Monday, October 20, 2014

Hrollvekjandi hrekkjavaka

Hrekkjavaka er haldin 31 október, kvöldið fyrir Allraheilagramessu samkvæmt hefðinni. Systir mín ákvað þó að taka forskot á sæluna og sló upp heljarinnar veislu laugardaginn 18. okt til að fagna nýjum veislusal sem þær stöllur reka og um leið hélt hún starfsmannapartý fyrir Volcano Design.
Þar sem fjölskylda mín er ekki vön að gera hlutina með hangandi hendi þá var farið nánast alla leið í búningahönnun og gervum. Að þessu sinni ákváðum við hjónin að endurvekja Regan, sem Linda Blair lék svo eftirminnilega í hryllingsmyndinni The Exorcist og að sjálfsögðu fylgdi presturinn henni allt kvöldið og reyni að særa út illa anda með misgóðum árangri. Við létum ekki nægja að útbúa búninga því ég og sonurinn ákváðum að bæta við stuttmynd sem við gerðum kvöldið áður og sýna hana áður en hjónin á Brúsastöðum myndu ganga í salinn, eða réttara sagt skríða í salinn. Talandi um athyglissýki á hæsta stigi !!! Jæja atriðið heppnaðist víst nokkuð vel og heyrði ég að sumir hefðu verið virkilega hræddir við þennan óskapnað, MIG en makeup gerir svo sannarlega kraftaverk, ég er ekki alveg svona slæm. Ælan á bringunni er úr hafragraut sem ég hef ekki smakkað sjálf í rúmt ár en lyktin var afar góð. Veitingarnar voru að sjálfsögðu í anda þemasins og lagði ég til sykurlausar bollakökur með rjómaostakremi, flugum og vampírubitum sem runnu ljúflega niður. Ég verð að sýna ykkur myndirnar úr þessari gleði og takið eftir sniðugu skreytingunum sem komu úr smiðju móður minnar og systur,.. hver á svona stuff á lager ??? Þetta var mjög velheppnað allt saman og gleymist líklega jafn seint og ég næ latexinu úr augabrúnunum á mér og finn aftur á mér iljarnar, en að vera berfætt á steingólfi í 6 klst er ekki að gera neitt sérlega mikið fyrir þær.


 
 
Ég er svo vel gift að ég treysti mér í að líta svona út í eina kvöldstund án þess að hann myndi skila mér. Hann er allavega enn á svæðinu...  held ég.
 


 
Þessar voru girnilegar, kattarskíturinn... ojjj


 
Móðir mín, sem er alls ekki svona hrukkótt og alltaf svo sæt, tek fram að hún keyrði heim í búningnum og í glasinu er pilsner :) Heppin að vera ekki stöðvuð samt í þessari hollingu með Regan og prest í aftursætinu

 
Systir mín sem er meira að segja falleg þótt hún sé beinagrind


Ég og mín ástkæra mágkona Tóta Hólm
 

Monday, October 13, 2014

Villikettir og blómkálsbögglar

 
Í þessum nístingskulda þá er gott að fá sér heitt og gott millimál eða hádegismat sem gefur góða fyllingu. Hér er uppskrift af mjög góðum blómkálsbögglum sem passa bæði sem millimál, hádegismatur en einnig sem meðlæti.  


Blómkálsbögglar
 1/2 haus blómkál
 2 dl rifinn cheddar eða álíka sterkur ostur
 4 cm blaðlaukur
 2 egg
 3 sneiðar beikon ( hitað t.d. í örbylgju)
 40 g möndlur eða möndlumjöl ( mætti nota chia seed mjöl 20 g ef þið viljið sleppa möndlum )
 2 msk sýrður rjómi
 1/2 tsk pipar
 1/2 tsk salt
 1/2 tsk hvítlauksduft
 1/2 tsk hvítlauksmauk eða 1 geiri
 Mixið blómkálið og möndlur( mjöl) saman í matvinnsluvél, bætið rest út í og mixið áfram.
 Setjið í vel smurð muffinsform ( ég nota álform )
 Bakið í 25 mín á 200°C
 Mjög gott með mat eða sem hádegismatur með salati t.d.
 
