Wednesday, July 23, 2014

Fljótlegur matseðill fyrir einn dag

Já ég veit, hef verið frekar slöpp hér undanfarið, búin að vinna mig upp að öxlum undanfarið, sinna fjölskyldu og vinum, skaust svo aðeins í bústaðinn og eyddi því litlum tíma í bloggið. Ég passaði mig þó á að næra mig og sleppi helst ekki úr máltíð ;) og alltaf er síminn við hendina svo ekkert fari nú framhjá ykkur kæru vinir sem og öllum mínum fésbókarvinum, þeim til ómældrar ánægju .... hohoh. En allavega ef þið viljið skella í fljótlega rétti þá eru hér 4 góðir sem gætu hentað sem morgunmatur, hádegismatur, kaffi og kvöldmatur. Tekur öööörskamma stund að útbúa og þeir eru mjög lágir í kolvetnum. Líklega eru graskersfranskarnar einna stærsti hlutinn ef um kolvetni er að ræða en þær eru svo sjúklega góðar að ég leyfði mér nokkrar um helgina :) Jæja hér er þetta og vonandi getið þið nýtt ykkur eitthvað af þessu.
 
Morgunverður:
Bulletproof
 
1 sjóðheitur kaffibolli
1 msk ósaltað smjör
1 msk kókosolía
 
 
Aðferð:
Allt sett í blender og drukkið með bestu lyst
 
Hádegismatur:
Beikonostapönnsur
2 egg
2 góðar msk beikonsmurostur ( ná nota aðra osta)
1 msk HUSK
2 ostsneiðar
 
Aðferð:
Pískið allt saman með töfrasprota, eða litlum blender/þeytara. Steikið 2 góðar pönnsur á pönnsupönnu( ég nota nú teflon til að einfalda mér lífið )
setjið sitthvora ostsneiðina á pönnsurnar og rúllið upp. Hitið í nokkrar sek í örbylgjuofni og piprið svo aðeins fyrir neyslu :) mjög saðsamar þessar.

Kaffitími/ Millimál:
Kanilsnúðar á 5 mín í öbba.
 
20 g kókoshveiti( rúmleg msk)
20 g HUSK grófa ( rúmleg msk)
10 g sukrin melis
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 egg
1/4 tsk vanilludropar
2 msk vökvi(vatn, möndlumjólk, rjómi)
örfá saltkorn
 
Hrærið þurrefnum og svo bætið þið við egginu og vökvanum, hrærið soppuna þar til hún er kekkjalaus með gaffli t.d.
smyrjið deiginu í lítinn ferning á plastfilmu og látið standa þar þar til búið er að gera fyllinguna.
 
Fylling:
1/2 msk brætt smjör
1 msk sukrin
1 tsk kanell
 
Hrærið saman kanelsykri og bræðið smjörið. Dreifið kanelsykrinum yfir deigið og látið svo smjörið drjúpa varlega yfir allt saman. Rúllið upp snúðunum með plastfilmunni og skerið í 9 litla snúða. Setjið yfir á smjörpappír og bakið í örbylgjunni á hæsta styrk í 2.30 mín.
Leyfið snúðunum að anda aðeins og kólna áður en þeirra er neytt. Eggjalyktin hverfur fljótt ;)
Þetta ætti ekki að taka mikið meira en 5 mín, kannski 10 mín með tiltekt :)
 


 Kannski ekki að líta neitt stórkostlega girnilega út svona í byrjun , en bragðið svíkur ekki :) Ooog þeir haldast mjúkir og fínir þar til þeir eru búnir !!!
Kvöldmatur:
 
Beikonvafðar kjúklingabringur með höfðingja:
Kjúklingabringur
Beikonlengjur
Blár höfðingi
 
Aðferðin er ekki flókin, skerið litla vasa í bringurnar og laumið vænni sneið af höfðingjaosti inn í , vefjið svo 2 beikonlengjum um hverja bringu, stingið grillpinna í gegn til að halda þessu vel saman. Kryddið með kjúklingakryddi og bakið í ofni í 20-30 mín, 180°c sirka.
Graskersfranskarnar sem eru hér með eru bara hreinlega skornar í ræmur, kryddað með Herb de Provance og olíu, skellt á bökunarplötu og jafnvel einum rauðlauk með. Bakað í ofni ásamt kjúklingnum í 30-40 mín.
 













