Wednesday, April 23, 2014

Súkkulaðifráhvörf eða hvað ?

Jæja nú ættu flestir að vera lausir við súkkulaðidoðann og slenið eftir páskahátíðina. Kannski búið að borða nautasteik og bernaise 3 daga í röð, páskaegg nr 6 og 7, vesturbæjarbragðaref og kókópuffs og kroppurinn orðinn pínu þungur á sér ;) Þá er nú tilvalið að hressa sig bara við og fara út í sólina að hjóla eða ganga enda veðrið LOKSINS yndislegt. Venja sig svo hratt og örugglega aftur við léttu réttina sem gefa manni miklu meiri orku til lengdar en blessaður sykurinn. Sykurvíma er tímabundið gleðiástand en fallið er hátt með tilheyrandi þreytu og væli ;) Ég veit sko allt um það. Ég prófaði nokkrar nýjar uppskriftir um helgina og síðustu daga og er alveg að elska tilbreytinguna, t.d. bara að bæta 1 msk af hörfræjum út í hrærð egg, var eins og partý í munninum. Hér eru nokkrar einfaldar og góðar uppskriftir sem má grípa í næstu daga til að rétta úr kútnum. Svo er hér hugmynd að sumarlegum eftirrétti sem gæti verið tilvalinn á sumardaginn fyrsta. Verði ykkur að góðu.
Chiagrautur með möndlum, smakkast eins og grjónagrautur:
 
Blandið saman í krukku:
100 g muldar möndlur
8 msk chiafræ
3 dl kókosflögur
2 msk kanell
dash salt
 
Aðferð:
Hristið krukkuna og skammtið ykkur svo 1/4 af blöndunni í skál.
Hellið sjóðandi vatni yfir eða skellið í örbylgjuna í 2 mín. 
Gott er að hella rjóma yfir, ég nota laktósafrían og bætti við nokkrum hindberjum.
Valmöguleiki að sæta berin með dálítilli stevíu.
Þessi bragðast nánast eins og grjónagrautur þar sem möndlurnar gefa smá bit.
 

Kotasælupönnsur:
 
1 dl eggjahvítur(um 3 egg)
30 g kotasæla
1 msk prótín NOW eða Nectar
1/2 tsk vanilla
1 tsk sukrin melis
(eða nokkrir dropar Via Health stevía)
1/2 tsk lyftiduft
40 g möndlumjöl
1/3 tsk kanell
Aðferð:
Allt sett í blender og mixað vel.
Steikt á smurðri pönnu.
Þessar eru mjög léttar og bragðgóðar, fínar með sykurlausri sultu,
eða bara smyrja með smjöri og osti.
Eggjahræra með avocado og hörfræjum.
Hrærið saman 1 egg, og slurk af eggjahvítum ( t..d úr brúsa) pískið saman með gaffli og kryddið með pipar. Bætið 1 msk af hörfræjum saman við hræruna og steikið svo á pönnu. Þegar eggin eru elduð þá bætti ég við niðurskornu avocado út á og kryddaði aðeins meira. Mjög skemmtileg tilbreyting í eggjaréttaflóruna. Lítur kannski ekki brjálæðislega vel út en var mjög bragðgott.
 
 
Sumarlegur desert:
 
Marenstoppar:
1 dl eggjahvítur( við stofuhita)
50 g sukrin melis
1/2 tsk cream of tartar eða vínsteinslyftiduft
nokkur saltkorn.
 
Aðferð:
Stífþeytið eggjahvíturnar og cream of tartar/ lyftiduftið. Saltið örlítið og bætið svo Sukrin Melis saman við. Þeytið áfram þar til toppar fara að myndast í skálinni. Sprautið blöndunni í litla toppa á bökunarpappír og bakið í 120°c með blæstri í 15 mín ca. Leyfið toppunum að kólna í ofninum og blandið saman desertinum á meðan:
 
Innihald:
 
Hindber
Bláber
Jarðaber
Rjómi
Skyr.is vanillu
 
Súkkulaðisósa:
1 msk kakó
2 msk sukrin melis
þynna með möndlumjólk
6 dropar Via Health stevía, td. karamellu
 
Setjið nokkur ber í botn á glasi, msk af skyr.is vanillu, svo nokkrar marenstoppa, smá rjóma og aftur ber, skyr, marens, rjóma og svo koll af kolli.
Í lokin hellti ég smá súkkulaðisósu yfir réttinn og bar strax fram. Létt og gott en lítur út fyrir að vera rándýrt stuff !!!
 
