Friday, February 20, 2015

Súkkulaðicado trufflur

Nú þegar páskahelgin nálgast óðfluga þá fyllast allar hillur verslana af girnilegu súkkulaði í öllum stærðum og gerðum. Ég fór meira að segja á fund í Nóa Siríus fyrr í vikunni og viðurkenni alveg að það var hættulega góð lykt í loftinu... og já ég fékk smakk með kaffinu. Þó allt sé gott í hófi þá   hentar sumum bara alls ekki að neyta sykursins í neinu hófi svo hér er útfærsla af trufflum sem eru svei mér þá "truflaðar" og komast alveg með tærnar langt fram yfir hælana á súkkulaðinu. Það tekur stuttan tíma að útbúa sjálft innihaldið en svo er smá dúllerí að rúlla þeim út og skreyta. En vel þess virði nota bene. Ég er persónulega mjög hrifin af sterku súkkulaði og pínu krydduðu svo ég notaði cayenne pipar í mínar trufflur, það má þó alveg sleppa því. Skemmtilegasta við þessar trufflur er þó aðalinnihaldið sem er avocado sem er svo mikil ofurfæða.  Endilega prófið þessar um helgina, til dæmis á konudaginn :)Súkklaðicado trufflur
Innihald:
1 avocado stórt eða 2 lítil
85 g kókosolía
30 g kakó
40 g Via Health fínmöluð sæta
5 dropar Via Health stevía
1 tsk vanilludropar
1/3 tsk cayenne pipar
 
Skraut:
malaðar pistasíur
malaðar möndlur
kakóduft
kókosmjöl
o.sfrv.
 
Aðferð:
Setjið innihaldið saman í matvinnsluvél, blandara eða notið töfrasprota.
Blandið öllu vel saman og setjið í kæli á meðan skrautið er undirbúið eða um 30 mín.
Takið nú tsk og skafið upp úr skálinni ca 1 tsk á trufflu, rúllið varlega milli handanna, gott að nota einnota hanska.
Veltið trufflunni upp úr skrauti að eigin vali og setjið á disk.
 Kælið trufflurnar og njótið ca klst síðar.Wednesday, February 11, 2015

Ástarterta með eldrauðu hlaupi

Þessi sló í gegn hjá gamla mínum, eða honum fannst hún "obbossins" góð eins og hann er vanur að segja enda er átrúnaðargoðið hans Gunnar á Völlum, sá fyndni drengur. En að kökunni, þetta er dálítill útúrsnúningur á Sítrónutertuna sem ég póstaði hér í fyrra og stendur enn fyrir sínu en nú er botninn með salthnetum og kirsuberja jell-o með frosnum hindberjum eru á toppnum á þessari.

Fersk og góð kaka með passlega sætu bragði sem ætti að henta vel á Valentínusarborðið eða í hvaða partý sem er. Hún batnar með aldrinum eins og flestar ostakökur en hún er löngu búin hér svo það breytir engu. Fljótlegt og gott, kemur öllum í gott skap.


Salthnetu ostakaka með kirsuberja jell-o og hindberjum.
 
Botn:
80 g möndlumjöl gróft
40 g brætt smjör
50 salhnetur malaðar
30 g Via Health strásæta með stevíu
 
Fylling:
400 g rjómaostur
1 peli rjómi léttþeyttur
1 msk matarlímsduft ( fæst í bökunardeildunum )
100 g Via Health fínmöluð strásæta
1 tsk vanilludropar
 
Toppur:
250 g frosin hindber eða jarðaber
1 Jell-o pakki sykurlaus (fæst t.d. í KOSTI) cherry eða strawberry sugarfree
300 ml sjóðandi vatn
 