Wednesday, July 16, 2014

Eggjapartýi heldur áfram

Jæja, ef einhver heldur því fram að kolvetni séu nauðsynleg fyrir virka heilastarfssemi þá vil ég hitta viðkomandi í kaffi og ræða það aðeins, því síðustu daga eða vikur hef ég verið á mjööög kolvetnasnauðu fæði og hef sjaldan verið eins virk (ofvirk) segjir maðurinn minn reyndar. Hugmyndirnar spýtast úr kollinum, og vinnugleðin er í hámarki. Ég útbjó til dæmis heila vörulínu af nýjum hárböndum fyrir www.kristadesign.is á 3 dögum, tók myndir, vann þær, gerði umbúðir klárar og náði að gera ágætan lager í ofanálag.  Hvort það sé orka úr eggjunum sjálfum eða hreinlega bara fjarvera sykursins og "verri" kolvetna þá er það eitthvað sem veldur. Mér líður afar vel á föstunni, tek svona 4-5 daga í beit og hvíli svo á milli með hefðubundnu "Ketó" fæði. Takmarka öll kolvetni eins og hægt er en leyfi mér samt brokkolí og gott grænmeti með helgarsteikinni.





Ég ákvað í morgun að útbúa mér þessa ljúffengu beikonostasnúða til að eiga yfir daginn en það er afar fljótlegt að skella í þessa uppskrift, engin lyfting og vesen eins og í hefðbundunum brauðbakstri.

Þetta er grunnurinn af Oopsie brauðum og því margir sem kannast við aðferðina:
Beikon ostasnúðar
120 g rjómaostur hreinn
4 egg aðskilin
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 msk HUSK
6-8 dropar bragðlaus Via Health stevía
nokkur korn salt
 
Aðferð:
Þeytið eggjahvítur sér með vínsteinslyftiduftinu. Þeytið rjómaost og eggjarauður í skál og bætið HUSK salti og stevíu út í. Blandið helming af eggjahvítunum kröftuglega saman við rauðurnar og svo veltið þið restinni af hvítunum saman við með sleif.  Hellið deiginu á smjörpappírsklædda bökunarplötu og bakið í 10 mín á 170°C heitum ofni með blæstri.
 
Fylling:
50 g camenbertsmurostur
50 g beikonsmurostur
 
Takið deigið út þegar hægt er að snerta á því með fingrinum og dreifið beikon og camenbertostinum yfir í litlum doppum. Rúllið pappírnum aðeins upp svo hægt sér að rúlla deiginu upp í rúllu, er pínu heitt svo farið varlega, notið endilega pappírinn til að hjálpa til. Skerið svo rúlluna niður í snúða og dreifið rifnum osti yfir hvert stk. Bakið aftur undir grilli í 3-5 mín þar til osturinn verður gylltur og fínn. Þetta er saðsamt og ljúffengt og ég tími varla að setja þetta á borðið hjá unglingunum :)

Tuesday, July 8, 2014

Eggjafestival

 Jæja kæru vinir, nú er ég búin að liggja í lungnabólgu eftir Tyrklandsferðina góðu, æfa frekar lítið, ferðast til Siglufjarðar með stórfjölskyldunni og freistast í allskonar vitleysu. Þar má til dæmis nefna heimagerðu skonsurnar hennar Tótu mágkonu, döðlugott sem einhverra hluta vegna var útbúið rétt fyrir ferðina og ýmislegt annað sem hnaut um varir mínar og er ekki það besta fyrir kroppinn. Því er ekki annað hægt en að rífa sig upp á rassinum og snúa við blaðinu áður en út í óefni er komið.


