðferð:
Hrærið vel eggin og sýrða rjóman, blandið svo þurrefnum vel saman með gaffli svo HUSK nái að blandast vel.  Hellið þeim út í og hrærið áfram. Látið standa í 5-10 mín. Setjið deigið í muffinsform, ég notað smurt silikonform og stráði nokkrum graskersfræjum ofan á.
Bakið í 20  mín á 180°C með blæstri. Það komu 6 agalega passlegar bollur úr þessari uppskrift, svo er bara að tvöfalda ef þið viljið.

Monday, January 5, 2015

Játningar og kúlusúkk

Jæja nú er komið að hinni árlegu játningu eftir hátíðarnar... já ég fékk mér Nóa konfekt !! og já fleiri en einn mola !! En viti menn það varð ekki heimsendir og nýr dagur er sama og nýtt upphaf í mínum huga. Það ættu reyndar allir dagar að heita mánudagar því það er merkilegt hvað dagaheiti og hátíðir breyta hugsunarhættinum og geta afsakað hömlulaust át. En sitt sýnist hverjum og ég verð ekki með neinar predikanir hér nema þá helst gagnvart mér sjálfri því alveg sama hvaða dagur það er þá fer sykurinn ekkert betur í mig þótt hann heiti þriðjudagur eða laugardagur.  Við hjónin erum búin að ákveða að standa okkur vel núna og vonandi stöndumst við það enda eiginmaðurinn sýnu verri af ofnæmi fyrir blessuðum villikettlingnum sem við sáum aumur á og greinilegt að mataræðið hefur allt að segja í þeim efnum. En það er miklu auðveldara að taka út sykurinn en kveðja kisulinginn yndislega svo við byrjum á því :)
Hvað markmið varðar þá heyrði ég leikfimikennarann minn þylja upp nokkur góð í Warm fit tímanum í dag, (já sko mig, ég mætti í ræktina). Hún mælti með að hafa markmiðin einföld svo auðveldara væri að ná þeim, t.d. borða einn ávöxt á dag, hitta góðan vin í hverri viku, fara fyrr að sofa 2 kvöld og svo framvegis. Það er ekki of oft kveðin vísa að ef markmiðin eru óraunsæ, eins og að taka út alla óhollustu, hætta að reykja, drekka og byrja í crossfit í sömu vikunni þá er nokkuð víst að eitthvað gefi sig. Markmið geta líka verið óskyld mataræði og tölum á vigtinni, ein vinkona á fésbókinni sagðist stefna að því að hlæja og dansa meira á árinu og það fannst mér mjög skynsamlegt. Lífið er svo sorglega stutt og fjölskyldan okkar fékk áminningu um það þegar fyrrverandi skólabróðir 21 árs dóttur minnar varð bráðkvaddur í jólafríinu sínu og sendi ég þeim innilegar samúðarkveðjur. Nú er nýtt ár gengið í garð, fullt af tækifærum og skemmtilegum viðburðum framundan og vona ég að allir taki því fagnandi. Knús á línuna, ykkar María Krista.

P.S. ég læt fylgja með uppskrift af "Kúlusúkk" nammi sem ég blanda mér þegar ég finn að púkinn skríður upp bakið á mér.


 
Kúlusúkk
1 tsk lakkrísduft, fékk mitt í Epal
4 msk kókosolía
1 msk kakó
2 msk Via Health sæta, fínmöluð
10 dropa karamellustevía
 
Aðferð:
Hitið kókosolíuna í potti, bætið stevíu saman við og sigtið þurrefnin út í. Takið samt pottinn strax af hellunni áður en kakóið fer út í og hrærið vel. Hellið blönduni í konfektmót og frystið. Tilbúið á 15 mínútum :)

