Monday, September 15, 2014

Sunnudagskakan

Já er ekki bara ágætt að skíra þessa því nafni því ég hef prófað ansi margar útgáfur af súkkulaðitertum og bara nokkuð ánægð með þær flestar. Mig langaði hinsvegar að gera extra þykka og flotta tertu núna til að hafa sem eftirrétt fyrir okkur og foreldra mína og mixaði því saman nokkrum uppskriftum með ákveðnum tilfæringum. Hún lyfti sér mjög vel og hélst mjúk og góð og ótrúlegt en satt þá er hún ennþá mjúk og fín, s.s. smá eftir af henni :)  Kremið er útfærsla af tiramisúbollakökukreminu sem ég setti hér inn fyrir nokkrum mánuðum og er það bragðgott og fínt með rjóma sem aðal innihaldi. Það er samt gott að bera þessa fram með pínu extra rjóma :) Ég bauð nokkrum vinum sonar míns upp á afganga og þeir áttu nú erfitt með að trúa því að ekkert hveiti væri í kökunni , né sykur og fóru með súkkulaðiskegg upp í tölvuna, massasáttir !! Ég notaði Via Health strásætuna með stevíunni sem ég er kolfallin fyrir og mun prófa mig áfram með hana á næstunni. Kanilsykur t.d. úr henni er bara nákvæmlega eins og sá gamli góði.
Sunnudagskakan:

230 g möndlumjöl má nota gróft eða fínt
90 g kakó
160 g Via Health sæta með stevíu eða önnur sæta, ef Sukrin er notað þá má bæta við stevíu dropum ca 10-15 dropum
40 g vanilluprótín t.d. NOW eða Nectar
1 msk skyndikaffiduft
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk xanthan gum
1/2 tsk salt
180 g sýrður rjómi ( 1 dós)
5 egg
120 g mjúkt smjör
200 ml möndlumjólk
val: 2 tsk vanilludropar eða duft, eða aðrir kökudropar
 
Aðferð:
Þeytið saman sætuefni, sýðrum rjóma og smjöri. Blandið svo eggjum saman við og þeytið vel. Þurrefnin blandast saman í skál og er bætt út í eggjablönduna ásamt möndlumjólkinni.
Setjið deig í 2 form, ég nota yfirleitt hringlaga há silikonform.
Bakið í 180°C heitum ofni í 30 -35 mín eða þar til pinni kemur hreinn úr kökunni.
Kælið vel áður en kremið er sett á.

Krem:
160 g rjómaostur hreinn
120 g fínmöluð sæta, t.d. Via Health
1 tsk vanilludropar
20 dropar Via Health stevía
250 ml rjómi (má nota laktósafrían)
1 msk kakó
 
Krem:
Þeytið saman rjómaost, sukrin, stevíu og vanillu. Hellið rjómanum varlega saman við og hrærið hægt.
Þegar rjóminn er kominn út í þá setjið þið vélina á fullan kraft þar til toppar myndast í kreminu.
Setjið kremið fyrst á milli botnanna, setjið svo restina í sprautupoka með fallegum skrautstút og skreytið. Má gera ríflega af kreminu ef skreyta á með miklum rósum.

Sunday, September 14, 2014

Skonsudagar

Enn og aftur kemur Tóta mágkona við sögu í tilraunabakstrinum mínum en hún er sérfræðingur í skonsugerð og hefur notað spelthveiti í sinni uppskrift upp á síðkastið til að gera þær ögn hollari. Ég vildi hinsvegar taka þetta alla leið og umbreyta öllu í "löglegt" LKL innihald og eftir nokkrar tilraunir eru þessar skonsur bara orðnar ansi góðar og nánast eins og Tótuskonsur, svei mér þá. Ég bætti nýlega við kotasælunni og þá kom ansi gott bragð sem fullkomnaði fyrir mér útkomuna.
Tótuskonsur:
3 egg
1 msk sæta,Via Health fínmalað t.d.
1 tsk lyftiduft eða matarsódi
2 msk husk, grófa úr pokunum
1/2 tsk vanilludropar
kúfuð msk kókoshveiti
saltögn
1 kúfuð msk kotasæla
1/2 tsk xanthan gum, ekki nauðsynlegt en gerir alveg helling :)
 
Aðferð:
Hrærið öllu saman með töfrasprota og þynnið með vatni eftir hentisemi.
Deigið þykknar örlítið og því gott að þynna þar til gott er að ná því upp með skeið og móta skonsuhring á heitri pönnu, eiga ekki að vera þunnfljótandi.
Steikið á viðloðunarfrírri pönnu til að einfalda ykkur lífið, einnig er gott að spreyja aðeins með kókosfeitispreyji eða bræða dálítið af smjöri á pönnunni.
Þessar skonsur geymast vel og eru góðar nýbakaðar og líka daginn eftir :)