Ég las um eggjaföstu í bílnum á leið heim sem er talin vera ágætis leið til að skjótast hratt aftur í "ketó" ástand og ákvað ég að prófa þetta bara til að losna við sykurpúkann sem flutti inn um helgina. Mér finnst það reyndar frekar fyndið að akkurat núna þegar ég dembi mér í þetta, þá ákveða hænurnar mínar að liggja sem fastast á eggjunum og meira að segja komnir 7 hressir hænuungar á efri hæðina hjá mér. Þar tísta þeir ótt og títt í öruggu skjóli frá villkisunum sem búa undir hænsnakofanum og líður bara nokkuð vel í hitanum með fullar skálar af fóðri og er dekrað við þá á allan hátt.
Ég verð því víst að kaupa eggin og reyna að vera frumleg næstu daga í eggjaréttum svo "eggjafestivalið" geti hafist. Ég er reyndar búin með einn dag og hann gekk mjög vel, engin svengdartilfinning til að tala um en ég fékk mér bulletproof kaffi í morgunmat, harðsoðin egg með mæjó í hádeginu, eggjapönnsur um miðjan daginn, ommilettu í kvöldmat og eggjacreme brulee í desert.  Þetta kanna að hljóma rosalega illa fyrir einhverja, en ég er nú bara nokkuð heppin með að finnast egg þrælgóð svo þetta hentar mér vel, ég er líka mjög upptekin þessa daga við vinnu enda Hrafnagilshátíðin norður á Akureyri framundan og því ekki mikill tími aflögu fyrir eldamennsku og snúllerí. Hér eru málaðar perlur fram á rauða nótt, klippt niður í keðjur og hálsmen og umbúðir brotnar í óða önn. Það er hægt að lesa sig til um þessa eggjaföstu hér á þessari slóð http://ketogenicwoman.com/egg-fast-diet/ og svo má aðlaga þessa föstu eftir því sem hentar.

Aðalmálið er að hafa egg sem aðalprótíngjafa, 1 msk af smjöri eða annarri fitu á hvert egg og svo má fá sér eitthvað af osti fyrir þá sem það vilja yfir daginn, drekka helling af vatni, kaffi og kókosolíu.
Ég stefni allavega á 3 daga til að byrja með en 5 daga ef ég mér líður rosalega vel á þessu :) svo er það bara að taka upp hefðbundið LKL fæði þar á eftir og koma sér á beinu brautina. Ég setti með hér neðar uppskrift af svona eggjabúðing sem er aðlagaður eftir erlendri fyrirmynd og smakkaðist bara nokkuð vel.



"Karamellu creme brulee" 4 skammtar
2 egg
60 g hreinn rjómaostur
220 ml vatn
1 1/2 msk af sætuefni, Sukrin eða Sukrin gold.
1/2 tsk vanilludropar
10 dropar karamellustevía

Aðferð:
Þeytið öllu saman með töfrasprota, deilið í 4 skálar sem þola ofn og bakið í ofni í eldföstu móti með vatni (ekki vatnið í uppskriftinni heldur aukalega úr krananum þar til fatið er 2/3 fullt) í 170°C hita í 30 mín. Þetta er svo tekið úr ofninum, látið kólna og ef þið viljið gera vel við ykkur þá er örlitlum sukrin gold sykri stráð yfir hvern búðing og brennt með þar tilgerðum creme brulle hitara.
 






Sunday, June 29, 2014

Sveppasúpan góða

Jæja þá er helginni að ljúka og eftir skemmtilegt matarboð í gærkveldi með góðum vinum okkar sem leiddi til þess að morgunlúrinn dróst eitthvað fram á daginn þá sest ég nú loks niður við tölvuna og hendi inn einu bloggi.  Eins og ég sagði þá eyddum við gærkvöldinu með matarklúbbnum okkar sem samanstendur af 3 pörum úr öllum áttum en þó tengjumst við innbyrðis á mismunandi hátt sem er bara skemmtilegt. Maturinn var æðislegur, fiskur, humar, sjúklega gott meðlæti og rabbarbarapæ í eftirrétt og vel veitt af öllu, enda þau hjónin ekki þekkt fyrir annað. Það sem mér þótti þó best var að bróðurpartur kvöldsins fór í að dást að afrekum barnanna okkar, en við skiptumst á að sýna frá uppátækjum þeirra sem ratað hafa á youtube, já tæknin maður !! Þar mátti meðal annars finna tónlistarmyndbönd, hryllingsstuttmyndir og downhill hjólaferðir svo eitthvað sé nefnt. Svona á lífið að vera og ég mun seint hætta að monta mig af þessum krökkum okkar sem eru hreint út sagt frábær og hæfileikarík. Þar hafið þið það.  En að öðru, ég skellti í sveppasúpu fyrr í vikunni sem var alveg ljómandi fín og þar sem mér hefur alltaf fundist ofursvalt að bera súpur fram í brauði líkt og á Svarta kaffi þá þrjóskaðist ég við og bakaði 3 súpubrauð úr uppskrift sem ég nota oft í "Hlöllabátsbrauðin" góðu. Það má auðvitað baka minni bollur og bera súpuna fram í súpuskál !! en mér fannst hitt eitthvað svo töff. Mæli með að þið prufið þessa súpu, meira að segja hann Nói  minn atvinnugikkur sagði "tveir þumlar upp !!"