Aðferð:
Blandið saman mjöli og hnetum við smjör og sætu, hellið í eldfast mót og bakið í 10 mín við 170°c
Þeytið rjómann létt og takið til hliðar, þeytið næst rjómaostinn saman við sætuna og vanilludropa ásamt matarlímsduftinu.
Blandið rjómanum saman við og þeytið vel.
Hellið fyllingunni út í eldfasta mótið þegar það hefur kólnað ögn og dreifið úr henni. Kælið í ískáp.
Á meðan er hægt að útbúa Jell-o toppinn, sjóðið vatn og hellið í skál ásamt Jell-o duftinu. Hellið frosnum berjunum saman við og hrærið vel.
Þegar blandan er farin að kólna nokkuð þá er henni hellt yfir ostakökuna og hún kæld aftur. Berið fram þegar jell-o ið hefur stífnað
.

Friday, February 6, 2015

Bóndadags sprengjan

Jæja seint blogga sumir en blogga þó. Ef ég ætti sirka einn klukkutíma í viðbót í sólarhringnum þá gæti ég verið duglegri hér en held samt að ég sé að nýta tímann minn alveg 100% svo þannig er það bara. Pabbi hafði nú á orði þegar hann mætti í opnunina hjá okkur systrum og mökum  í nýju versluninni í gær og horfði yfir allt skartið, hárböndin og dúlleríið í öllum hornum að hann hreinlega skildi ekki hvenær ég hefði tíma í að gera þetta allt !! Æi sætt en ég skal alveg viðurkenna að ég nýti hverja einustu mínútu í vinnu eða einhversskonar dútl og ég fer aldrei í Candy crush eins og ég hef eflaust talað um áður :) Tími ekki mínum dýrmæta tíma í eitthvað tilgangslaust (að mínu mati) leikjastúss. En allavega ... ég og Katla systir ætlum að bjóða upp á klúbbakvöld í búðinni okkar á Laugaveginum í vetur og verða þau á fimmtudagskvöldum. Við kynnum fyrirtækið og hugmyndafræði okkar á bak við verslunina og svo verður matur borinn á borð, súpa, brauð og einhver gómsætur desert.. Hann er einmitt kveikjan að blogginu hér.. Ég gerði þessa súkkulaðisprengju handa bóndanum mínum á bóndadaginn síðastliðinn og rann hann ljúft niður. Hann er þrusueinfaldur og þarf rétt að kæla hann áður en hægt er að bera fram. Ekkert vesen.

 Bóndadagssprengja

50 g sætuefni
250  ml kókosolía
40 g kakó
2 tsk vanilla
50 ml möndlumjólk eða kókosmjólk
10 dropar Via Health stevía

Hitið kókosolíuna, blandið síðast öllu saman með töfrasprota, hellið í form og kælið. Gott að bera fram með ristuðum pecanhnetum, þeyttum rjóma og hindberjasósu :)


  Svo verð ég aðeins að monta mig af nýju versluninni okkar , Systur og makar Laugavegi 40, nú eru það tvær búðir ein í Reykjavík og önnur á Akureyri, á 5 mánuðum og geri aðrir betur :)

Ein nýjungin, svona bara til að fimmtudagskvöldin hjá okkur systrum verði ekki ónýtt !!Wednesday, January 28, 2015

Sælkerabrauð

Sæl öll, í vikunni bakaði ég alveg geggjað brauð eftir uppskrift frá vinkonu minni henni Sibbu og leyfði hún mér að birta hana hér ykkur vonandi til ánægju. Hún Sibba og maðurinn hennar Eddi Arndal eru fólkið á bak við Carb Back Loading og carb nite síðuna sem notið hefur miklla vinsælda á fésbókinni. Þau eru einkaþjálfarar alla leið úr Þorlákshöfn, þeim krúttlega bæ. En það er ekki bara höfn og Herjólfur í Þorlákshöfn sem futt hefur þorra íslendinga í eyjarnar heldur er líka frábær sundlaug í bænum og yndislegt kaffihús sem kallast Hendur í höfn, mæli hiklaust með sunnudagsbíltúr á þessa staði. En aftur að einkaþjálfarahjónunum. Þau eru ofsalega dugleg að halda úti síðunni sinni sem og bjóða upp á fyrirlestra um prógrammið sem þau fara eftir og eru þessi kvöld bæði fróðleg og skemmtileg enda þau hjónin bráðfyndin.  Endilega kynnið ykkur fræðin þeirra sem svipar mikið til LKL mataræðisins en með breyttu áherslum þó. Og prufið að baka brauðið það er geggjað, ekki láta ykkur bregða ef sólblómafræin verða græn í bakstrinum en það er bara eitthvað sem gerist :) Hægt að baka brauðið í silikonmúffuformi líka og gera bollur.