Thursday, September 11, 2014

Móðureðli

Hversu klikkaðir geta dagar verið ? Minn var nokkuð hress! Leikfimi, vinna, tölva, sækja, skutla vörum, kaupa í matinn, sækja litla strump aftur í tónó, kaupa næringu fyrir hann svo hann myndi lifa af klifuræfingu og koma svo heim á búgarðinn í allsherjarástand þar sem hænukjáninn sem við fundum úti í runna fyrir stuttu með 13 egg og 5 nýklakta unga hafði losnað úr búrinu sínu með öll börnin með sér.  "Batman"ranglega kyngreind villikattarlæða sem búið hefur hér síðustu 2 árin sveimaði um svæðið kasólétt af sínum 5,6,7 undu börnum, pirruð og svöng, og beið spennt eftir að hænumamman liti undan svo hún gæti ná sér í síðdegishressingu. Ekki messa við óléttar kisumömmur það er á hreinu !!! Þá má sjá húsmóðurina " mig " á hælunum að elta unga um allar trissur, laga hænsnanet,reyna að koma öllum á sinn stað meðan sonurinn át hrísköku og kókómjólk og spurði sallarólegur... mamma þarftu ekki að skutla mér á æfingu ?? Kettlingarnir 3 sem alið hafa hér manninn fyrstu 3 mánuði ævi sinnar hrutu svo bara á meðan í kofanum sínum sem við græjuðum fyrir stuttu með hitaperu og sæng og minnir kofinn helst á ákveðinn atvinnugeira í Amsterdam !!! hvað er að frétta ... ? Á endanum hringdi ég örvæntingarfull og pirruð í eiginmanninn sem kom og bjargaði mér frá því að missa vitið... Nú sit ég hér og blogga um þetta allt saman, orðin of sein á foreldrafund og reyni að borða eggjaflatköku með kjúkling !! engin kaldhæðni hér á ferð.. En þið kannist nú örugglega við þetta allt saman. Málið er samt að brosa bara að þessu öllu og anda rólega inn og út.. t.d. í pappírspoka.

Husk, egg og beikonsmurostur piskað saman og steikt, fyllt með því sem hentar :)
Legg ekki meira á ykkur eftir þennan dag :)

 
Brattur sem finnur sér alltaf hlýjan stað

Monday, September 8, 2014

Chutney og búðarleikur

Eftir annasama viku með yndislegu fólki og ættingjum þá erum við loksins komin í bæinn. Við hjónin skruppum ásamt systur og maka norður til Akureyrar í síðustu viku þar sem við unnum hörðum höndum við að koma upp lítilli verslun á mettíma. Opnuðum fjársjóðskistuna okkar Systur&Makar á föstudaginn 5. sept með pomp og pragt með tilheyrandi spennufalli og táraflóði. Allt mjög svo skemmtilegt og lærdómsríkt. Þar sem bókin mín verður til sölu í búðinni ásamt uppskriftastandi, spjöldum og fleiru tengt sykurlausa mataræðinu þá var að sjálfsögðu ákveðið að bjóða upp á sykurlausar veitingar. Ég bjó til sultur og chutney, baunakökur og jelló skot sem runnu ljúflega ofan í gesti og gangandi. Ég má til með að setja hér inn uppskriftina af chutneyinu góða sem rauk út. Það eru reyndar aprikósur í því sem eru nokkuð kolvetnaríkar en þó betri kostur en að nota hvíta sykurinn. Í stað sykurs notaði ég nýju strásætuna frá Via Health sem er með íblandaðri stevíu og því ótrúlega lík venjulegum sykri. Miklu betri kostur og smakkast alveg frábærlega.
 
 
Rabbabarachutney
 
500 gr. Niðursneiddur rabbabari
2 saxaðir laukar
1 poki saxaðar apríkósur
1 ½ msk edik, ég nota eplaedik
2 1/2 dl Via Health strásæta með stevíu
2 tsk niðurbrytjaður ferskur engifer
1 ½ msk karrý
1 tsk turmerik
2 tsk salt
1-2 saxaðir ferskur chilipipar
Allt sett í pott og soðið saman í 30 – 40 mín. Maukið svo með töfrasprota eða hellið í blender, farið þó mjög varlega.
Sett heitt á krukkur. Mjög gott með öllu sem hugurinn girnist.


 Hér eru nokkrar myndir frá opnun búðarinnar sem er á Strandgötu 9 á Akureyri.
 
Sæti búðarglugginn okkar
 
 
Jóla og stofuhornið okkar

 
Villkisinn okkar Brattur fékk að vera stjarna og prýðir nú rafmagnskassann fyrir utan búðina

 
Hér er nýbúið að þurrka tárin og allir að jafna sig
 

 
 

Monday, August 25, 2014

Rif um rif frá rifjum...