Friday, December 19, 2014

Óskalistinn

Nú ætla ég á misnota aðstöðu mína og droppa hér nokkrum óskasprengjum, aðallega fyrir eiginmanninn sem á alltaf mjög erfitt með að finna eitthvað til að gefa frúnni í jólagjöf og finnst hún afar erfið þegar kemur að gjafavali. Hann man reyndar aldrei eftir neinum þeim hugmyndum sem ég er búin að gauka að honum síðustu 11 mánuðina svo hér berst þér hjálp minn kæri. Æ svo á ég afmæli 31.des svo höfuðverkurinn er tvöfaldur hjá mínum spúsa. Og já svo ef einhver á eftir að græja eitthvað handa mér þá er tækifærið hér. Ég er með frekar massívan óskalista en ef þið sameinist kannski 15-20 þá er mögulega hægt að finna eitthvað sem hentar buddunni hi hi djók! Til að forðast allan misskilning þá er þessi póstur ekki styrktur af neinum fyrirtækjum enda hef ég ööörsjaldan fengið sendingar heim að dyrum að launum fyrir bloggfærslur mínar. Ég fæ jú stundum hráefni í tilraunabakstur sem endar jafnvel í hænunum og villikattargreyjunum en að öðru leyti er bloggið mitt ekki mín tekjulind :) Ég fékk jú reyndar einu sinni grjónapúða/hitabakstur frá yndislegum hjónum sem komu hér færandi hendi og þökkuðu mér fyrir uppskriftirnar á netinu. Sú gjöf stendur uppi í mínum huga og ég nota hana mikið. Sælla er að gefa en þiggja er mitt mottó og ef hægt er að nýta sér þessa vitleysu í mér og tilraunastúss í eldhúsinu þá er það besta mál, allavega þegar ég hef tíma. En nú er komið að óskalistanum góða :) Eruð þið ekki spennt ?


 
Þennan disk ættu allir að eiga, er búin að róa niður taugarnar hjá mér síðustu vikurnar í búðinni minni og ég væri alveg til í að eignast eitt eintak sjálf, Sunna svila mín þú reddar því er það ekki ?
Ljúf íslensk djasslög sem allir raula með, ótrúlegt hvað fólk kann marga texta.

 


Hef lengi viljað eignast almennilegt hjól og hjóla um allt, bókasafnið, kaffihús, blómabúðina og koma kannski við hjá slátraranum og á grænmetismarkaðnum.. mmm í hvaða bíómynd býrð þú María ?


 
Ok kannski pínu tengt mér en kom on, þessi föt hennar systu hjá Volcano Design eru bara svo falleg og klæðileg og yrðu það eflaust á mér, mér sýnist módelið nefninlega vera með svipaðan háralit.. svo þetta er gefið !
 
 
Þarf að ræða þetta eitthvað ?
 

 
Þessi krem þekki ég aðeins og get alveg mælt með, sem og mælt með því að einhver gefi mér bara alla vörulínuna eins og hún leggur sig :))))

 
Já takk, spennandi jól fyrir mig,þreytta verslunareigandann, annars sofna ég ofan í formálann..
 

 
Þessi lofar líka góðu og hver veit nema maður gæti lesið tvær fram að áramótum.

 
Ég myndi ekki kasta þessum skóm neitt út úr rúminu , Marta Jóns þú ert með þetta...

 
Hver vill ekki hafa það notó í klukkara með panflautum og ólífuolíu ? Gæti vel hugsað mér nuddtíma í jóló... hint hint Tóta

 
Sko ef ég á að geta bloggað áfram þá er kominn tími á endurnýjun á síma. Minn er orðinn ansi smjörleginn og búinn að hitna vel á alla kanta eftir að þurfa að mynda hálfbakaðar kökur á 180°C fyrir bókaskrif eigandans..

Talandi um matreiðslubækur, þessi dama er auðvitað bara einn brandari og allt sem kemur frá henni fær mig til að skella upp úr. Ég mun líklega ekki borða mikið af uppskriftunum í bókinni en ég get étið textann upp til agna. Og mér finnst bókakápan fyndin.
 