Lágkolvetna sælkerabrauð


1 dl hörfræ
1 dl sólblómafræ
1 dl sesamfræ
1 dl graskersfræ
2 dl möndlumjöl
1 dl kókosmjöl eða kókoshveiti ( ég notaði tæpan dl af kókoshveti)
1 dl olía
4 egg
3 msk lyftiduft
1-2 msk trönuber
1 dl vatn
smá salt

Öllu blandað saman. Bakað í vel smurðu formi eða sílikonformi við 180°C í 40 mínútur

 

Thursday, January 22, 2015

Kjúklingur í parmesanraspi

Ég ætla nú ekki að skrifa mikið í þessu bloggi en eftir að ég prófaði þessa útfærslu af kjúkling sem ég sá á netinu, reyndar með hveiti og leyfði systu að smakka þá vildi hún endilega fá uppskriftina svo hér er hún Katla mín. Ég nota möndlumjöl í stað mjöls og það kemur algjörlega í staðinn fyrir raspið. Þetta er einfaldur og hrikalega góður réttur og ekki skemmir sósan :)
Kjúklingur í parmesan
 
60 g parmesan ostur
2 msk mæjónes (gerði mitt eigið, en Hellmanns er líka fínt)
2 msk ljóst möndlumjöl
2 tsk eðalkjúklingakrydd
timian, steinselja eða anna krydd eftir smekk

hræra vel saman og smyrja þessu á bringurnar
 
Hita í ofni á 210 gráðum í ca 25 mín


 
Hvítlaukssósa
 
2 msk sýrður rjómi
1 msk mæjónes
1 tsk steinselja
salt
sítrónukreista
4-6 dropar via health stevía
1/2 tsk hvítlauksmauk
 
Hræra öllu saman og njóta


Wednesday, January 14, 2015

Smápizzur í veisluna

Ég fór í afmælisboð um síðustu helgi hjá Tótu mágkonu og þar sem nánast allir eru dottnir í átak eftir jólin þá ákvað ég að koma með eitthvað af veitingum sem fólk gæti smakkað án þess að kafna úr samviskubiti. Það var ekki eins og það væri ekkert á boðstólum því systir mín og mágkona eru snillingar þegar kemur að veisluhöldum. En ég vildi samt prófa þetta og smápizzur urðu fyrir valinu. Þær hurfu eins og dögg fyrir sólu og ég mun pottþétt gera þessar aftur. Góðar með hvaða áleggi sem er og mjög fljótlegar. Hæfilega stórar líka, einskonar fingramatur sem gott er að halda á.
 
Smápizzur - tilvalið í partý og afmæli
 
3 msk beikonsmurostur
3 msk kotasæla
3 egg
3 msk HUSK
1 tsk lyftiduft
1-2 msk pizzukrydd eða oregano
saltklípa
3 msk möndlumjöl
1 msk kókoshveiti
 