Sveppasúpa með timian í brauðbollu:
 
 200 g sveppir
 smjörklípa
 4 vorlaukar
 1 hvítlaukur(solo) eða 2 venjuleg rif
 1 sveppateningur
 1 L vatn
 100 g sveppaostur
 250 ml rjómi t.d. laktósafrír
 1 tsk timian krydd, má nota meira og líka nota ferskt
 2 msk chiamjöl( má líka nota xanthan gum)
 pipar og salt
 
Aðferð:
Steikið sveppi upp úr smjöri, bætið við laukunum og látið brúnast vel. Hellið þá vatninu út á og kryddið. Sveppaosturinn og rjóminn fara síðast út í og látið malla í 10-15 mín.
 
 
Brauðið er sama uppskrift og af Hlöllabátunum en hér með 1 sveppakraftstening í vatninu:
 
200 g ljóst möndlumjöl eða malaðar hýðislausar möndlur
 5 msk Physillium HUSK DUFT, ath verður að vera duftið í baukunum frá NOW
 2 tsk vínsteinslyftiduft
 3 eggjahvítur eða 1 dl
 250 ml sjóðandi vatn með 1 sveppakraftstening
 2 msk eplaedik
 1/2 tsk sjávarsalt
 
Aðferð:
 Forhitið ofn í 180°C og notið blástur.
 Blandið þurrefnum saman í matvinnsluvél, bætið eggjahvítu saman við og hrærið vel, sjóðandi sveppasoðið
 fer svo út í síðast og hrært vel. Látið deigið standa í skálinni í 5-10 mín. Mótið þá bollur
 (gott að nota einnota hanska eða setja pínu olíu í lófana) Mótið ca 3 stór súpubrauð úr deiginu og setjið á bökunarplötu,
 líka hægt að móta fleiri litlar bollur og borða blessaða súpuna úr skál, hitt var bara svo töff.
 Bakið í 50 mín með blæstri neðarlega í ofni.
 Kælið, rífið innan úr brauðinu og berið súpuna fram með rjómadoppu og fersku timian
 
 
 
 
 
 
 

Thursday, June 26, 2014

Ís og súkkulaði, já takk !

Eins og þið takið eflaust eftir þá er ég pínu ofvirk þessa dagana, kannski þar sem sólin er einhversstaðar að sinna öðrum erindum og þar af leiðandi fer ég lítið í garðinn að stússast. Hef því verið að leika meira í eldhúsinu og prófa mig áfram með eitthvað gotterí. Hér eru tvær góðar uppskriftir sem eru algjört jumm, súkkulaði sem bragðast pínu eins og mjólkursúkkulaði, fullt af kókosolíu sem er fínt fyrir þá sem eiga erfitt með að koma ofan í sig hollu góðu fitunni. Ég prófaði bæði að nota kókosmjöl í eina útgáfu og hnetusmjör í aðra og þetta er bara eins og snickers og bounty :) Svo er hér jarðarberjaís sem er brjálæðislega fljótlegur og mjög góður. Hver þarf Vesturbæjarís eða bragðaref þegar þessi er svona fínn.
 
"Jarðaberjaís"
2-3 bollar frosin jarðarber
1/2 bolli klakar
1 peli rjómi(ég nota laktósafrían)
3 msk sukrin melis
15 dropar vanillustevia Via Health, eða eftir smekk.
Aðferð:
Öllu blandað saman í blender,
kókosmjöli dreift yfir í lokin og borðað með bestu lyst.
p.s. þeir sem vilja geta sett 1-2 msk af hnetusmjöri og 2 msk kókosmjöl saman við og þá
erum við komin með þennan fína bragðaref.

 
"Súkkulaðifudge"
 
150 g mjúk kókosolía
1/2 tsk vanilla
30 g kakó sykurlaust
30 g Sukrin Melis
10 dr Stevía Via Health t.d. vanillu eða karamellu
1/4 tsk kanell
1 msk hnetusmjör eða 2 msk kókosmjöl
( má sleppa eða setja hnetur eða eitthvað annað út í að eigin vali)
 
Aðferð:
Hrærið saman þar til allt hefur blandast vel saman, hellið í form, ágætt að nota silikon eða setja plastfilmu í botninn á álformi. Kælið í ískáp í 1-2 klst, skerið niður í bita og laumist í einn og einn með kaffinu.