 
Leikhúsmiðar í Borgó eða Þjóðó, ekki slæm hugmynd :) Elska leikhús og skammast mín fyrir lélega mætingu í vetur..

 
Ok uppseld kannski en hey, hefur maður engin sambönd hérna ??

Ég er ekki merkjasnobbari á nokkurn hátt, á ekki milljón Ittala krukkur og glös.. jú ok ég á nokkur, en ég á t.d. ekki Omaggio vasagreyið...hmm já það er fín hugmynd líka á listann ! En þessir stólar eru ekki bara bjútífúl heldur líka gott að sitja á þeim hef ég heyrt :) Love it.
 
Þessi dásamlegu rúmföt eru víst til í H&M, Mekkín mín og Arnar Danmerkubúar, smá hint á ykkur :)
 
Litla flugan eftir vinkonu mína hana Olgu Perlu í Gling Gló er nú bara kjútípæ og færi mér ábyggilega gasalega vel. Ég er sko meira gyllt Börkur minn !
 
 
....Jæja er þetta ekki orðið gott, elsku eiginmaður, jólasveinn, börn, ömmur og frænkur... það er allavega ekki hægt að segja að maður eigi ALLT hahah.
 
Gleðileg Jól öll og hafið það notalegt yfir hátíðirnar.
Auðvitað óska ég þess svo heitast og best að eiga góðar stundir með fjölskyldunni og frábært ef við náum að spila svolítið og hlæja, laus við síma og tölvur, það er svo agalega gott fyrir andann. 
Elska ykkur öll !
 
 

Friday, December 12, 2014

Piparkökur og rauðlaukssulta

Já það er víst hægt að nota kökumótin fyrir annað en skrautmuni úr matarsóda svo ég ákvað að hræra í eina piparkökuuppskrift sem kom bara nokkuð vel út. Ég er með aðra hér á blogginu en ég breytti henni töluvert og er ekki frá því að deigið sé skemmtilegra að vinna með enda xanthan gum töfraduft fyrir lkl bakstur. Svo heppnaðist rauðlaukssultan mín svo vel hér í vikunni að ég ákvað að deila henni með ykkur. Eigið góða helgi og ekki láta ykkur verða of kalt. Mæli ekki með lungnabólgu um jólin.


 
Piparkökur bakarastelpunnar
 
130 g fínmalað möndlumjöl (grænu pokarnir frá Funksjonell)
20 g kókoshveiti
1 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk engifer
3 tsk kanell
1 tsk negull
1/2 tsk pipar
8 msk sukrin gold
100 g mjúkt smjör
2 eggjahvítur
1/2 dl rjómi
1/2 tsk Xanthan gum
15 dropar stevía Via Health
 
Aðferð:
 
Þeytið saman smjörið og sukrin gold. Bætið svo við rjóma og eggjahvítum og að lokum þurrefnunum. Hrærið í góða kúlu og geymið hana í kæli í dágóðan tíma, best yfir nótt.
Fletjið út deigið og skerið karla og kerlingar úr deiginu. Bakið í u.þ.b. 15 mín á 160°c en fylgist með að kökurnar brenni ekki.
Látið kólna vel og skreytið svo með glassúr.
 
Glassúr:
30 g Sukrin Melis eða fínmöluð Via Health sæta
1/3 tsk xanthan gum
1 msk eggjahvíta
5 dropar stevía
 
Aðferð:
Hrærið og þynnið með smá vatni ef þörf er á.
Skreytið og njótið.
 
 
 
Rauðlaukssulta:
 
3 rauðlaukar
1 msk smjör
2 msk sukrin gold
2 msk rauðvínsedik
salt og pipar
2 msk þurrkuð trönuber, gefur mjög gott bragð
 
Aðferð:
Steikið laukana upp úr smjörinu, látið edik saman við og sukrin gold og hrærið vel í.
Þegar edikið hefur gufað upp að mestu þá er laukurinn tilbúinn. Mjög góður með kjöti og grafinni gæs t.d.