 

 

Monday, April 14, 2014

Páskaegg og piparmynta

Jæja þá er farið að styttast í páskana og freistingarnar eru í gámavís í verslunum landsins. Súkkulaði af öllum stærðum og gerðum, troðfullt af sykri og gúmmelaði. Örvæntum þó ekki, borðum bara vel áður en farið er í verslunarferðina og verum skynsöm. Það er auðvelt að útbúa sykurlaus egg ef maður vill ekki vera einn úti í horni á páskadag með eitt harðsoðið og mér finnst piparmynta svo góð að ég ákvað að fylla mín egg með piparmyntukremi.
 
Piparmyntufyllt páskaegg
 
Fylling:
100 g kókosolía
80 g sukrin melis
2 tsk piparmyntudropar ( KÖTLU )
10 dropar Via Health stevía, bragðlaus
1/2 tsk vanilludropar
1 msk rjómi má vera laktósafrír
 
Pískið allt vel saman, tekur smá stund að blandast en það gerist öruggulega. Hellið í konfektform og frystið.
 
Súkkulaðið í eggin:
60 g kókosolía
70 g kakósmjör ( fæst frá Sollu í gylltum pokum)
50 g Sukrin melis
30 g kakó
10 dropar Via health stevía bragðlaus eða vanillu
1 tsk hnetusmjör
nokkur saltkorn
 
Hitið olíuna og smjörið saman, blandið sætunni út í og að lokum kakóinu.
Hellið súkkulaði í páskaeggjaform (ég keypti svona litla helminga) upp að 1/3 Frystið.
Setjið nú frosið piparmyntunammið ofan í formin, gæti þurft að skera niður í litla bita ef það er of stórt. Hellið svo restinni af súkkulaðinu yfir og frystið aftur. Tilbúið eftir 20 mín fylltir súkkulaðimolar eða egg með piparmyntu.
Ath. að piparmyntuuppskriftin er pínu stór, mætti helminga hana eða eiga bara aukalega af piparmyntunammi til að maula á eða nota sem krem á köku.


 Sama uppskrift og af fyllingunni en hér bætti ég við 1/2 tsk af xanthan gum.
Hentar vel á súkkulaðiköku, t.d. franska súkkulaðiköku.
 

Monday, April 7, 2014

Ferðalangur komin heim

Jæja þá er snúllan mín komin heim frá Suður Ameríku, reynslunni ríkari með fulla bakpoka af minningum í bland við óhreina sokka og ókeypis hostel stuttermaboli. Það var mjög gott að knúsa litla barnið okkar sem hefur nú skotist framúr foreldrunum í ferðamennskunni. Við kölluðum á fjölskylduna í smá heimkomupartý og eftir velheppnaða máltíð sem var innblásin af frægum rétti frá Perú þá var sest að veisluborði. Hún Mekkín er mikill aðdáandi Minion teiknimyndafígúranna og bakaði mamman því eina Minion köku handa prinsessunni. Kakan er í rauninni bara 2 föld uppskrift af Dönsku súkkulaðitertunni hér á blogginu og svo gerði ég tvöfalda uppskrift af rjómaostakremi með sem ég litað í réttum litum, augun og hnappar úr sykurlausum Le Bron lakkrís og IKEA krukkulok reddaði glerauganu ;). Uppskriftirnar eru báðar í bókinni minni Brauð og eftirréttir Kristu en einnig má finna þær hér á síðunni.  Það voru einnig bornir fram ýmsir réttir sem daman hafði pantað við heimkomuna enda komin með meira en nóg af grjónum, kartöfluréttum og naggrísum !! Aspasrúllubrauð, önnur brauðrúlla með chorizo og avocado en marens pavlovur fylltar með berjum og rjóma settu svo punktinn yfir i-ið. Nú mun ég hafa hana hjá mér í eina viku áður en hún heldur á vit annarra ævintýra í kóngsins Köbenhavn.

Einn frægur réttur í Perú kallast Aji de Gallina og samanstendur af kjúkling og sterkri hnetu-og ostasósu sem er rjómakennd og góð. Yfirleitt er rétturinn borinn fram með kartöflum, grjónum soðnum eggjum og ólífum en í minni tilraun til að snúa uppskriftinni yfir á lág kolvetna máta þá notaði ég blómkálsgrjón. Ég hélt mér þó við eggin og ólífurnar en í stað brauðsins sem notað er til að þykkja sósuna þá bætti ég við dálitlu af chia seed meal.Bragðið er alveg himneskt og fyrir þá sem þola sterkan mat þá mæli ég sérstaklega með þessum.