En talandi um nístingskulda. Nú er fjölskyldan og heimilið undirlagt í litlum kisulingum sem fæddust úti í hrauninu okkar hjá villikattarmömmu sinni og erum við nú komin í samstarf með Villikattafélaginu sem heldur meðal annars úti síðu á facebook. Markmið félagsins er að koma villiköttum undir læknishendur í skoðun og geldingu svo hægt sé að stöðva útbreiðslu og offjölgun á köttum sem eru án húsaskjóls. Við erum yfir okkur hrifin af elju þessa fólks og dáumst af dugnaðinum en allt þeirra starf er unnið í þeirra persónulega tíma og félagið rekið af styrkjum. Mig langar að leggja mitt af mörkum og verðum við nú með sölu á jólakettinum frá KristuDesign fram að áramótum og mun helmingur ágóðans renna til félagsins. Svo er hægt að gerast félagsmeðlimur ef áhugi er fyrir því. Bendi á þessa frábæru síðu sem vinnur ansi þarft starf og nú sérstaklega í kuldanum. Hér á myndinni er ein lítil dama sem við tókum inn þar sem hún er mjög gælin og forvitin. Hún á 2 systkin sem kúra úti í hituðum kofa en framtíð þeirra er óljós. Fyrir 2 vikum eignaðist móðir þeirra 5 kettlinga í viðbót þar sem hún er ekki geld blessunin og höfum við tekið þau öll inn tímabundið þar til þau komast í fóstur. Hugsum vel um dýrin, látum gelda kisurnar okkar og merkja.

Kisinn kostar 1600.- er úr húðuðu áli og fæst hjá www.kristadesign.is
Hægt að hafa samband á kristadesign@internet.is
 
 
Eins og sjá má þá er litli kettlingurinn, sem við kölluðum fyrst Bratt en er líklega Brött, orðinn heimsfrægur á Akureyri allavega, en þar prýðir hann rafmagnskassann fyrir utan búðina okkar systra. Systur og Makar :) margur er knár þótt hann sé smár.
 
 
 
 
 
 

Thursday, October 9, 2014

Indverskt er best

Ég og dóttir mín eigum sameiginlegt áhugamál, en það er indversk matargerð og eru bragðlaukar okkar alveg á pari þegar kemur að góðu karrý :) Ég fékk mjög góða uppskrift frá henni fyrr í vikunni að Naan brauðum sem ég fékk leyfi til að pósta og mæli ég alveg með að nota nógu mikið af hvítlaukssmjöri með þessum. Passa vel með karrýréttinum mínum og blómkálsgrjónunum t.d. hér.
Naan brauð Mekkínar
 
1 egg
2 kúfaðar msk sýrður rjómi
1/2 dl möndlumjólk
2 msk smjör brætt
(nota 1 msk í deigið, 1 msk til að pensla með í lokin ásamt 1/2 tsk hvítlauksmauki)
20 g kókoshveiti (ca kúfuð msk)
20 g sesammjöl
1 msk HUSK, grófa
1/2 tsk xanthan gum
1/2 tsk vínsteins lyftiduft
1/2 tsk salt
1/2 tsk hvítlauksduft
 
Aðferð:
Hrærið öllu vel saman, verður eins og Hummus, áferðin.
Látið standa örlitla stund og hitið ofninn í 200°c
Mótið litla klatta (gott að nota hanska) og leggið á klædda plötu.
Bakið í 10 mín á háum hita, snúið við klöttunum og penslið með hvítlaukssmjöri.
Lækkið hitann í 180 og bakið í 5 mín ca í viðbót.

Í takt við indversku ástríðuna þá verð ég að mæla með 2 myndum sem ég sá nýlega og sitja hreinlega fastar í huganum á mér. Þetta voru The Lunchbox og svo 100 foot journey sem eru hreint út sagt yndislegar. Mjög ólíkar myndir en báðar þrælgóðar. Ég grenjaði vel á 100 foot journey en ekki út af því að hún væri sorgleg heldur bara svo falleg og góð einhvernvegin. Ahhh fæ alveg gæsahúð að hugsa um hana. Allir í bíó þeir sem ekki hafa séð og hafa gaman af fallegum sögum og ástríðufullri matargerð.
 

 
 

Thursday, October 2, 2014

Meistaramolar

Þá er október runninn upp, meistaramánuðurinn svokallaði. Það er réttnefni að mörgu leyti, t.d. á dóttir mín afmæli í október og hún er algjör meistari sem hjólar nú um í Kaupmannahöfn og sinnir sjúklingum af öllum stærðum og gerðum í heimaaðhlynningu, en það er partur af náminu hennar í hjúkrunarfræðinni :) Burtséð frá því reyndar þá er komin einhver áskoranahefð á þennan tíma fyrir á marga sem er gott og vel. Hvort sem fólk ætlar að breyta til í mataræðinu, auka hreyfinguna, minnka tölvunotkun, geyma símann heima, drekka meira vatn, læra að synda, hringja oftar í ömmu.. skiptir ekki öllu en mörgum finnst gott að hafa einhverskonar tímaramma í sínu lífi, eitt eða fleiri markmið, fjall til að klífa og því ekki að nota október í slíkt, það er sossum ekkert brjálæðislega merkilegt í gangi núna, hundleiðinlegt veður, flestir að spara fyrir jólainnkaupunum, Timberlake farinn heim og pínu lægðartímabil í kortunum að mínu mati allavega.