Jebb, nýr veitingastaður opnar, mín prófar. Verður svo svekkt út í sykurmagnið sem er búið að bæta í nánast allt að hún fer heim og snýr öllu á hvolf við að útfæra réttinn á annan hátt. Örugglega nýtt "syndrome"sem ég hef komið á kortið. Þetta á vel við í þessu bloggi en eftir að ég heimsótti Dirty burgers and ribs þá hef ég hugsað mikið um rifin sem við keyptum okkur saman hjónin, deildum sko skammti bara til að vita hvað það var sem var þess virði að bíða í röðum eftir. Jú auðvitað var þetta rosalega gott :) Kjötið datt af beinunum og bragðið æði. Ekki beint matur samt til að borða í bílnum í sparikjól en ég komst þó sæmilega smart heim.  Nokkrir dagar liðu og þá byrjuðu einkennin. Hvar ætli maður fái svona fersk rif, ekki forelduð, söltuð eða legin í sykursósu ? Hvernig er hægt að gera svona góða barbíkjú sósu án sykurs. Eftir smá tékk og hringingar þá datt ég inn á rifjapakka í Fjarðarkaupum og keypti 2 bakka. Merkilega ódýr matur meira að segja. Svo var það bara að snúa ölllu á hvolf. Matreiðslan gekk býsna vel, og þótt eldunartíminn væri pínu langur þá voru blessuð rifin alveg þess virði. Ég væri til að prófa næst "baby back rib"en það þarf væntanlega að panta þau í kjötborðinu með góðum fyrirvara. Þessi verða samt pottþétt elduð aftur og sósan var ótrúlega góð. Hún er ekki alveg eins og sósan sem ég setti hér inn á bloggið fyrir nokkru og ég er alveg á því að þessi sé betri.

 
Rifjaveisla
2 kg af ferskum rifjum, fékk mín í Fjarðarkaup
gróft sjávarsalt 1-2 tsk
1 msk paprikukrydd
1 msk hvítlauksduft
 
Blandið þessum kryddum saman í skál. Setjið álpappír á 2 bökunarplötur og dreifið rifjunum á þær. Dreifið kryddinu yfir og setjið í 200°C heitan ofn með grilli. Ágætt að brúna þau í 15 mín á háum hita. Á meðan er gott að útbúa sósuna.
 
Barb-q sósan:
1 dós Hunts tómatar
1 msk tómatpaste
2 msk eplaedik
3 msk Sukrin Gold
1 msk Worchestersósa
1 1/2 tsk hvítlauksduft
1 tsk laukduft
1 tsk salt
1 msk tabasco sósa
1/2 tsk chilliduft (valfrjálst)
2 msk smjör
Ef þið eigið "liquid smoke" þá mætti setja 1 1/2 msk af því, fæst í KOSTI.
 
Aðferð:
Setjið allt í pott og hitið þar til fer að sjóða, takið þá pottinn af hellunni og maukið allt saman með töfrasprota (ef þið notið heila tómata í dós).
Takið nú rifin úr ofninum og gott er að nota steikarpott með loki t.d. þessa svörtu gömlu góðu til að ná góðri eldun á rifjunum.
Færið rifin með töng yfir í pottinn og hellið dálítilli sósu yfir , geymið 1-2 dl af sósu fyrir lokaumferð en hellið sósunni vel á milli rifjanna áður en þau fara í ofninn.
Hafið ofninn á 150°c og eldið í ca 4 tíma eða þar til beinin losna frá kjötinu. Þegar rifin eru passlega elduð má taka þau upp úr pottinum og bæta við aukasósunni áður en þau eru borin fram :) 
 
Snilld með hrásalati og fersku engifergosi.
 
Engifergos:
300 ml vatn
100 gr ferskur engifer
1 dl erythritol
20 dropar stevia
3 msk lime safi
 
Hitið allt í potti þar til engiferinn er orðinn mjúkur, sigtið sýropið frá og kælið.
Hellið svo sódavatni í glas og ca 1 dl af engiferssýrópi út í. Bætið við klökum og njótið. 