Aji de Gallina:

4 kjúklingabringur
1 l vatn + 2 kjúklingakraftsteningar
100 ml olía t.d. ljós ólífuolía
3 hvítlauksrif
1 gulur laukur
3-4 gulir aji pipar
(ég keypti spænskan gulan chillipipar í Hagkaup og lét það duga, mætti nota jalapeno líka)
3 msk pekan hnetur eða valhnetur, niðurbrytjaðar
3 msk parmesan ostur
4 msk sýrður rjómi
2 harðsoðin egg
10 svartar ólífur
150 ml rjómi
2 msk chia seed meal
 
Setjið vatn í pott ásamt kjúklingakrafti og sjóðið, setjið kjúklingabringurnar út í vatnið og látið sjóða í 10 -15 mín. Kælið.
Í matvinnsluvél fara fræhreinsaðir piparbelgirnir og olían. Maukið vel. Steikið laukinn og hvítlaukinn á pönnu upp úr piparmaukinu og þegar laukurinn er orðinn glær þá takið þið pönnuna af hellunni.
 
Setjið í matvinnsluvélina parmesanost, hnetur og rjóma og maukið saman ásamt laukblöndunni. Setjið þetta mauk aftur á pönnuna ásamt 1/3 af kjúklingasoðinu. Rífið nú niður kjúklingabringurnar og bætið út í sósuna. Hér er gott að setja um 4 msk af sýrðum rjóma út í kássuna og milda bragðið sem gæti verið pínu sterkt. Látið krauma á pönnunni þar til borið er fram með blómkálsgrjónum, harðsoðunum eggjum og ólífum. Ljómandi fínn og spennandi réttur.
 
 
 

 


Sunday, April 6, 2014

Skonsur og sítrónur

Namm, eitt af því sem við fengum að smakka í morgunmatnum í Skjaldarvík sem er frábær gististaður fyrir norðan, rétt áður en komið er inn á Akureyri, það var sítrónusulta. Hún var auðvitað löguð með sykri og því var bara nánast þefað af góðgætinu en ekki gúffað :( Það er þó vel hægt að snúa þessu áleggi yfir í sykurlausa útgáfu og heppnaðist þrælvel í morgun. Ég þarf alltaf að bæta og breyta smá svo ég setti engifer í mína uppskrift og fannst það gera heilmikið. Þetta er æðislegt meðlæti t.d. með ostum og á kex eða skonsur og svo má setja þetta á pavlovur eða litlar marenstertur og bera fram :) Prófið bara og um að gera að kaupa góðar lífrænar sítrónur því börkurinn er mikilvægur í þessa uppskrift. Njótið elskurnar !! Skonsurnar eru svo úr bókinni minni og ég set þær hér neðst í bloggið.

 Sítrónu og engifersulta
 
3 sítrónur, bestar lífrænar
100 g smjör
100 g sukrin
10 dropar stevía, Via Health
6 eggjarauður
1 tsk rifinn engifer(má sleppa en mér finnst það æði)
 
Aðferð:
Hitið smjör í potti þar til það er bráðið, lækkið hitann og blandið saman safanum úr 3 sítrónum, ætti að vera um 100 ml. Því næst setjið þið sukrin saman við, stevíu, rifinn börk af sítrónunum þremur og engiferið. Hrærið vel þar til sukrinið hefur leyst upp. Takið pottinn af hellunni og leyfið blöndunni að kólna örlítið. Pískið nú saman við eggjarauðunum 6 (gerið marens úr hvítunum) og látið pottinn aftur á helluna á lágan hita. Pískið stöðugt á meðan sultan þykknar.
Þetta tekur um 5 mín sirka. Sigtið svo þykkri blöndunni í skál og látið kólna á borði. Þetta geymist svo í lokuðu íláti í um það bil mánuð.
 