Wednesday, June 25, 2014

Kryddbrauð er æði

Mér finnst alltaf jafn gaman að sjá hversu vinir mínir hér á blogginu eru duglegir við að baka og prófa uppskriftirnar mínar og nú langar mig að deila með ykkur uppskrift af kryddbrauði sem er í bókinni minni Brauð og eftirréttir en hefur ekki birst hér á blogginu. Ég fékk fyrirspurn um að breyta gamalli kryddbrauðsuppskrift, sem margir hafa eflaust notað í gegnum tíðina, í sykur og hveitilausa útgáfu og mundi þá eftir þessu brauði sem hingað til hefur ekki klikkað. Það er notalegt í rigningunni að gæða sér á nýbökuðu brauði með smjöri og osti og nú er ekkert að vanbúnaði en að prófa. Verði ykkur að góðu. Ég skellti allavega í hálfa uppskrift til að eiga í kaffitímanum og lyktin hér er æðisleg.
Ath að bókin mín er enn til sölu hjá mér og hægt að panta hana hjá mér á netfanginu kristadesign@internet.is. Hún kostar 2900.- með sendingarkostnaði innanlands.



 

Kryddbrauð
 
120 g hörfræmjöl
100 g möndlumjöl
70 g Sukrin Gold
2 tsk kanill
1 tsk engifer
1 tsk negull
1 tsk kakó
1/2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
2 egg
4 tsk kókosolía brædd
150 möndlumjólk
1/2 tsk salt
 
Aðferð:
Hrærið öllu saman í hrærivél, hellið í eitt meðalstórt form og bakið á 180°í 20 mín.
Ágætt að stinga prjón í brauðið og ef hann kemur hreinn út þá er brauðið klárt.
Þessu deigi má líka deila í muffinsform og gera kryddmuffins sem má eiga í frysti.
Hentugt sem millimál og frábært í nestistöskuna.
Mjög gott að smyrja þessar með smjörva og osti.

Tuesday, June 24, 2014

Salsaborgari

Það er kannski ekki beint grillveður úti núna, allavega ekki á höfuðborgarsvæðinu, en í gær var ólíkt betra veður og þá grilluðum við þessa fínu hamborgara. Ég notaði  pylsubrauðsuppskriftina mína til að gera brauðin í þetta sinn og bætti bara við sesamfræjunum. Mjög góð og saðsöm brauð. Með borgurunum bárum við fram graskersfranskar og tómatsalsa. Hressandi og góður matur sem á alltaf við, líka vel á mánudögum.


Hamborgarabrauð ( 4 stk)
 
100 gr möndlumjöl (gott að nota möndlur án hýðis)
1 msk hörfræmjöl/flaxseed
2 msk Husk duft frá NOW
1/2 tsk salt
1 sprauta Via Health original stevía
2 egg
170 gr sýrður rjómi eða grísk jógúrt, ég notaði 18 % sýrðan,
(um að gera að nota laktósafrían ef maginn er viðkvæmur fyrir mjólkurvörum)
1 tsk vínsteinslyftiduft
sesamfræ
 
Aðferð:
Blandið þurrefnum saman og síðan eggjum, stevíu og jógúrt eða sýrðum rjóma, hrærið vel saman og látið deigið standa í 10-15 mín.  Mótið svo (ágætt að nota hanska) 4 bollur úr deiginu, dreifið sesamfræi yfir og bakið á smjörpappírsklæddri plötu.
Bakið í 25 mín á 160-170 gráðu heitum ofni m/blæstri.
 
Salsa:
 
4 kjarnhreinsaðir tómatar
1 lítill rauðlaukur
safi úr 1/2 lime
1 tsk hvítlauksmauk eða 2 hvítlauksrif
1 msk balsamikedik eða eplaedik
sjávarsalt
pipar
steinselja eða basilika, fersk, lófafylli
 
Skerið tómatana niður smátt ásamt lauknum og blandið saman, kryddið og bætið við limesafa og edik og hrærið vel saman. Bætið við kryddjurtum og gott að láta standa í ískáp í góða stund.
 
Graskersfranskar:
1 Butternut- grasker
herb de provance krydd eða timian/rósmarín gott líka
ólífuolía
 
Skerið niður graskerið í "franskar" kryddið og hellið olíu yfir, best að gera í skál. Dreifið svo úr þessu á bökunarplötu og bakið í 20-30 mín á 180°C þar til þær verða brúnaðar og stökkar.