Aðferð:
Maukið saman með töfrasprota og látið deigið í sprautupoka.
Leyfið deiginu að bíða í pokanum í 15 mín.
Hitið ofninn í 180°c með blæstri og klæðið 2 bökunarplötur með bökunarpappír.
Sprautið nú litlum hringjum (ca eins og sprittkerti í stærð) á pappírinn með góðu millibili og bakið í 10-12 mín.
Þegar botnarnir eru bakaðir þá má snúa þeim við og setja áleggið á. Bakið svo aftur í nokkrar mínútur þar til osturinn er orðinn gylltur og fínn.
Áleggshugmyndir, Hunts pizzusósa, chorizo sneið og rifinn ostur, pizzuskrydd.
Einnig gott að setja Hunts pizzusósu, skinkubita, og rifinn ost.Thursday, January 8, 2015

Blaðlaukssúpa með kúrbítsnúðlum

Jæja þá er komið að súpudögum, súpa og sítrónur í vatni, alla daga :) Nei grín, en það er mjög gott að byrja daginn reyndar á blessuðu sítrónuvatninu og hafa það volgt, skera svo sítrónurest í sneiðar og geyma í könnu með vatni og gúrkusneiðum. Þetta má svo drekka yfir daginn og líðanin verður mikið betri, segjum það bara. Nú, ég fékk svona fyrirtaks uppskrift af blaðlaukssúpu frá Kötlu systur fyrir nokkru og ákvað að fikta aðeins við hana eins og vanalega til að gera lkl vænni. Í stað þess að nota kjúklingabaunir eins og hún þá ákvað ég að nota kúrbítsnúðlur til að fá smá bit í súpuna og gera hana matarmeiri. Þetta kom ljómandi vel út skal ég segja ykkur. Súpan er rosalega góð, bragðmikil. Þetta er stór skammtur sem dugar vel í hádeginu daginn eftir. Bollurnar eru ljómandi fínar sem meðlæti og í þetta sinn notaði ég dökkt möndlumjöl sem gerir þær dekkri að lit en vanalega hjá mér.

 
 Blaðlaukssúpa með kúrbítsnúðlum
 
smjörklípa
1 1/2 líter sjóðandi vatn
2 dl rjómi
2 tsk þurrkað timiankrydd
2 kjúklingakraftsteningar (má nota aðrar gerðir)
2 tsk paprikuduft
1 blaðlaukur
1 lítill gulur laukur
2 msk beikonsmurostur eða annar rjómaostur
2 msk sýrður rjómi
salt og pipar eftir smekk
 

1 "núðlaður" kúrbítur
 
Aðferð:
Steikið lauk og blaðlauk í smjöri, ég nota þykkbotna pott úr IKEA og þarf þá ekki að færa á milli íláta, allt í einu lagi.
Kryddið með kryddunum og leyfið lauknum að verða glær. Hellið þá vatninu yfir, rjómanum og rjómaostinum síðast. Látið súpuna malla í 30 mín sirka og þá er hún tilbúin.
Hægt að borða eina og sér en mér fannst mjög gott að hella henni yfir kúrbítsnúðlurnar mínar.
 
Núðlur:
 
Látið núðlurnar í skál og stráið sjávarsalti yfir, leyfið núðlum að svitna í 10-15 mín og skolið svo vel.
Þá eru þær tilbúnar í salat, pasta eða í svona súpu eins og hér um ræðir.Létt og góð frærúnstykki um 6 stk.
 
100 g sýrður rjómi
2 egg
15 g kókoshveiti
15 g möndlumjöl ljóst eða dökkt, smekksatriði
5 g fínmalað HUSK eða kúfuð tsk
1/4 tsk salt
1/2 tsk lyftiduft
1 msk chiafræ
1 msk hörfræ
1 msk graskersfræ

Aðferð:
Hrærið vel eggin og sýrða rjóman, blandið svo þurrefnum vel saman með gaffli svo HUSK nái að blandast vel.  Hellið þeim út í og hrærið áfram. Látið standa í 5-10 mín. Setjið deigið í muffinsform, ég notað smurt silikonform og stráði nokkrum graskersfræjum ofan á.
Bakið í 20  mín á 180°C með blæstri. Það komu 6 agalega passlegar bollur úr þessari uppskrift, svo er bara að tvöfalda ef þið viljið.