 
 
Skonsur:
160 g möndlumjöl, ljóst (hýðislausar möndlur)
20 g kókoshveiti
¼ tsk matarsódi
¼ tsk lyftiduft
50 g kókosolía eða smjör
100 ml ósæt möndlumjólk
½ tsk kardimommur
1 pískað egg
10 dropar stevía (má sleppa)
 
Aðferð:
Blandið þurrefnum gróflega saman og hrærið svo kókosolíunni út í; ágætt er að nota fingurna.
Blandið því næst möndlumjólkinni saman við. Deigið verður nokkuð blautt svo það þarf að dreifa dálitlu af möndlumjöli á smjörpappír og fletja það út svo það festist ekki á borðplötunni.
Fletjið deigið út í u.þ.b. 1 cm þykkt og notið glas til að skera út hringlaga skonsur. Lyftið þeim varlega yfir á bökunarplötu með spaða og fletjið svo aftur út afgangsdeigið. Endurtakið leikinn þar til deigið er fullnýtt. Penslið með pískuðu eggi.
Bakið í 15 mínútur við 180°C þar til skonsurnar eru gylltar á lit, takið úr ofni og kælið. Þessar skonsur eru frábærar með smjöri og osti, rjómaosti og sultu, svo ég tali nú ekki um góðum tebolla.
 
 

Tuesday, April 1, 2014

Ferðalög og nesti

Jæja nú erum við hjúin komin heim eftir velheppnað námskeiðahald norðan heiða. Fórum af stað á föstudegi og komum seint í gær en við héldum námskeið bæði á Akureyri og Húsavík. Mikið var gaman að hitta allar þessar hressu konur, já enginn karlmaður í þetta sinn en það var mikið spjallað og maturinn rann ljúflega niður, eða það vona ég. Ég upplifði örlítið hversu félagslega heftur maður getur verið ef farið er eftir lág kolvetna mataræði út í fingurgóma og skyndibiti í sjoppum og á veitingastöðum er oftar en ekki samsettur úr stórum hluta kolvetna. Brauðlokur, bátar, vefjur, pizzur og meira að segja salötin eru stútfull af hveiti og glúteni og því ekki hlaupið að því að næla sér í nesti. Þó er auðvitað hægt að kaupa sér skyr og salat í matvöruverslunun og eins hægt að kaupa sér roastbeef eða annað álegg á flestum stöðum. En svona almennt þá er pínu maus að koma við í næstu lúgu og kaupa sér eitthvað hentugt. Við nestuðum okkur upp fyrir ferðina með túnfisksalati og samlokum og það dugði okkur nú langleiðina en mikið væri nú gott ef úrvalið væri meira á þjóðvegunum fyrir okkur með sérþarfirnar.  Hér er uppskrift af fljótlegu brauði sem gert er í örbylgjuofninum og bæði hægt að rista og nota sem samlokubrauð.

Ristað brauð:
1 msk möndlumjöl
1 msk golden flax seed meal eða chia mjöl
1 tsk HUSK
1/2 tsk lyftiduft
1 egg
1/2 tsk kúmen
ögn salt
þynnt með 1-2 msk möndlumjólk eða rjóma

Sett í þunnt form (gott að spreyja með pam eða kókosfeiti) og eldað í örbylgjunni í 2.30 mín
Skerið brauðið í tvennt og ristið í brauðrist. Má rista 2x til að fá extra skorpu
Mjög bragðgott,sérstaklega með tebollanum en eins er hægt að smyrja brauðið og setja álegg eins og skinku, avocado, aioli mæjónes, ruccola, egg .... eða hvað sem er í rauninni.

 
 
 

 
Thursday, March 27, 2014

Ferming framundan ?

Jæja nú fara fermingarveislurnar að skella á með tilheyrandi bakstri og kökuáti! Ég vildi prófa að setja mig í spor fermingarmömmunnar þó svo að ég sé nú búin að ferma tvö börn af þremur og eigi nokkur ár í síðustu veisluna. Það er bara svo gott að hafa afsökun fyrir að baka eitthvað gómsætt öðru hverju. Marens varð fyrir valinu ásamt kransakökutoppum sem mér finnst alltaf skemmtilegir og góðir en ég man að amma mín Bagga bakaði þá alltaf fyrir okkur systkinin ásamt risastórri kransaköku þegar við fermdust. Hér er uppskriftin af marens sem klikkar ekki ef farið er eftir nokkrum grunnreglum. Uppskriftin af toppunum er þar fyrir neðan, einföld og afar fljótleg.

1. Hafa eggjahvítur alltaf við stofuhita
2. Nota hreina skál, stál eða gler
3. Nota cream of tartar eða vínsteinslyftiduft og pínu salt
4. Baka við lágan hita og sýna bakstrinum þolinmæði.
5. Mér finnst góð lausn að sprauta marengs í toppa því þá bakast hann vel og verður stökkur.