Friday, August 22, 2014

"Pönnupizza"

Föstudagur enn og aftur og jú margir sem halda sig við hefðina að hafa pizzur í matinn á föstudagskvöldum.  Hér er uppskrift af pizzubotni sem er svo kjánalega einföld að það er bara vandræðalegt. Ef þú vilt alveg sleppa við mjölið, hvort sem það er möndlumjöl eða kókoshveiti þá gæti þetta verið góður botn fyrir þig. Hráefnum er einfaldlega þeytt saman og hellt í hringlaga form, silikonform er best, svo baka í 10-15 mín. Síðan má bara setja hvaða álegg á sem fólk vill, baka stutt í viðbót þar til osturinn er gylltur. Hella svo ísköldu vatni í glas með dash af eplaediki og klaka og plathvítvínið er klárt með pizzunni :) Eigið frábæra helgi, hlauparar og menningarvitar.
"Pönnupizza"
1 góð msk beikonsmurostur, má nota aðra osta, t.d. pizzusmurost
1 góð msk kotasæla, eða meira af smurosti
1 msk HUSK í pokunum
2 egg
1-2 tsk pizzukrydd, oregano, hvítlauksduft, allt eftir smekk
 
Aðferð:
Þeytið saman með töfrasprota eða písk og hellið blöndunni í form,
mér finnst best að nota silikon tertuformið mitt. Fullkomin 9"  pizza ;)
 
Bakið í 200°C heitum ofni í ca 10-15 mín eða þarf til pizzubotninn fer að bubbla aðeins og lyfta sér.
Takið botninn úr ofni og smyrjið pizzusósu yfir, ég nota nú bara 1-2 msk af Hunts pizzusósu sem er sykurlaus skv umbúðunum.
Dreifið áleggi að eigin vali yfir, mitt uppáhald er núna skinka, og 1 dl af niðurskorinni rauðri papriku.
Kryddið meira með pizzukryddi og setjið góða lúku af rifnum osti yfir. Bakið aftur í ofninum í 5-10 mín og þá er þetta tilbúið. Mjög bragðgóð pizza og algjörlega hveiti og glútenlaus.
 
Ef þið viljið extra þykkan botn þá mætti tvöfalda uppskriftina og baka aðeins lengur á lægri hita.


 


 
 

Tuesday, August 19, 2014

Tótunammi

Hún Þórhildur Guðmundsdóttir (Tóta) mágkona mín er nú meira krúttið, hún bölvar mér örugglega duglega núna yfir þessari samlíkingu en mér er alveg sama. Hún hefur heillað mig frá fyrstu kynnum og gerir enn :) oooooo. Jæja, verandi eðal landsbyggðatútta, alla leið frá Þórshöfn, Langanesi takk, þá er hún þessi týpa sem alist hefur upp við ekta heimilismat, steiktan, soðinn, reyktan og bara þetta venjulega eðalfæði sem margir þekkja.  Þegar ég fór eitthvað að reyna að bjóða henni fyrst upp á hveitilaust og sykurlaust dót þá var nú ekkert agalega bjart yfir gömlu. Hún lét sig þó hafa það enda fúlsar hún ekki við mat að eigin sögn. Það er nú skemmst frá því að segja að eggið er farið að kenna hænunni, Tóta er nefninlega farin að fikta við sykurlausa matargerð og ég er svo stolt af henni !! Það þarf ekkert að útlista kosti þess að sleppa sykrinum og ef valin eru góð sætuefni þá er alveg hægt að lifa án hans. Þórhildur gaf mér þessa fínu hugmynd af millimáli ef púkinn færi að banka og úr varð þetta dýrindis kökudeig (ameríska: cookie dough). Það má nota hvaða sætu sem er í þetta, allt eftir smekk. Nú svo má skutla einu eggi út í deigið og baka en kökurnar urðu ekkert rosalega smart kannski þótt þær væru góðar. Mæli bara með að borða deigið hrátt sem er í besta lagi ef eggið er fjarverandi. Verði ykkur að góðu og takk Tóta þú ert nú meira krúttið !!
 Tilbúið kökudeig
Niðurbrytjaðir heimagerðir súkkulaðibitar


"Kökudeig"
 
Súkkulaði í deigið:
50 g kakósmjör ( fæst í Bónus í Sollurekkanum)
50 g kókosolía
20 g kakó
30 g fínmöluð gervisæta
5 dr Stevía án bragðefna, t.d. Via Health
 
Aðferð:
Bræðið allt saman í potti á mjög lágum hita og hellið í konfektmót.
Frystið í 15 mín og þá er hægt að skera í bita
 
Kökudeigið:
100 g smjör ( mjúkt )
80 g sæta, má vera Sukrin Gold eða önnur góð sæta
2 tsk vanilludropar
20 g kókoshveiti
2 msk möndlumjólk
ögn af salti
Niðurbrytjað súkkulaði, 1/2 uppskrift hér að ofan dugar, en einnig má nota tilbúið sykurlaust súkkulaði ( Stevía,Valor)
 
Aðferð:
Hrærið allt vel saman nema súkkulaðið, þegar smjörið hefur blandast vel saman við annað hráefni þá er niðurbrytjuðu súkkulaðinu bætt saman við.  Þetta er þá tilbúið til að narta í og geymist vel í kæli.
Það er hægt að skella 1 eggi út í blönduna og 1/2 tsk Xanthan Gum og baka smákökur en er ekki deigið alltaf best hrátt ;)