Marengsterta með jarðarberjum og karamellusósu
2 stórir botnar, ágætt að skipta uppskrift í tvenna og baka í tvennu lagi svo allt gangi sem best.
 
3 dl eggjahvítur við stofuhita (um 8 hvítur)
120 g Sukrin Melis
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk Cream of tartar eða vínsteinslyftiduft
nokkur saltkorn
26 dropar stevía, Via Health, bragðlaus
 
Aðferð:
Hitið ofn í 120°C með blæstri
Þeytið eggjahvíturnar í tandurhreinni hrærivélaskál eða glerskál þar til þær fara að freyða. Bætið þá við Sukrin Melis, cream of tartar, salti og vanillu.
Þegar marensinn fer að mynda stífa toppa þá setjið þið hann í sprautupoka. Mér fannst fallegt að nota wilton 1M rósastút og eftir að hafa markað fyrir hring á
smjörpappír þá sprautaði ég rósum á pappírinn innan í hringinn og lét þær rétt snertast.
Uppskriftin dugar í 2 góða botna.
Bakið nú við 120°C í 15 mín, neðarlega í ofninum, lækkið þá niður 90°C og bakið í aðrar 20 mín, fylgist með því að þeir dökkni ekki um of.
Látið svo botnana bíða í ofninum eftir bakstur í 2 klst. Það er ekki vitlaust að baka einn botn í einu til að baksturinn verði sem bestur, svo má setja þá í ofninn og kæla í 2 tíma.

Fylling:
1 peli rjómi
1/2 tsk vanilludropar
1 box fersk jarðarber
1 msk balsamedik (má sleppa)
3 msk kókosflögur, Himnesk hollusta
 
Aðferð:
Þeytið rjómann með vanillunni og skerið niður jarðarberin, dreypið 1 msk af balsamediki yfir(má sleppa) en það gerir samt svo mikið. Setjið helming rjómans á neðri botninn, dreifið jarðaberjum yfir og svo kókosflögunum, afgangurinn af rjómanum þar á eftir og svo fer efri kökubotninn ofan á.
Dreypið karamellunni yfir kökuna í lokin.
 
Karamella:
1 tsk smjör
nokkur saltkorn
50 g Sugarless sugar eða Sukrin gold
1/2 tsk vanilludropar eða duft
30 ml rjómi

Aðferð:
Bræðið smjörið í potti við meðalhita ásamt sætuefninu, látið krauma í dálitla stund. Þegar karamellan er farin að verða dálítið brúnleit þá er rjómanum bætt saman við.
Hrærið vel þar til allt er vel blandað saman. Takið pott af hellunni og látið kólna örlítið.
Best er að setja rjóma og niðurskorin jarðaber á milli botnanna tveggja og kæla í ískáp í ca klst. Þá er karamellunni dreypt yfir kökuna.  Borið fram og notið með bestu lyst.
 
 
 
 
Kransakökutoppar
200 g möndlumjöl(ljóst) eða mala hýðislausar möndlur
60 g Sukrin Melis
2 eggjahvítur
30 dropar bragðlaus stevía, Via Health
1 tsk möndludropar
1 tsk sítrónusafi
40 g rjómi
 
Aðferð:
Blandið öllu vel saman í matvinnsluvél þar til þétt mauk hefur myndast.
Setjið deigið í sprautupoka, sprautið litlum rósum á bökunarpappír og bakið í 10 mín við 180°C m blæstri.
 
Súkkulaðibráð:
30 g sykurlaust súkkulaði, ljóst eða dökkt Rapunzel/ Stevía eða Valor t.d.
2 tsk sukrin melis
10 dropar Via Health stevía, karamellu
1 tsk bragðlaus kókosolía
 
Bræðið súkkulaðið saman t.d. í örbylgjuofni. Hrærið vel í og dýfið svo botninum á kældum kransakökutoppunum ofan í bráðina.
Leggið á smjörpappírinn og ágætt að setja í ísskáp eða frysti í nokkrar mín.
Þessir eru afar góðir með kaffinu.

Tuesday, March 25, 2014

Túrmerikæði

Jæja nú er það túrmerik heillin ! Ég rakst á þessa ræfilslegu rót í Fjarðarkaupum nú fyrr í vikunni og þrátt fyrir útlitið þá hef ég fulla trú á styrk þessa litla rótarávaxtar. Liturinn sem hún gefur frá sér er allavega mjög öflugur enda gefur hún gula litinn í karrýið sem allir þekkja.  Það á því vel við orðatiltækið, "margur er knár þótt hann sé smár". Talið er að túrmerik hafi jákvæð áhrif á ýmis eymsli í líkamanum þá helst bólgum sem er oft helsta orsök ýmissa alvarlegra kvilla og sé mjög andoxandi. Það er að þakka efni í túrmerikrótinni sem nefnist kúrkúma (curcumin) og samkvæmt nýjustu vísindalegu rannsóknum er það eitt öflugasta efnið til verndar heila og taugakerfisins. Ekki slæmt það ? Þó er mælt með því að nota svartan pipar með turmerikkryddinu til að auka áhrifin og það er lítið mál. Ég ákvað að prófa túrmerik í nokkrar uppskriftir því stundum vill vefjast fyrir fólki hvernig er best að koma henni ofan í sig ef hún er ekki tekin í hylkjum. Hún gefur fallegan lit og gott bragð í súpur, gerir boost mjög kryddað og spennandi og eins er hægt að sjóða upp af því hálfgert seyði sem má sötra á, heitu eða köldu.
 
Grænmetissúpa:

1/2 haus hvítkál
1 gulur laukur
1 græn paprika
2-3 sellerí stilkar
1 dós af diced HUNTS tómötum (eða Whole)
2 stk grænmetisteningar Rapunzel (gerlaus)
2 tómatadósir af vatni
2 cm fersk turmerikrót
2 cm engiferrót
svartur pipar
salt eftir smekk

Ég skar þetta niður og setti í pott, látið malla í 20 mín eða þar til grænmetið er mjúkt.
Súpan má alveg vera svona í bitum en mér finnst alltaf svo gott að mauka súpur betur niður svo ég veiddi það svo upp og setti í matvinnsluvél/blender, hellti vatninu með og maukaði, má líka nota töfrasprota. Geymist vel í kæli og hægt að hita upp þegar svengdin kallar.
Gott er að setja rifinn ost út á súpuna þegar hún er borin fram eða sýrðan rjóma og jafnvel smá ferska basiliku. Það verður allt svo fallegt og girnilegt með fersku kryddi.
 
 
Kryddað hvítkál:
 
400 g hvítkál
2,5 cm engifer
3 hvítlauksgeirar
75 g jarðhnetur (má sleppa)
1 tsk turmerik
1/2 sítróna eða lime
1 msk fiskisósa ( mætti líka nota smá tamari sósu í staðinn)
2 msk hnetuolía eða sesamolía
1 lúka ferskt kóriander eða 1 tsk kórianderduft
 
100 ml sjóðandi vatn sett í skál ásamt turmerik og hrært, bætið sítrónu og fiskisósu við.
Hitið olíuna á pönnu og bætið hvítkálinu út í ásamt engifer, hvítlauk og hnetum ef þær eru notaðar.
Hrærið í 2-4 mín. Bætið nú við túrmerikvatninu og hitið vel í gegn. Bætið í lokin við kóriander og kreistið sítrónusafa yfir. Það má líka krydda meira ef þörf krefur, jafnvel með 1 tsk af chillidufti.
Þetta er mjög góður réttur með kjúkling eða fisk, eða bara einn og óstuddur.

Hollur og grænn "smoothie"
 
Klaki
vatn
1/2 avocado
lúka spínat
2 cm turmerik
1 msk hampfræ
1 skammtaskeið prótín (má sleppa)
 mæli þá með stevíudropum til að sæta í staðinn
 
Blandið öllu saman í blender og njótið t.d. eftir góða æfingu.
 
 
Turmerikdrykkur:
 
2 L vatn
2 lime
3 msk turmerik duft eða 90 g fersk turmerikrót
(sumum finnst það kannski aðeins of mikið af hinu góða en þá er líka hægt að nota
t.d. 30 g ferskt og 2 msk duft )
1/2 cup sliced fresh ginger
1/4 tsk cayenne pipar
30 dropar sítrónustevía, Via Health
1/2 tsk svartur pipar
 
Setjið allt í stóran pott, mér fannst ágætt að rífa niður engifer og túrmerikrót( ferska) í matvinnsluvél.
Látið krauma í það minnsta í 30 mín. Sigtið svo hratið/sítrónurnar frá vatninu setjð í stóra könnu,
bætið vatni og stevíu við eftir smekk og geymið í ískáp. Hristið vel drykkinn eða hrærið áður en hans er neytt. Berið fram heitt eða kalt eftir því sem hentar betur.