Ég persónulega hef nú reynt að hafa alla daga árið um kring meistaradaga, tel mig lifa nokkuð heilbrigðu lífi með hliðarsporum hér og þar svona í mataræðinu, en ég æfi skrokkinn meirihluta vikunnar svo í heildina er maður bara nokkuð góður. Ég ætla því ekki að setja mér einhver svaðaleg markmið núna, stefni aðallega á að ná úr mér flensunni sem herjað hefur á mig alla vikuna og fleyti mér áfram með kaffi og meistaramolum sem var bókstaflega "gutlað"saman í gær. Hendi hér inn uppskriftinni og ætti hún að koma sér vel fyrir alla sem hafa ákveðið t.d. að ryðja sykrinum úr lífi sínu, þó það sé ekki nema út október !!! Veit ekki hvað er með mig og hnetusmjör þessa dagana en þetta er uppáhalds núna. Þessir molar gætu verið afkvæmi, Bounty, Snickers og Mars !
Meistaramolar:
 
2 msk kókosolía
2 msk hnetusmjör(Solla eða Monki)
1 msk kakó
2 msk via health fínmöluð sæta (eða Sukrin Melis)
10 dr karamellustevía
2 dl salthnetur
2 dl möndlur
2 dl kókosflögur
1 tsk vanilludropar
 
Aðferð:
Hitið allt í potti á lágum hita, hrærið vel saman og deilið svo gumsinu í form.
Hægt að nota konfektform, silikonform eða smyrja þessu á plötu, frysta og skera svo í bita.
Ég fékk 36 stk úr þessari uppskrift og þeir munu duga lengi því það er tugga í þeim og því erfiðara að missa sig alveg.
Það mætti eflaust hakka hneturnar meira niður en mér fannst þetta fljótlegt og fínt svona, skemmtilega frjálslegir molar líka.

Monday, September 29, 2014

Sunnudagsbíltúr og ís með dýfu

Það sem við eigum nú fallegt land við frónverjarnir !! Ég viðurkenni að sem barn og unglingur þá fannst mér nú ekki það skemmtilegasta að þeytast um landið og skoða fjöll, fossa og kirkjur (minnir allavega að það hafi verið það eina sem skoðað var). Með aldrinum hefur maður nú eitthvað þroskast og kann betur að meta náttúruna og alla þessa fegurð sem bíður manns bara rétt fyrir utan bæjarmörkin. Við fjölskyldan skutumst nefninlega í sunnudagsbíltúr núna um helgina, enda búið að spá smá glætu og því tilvalið að taka sér frí frá vinnu og draga börnin út úr Mindcraft tölvuveröldinni og skoða þessa "alvöru" fyrir utan veggi heimilisins. Leiðin lá austur á Þingvelli í haustlitaferð, með viðkomu á nokkrum velvöldum stöðum eins og t.d. Efsta Dal þar sem hægt er að smakka ís í íshlöðunni, skoða kálfa og beljur og þessvegna fá sér að borða á hlöðuloftinu. Við stefndum hinsvegar á tómatsúpuna sem við höfðum heyrt af í Friðheimum, Reykholti enda fátt skemmtilegra en að fara í heimsókn til fólks með metnað og drif á öllum sem ég tel þurfa í svona ferðamannarekstri. Við fengum frábæra þjónustu hjá þeim tómatabændum sem buðu upp á girnilega súpu, nýbakað brauð og gúrkumeðlæti. Þjóninn fræddi okkur og þá sem vildu um ræktunina og kynnti okkur fyrir nöfnum mínum býflugunum sem unnu eins og forkar á meðan við kjömsuðum á súpunni. Veðrið var frábært og haggaðist ekki hár á höfði. Síminn var nýttur óspart í myndatökur og ferðinni svo slúttað með viðkomu í sundi á Minni Borg. Betri dag hefðum við ekki getað óskað okkur. Það vantaði reyndar alveg ís með dýfu svo því var reddað í snarhasti þegar heim var komið. Passlega stór skammtur af ís, sletta af dökku súkkulaði og þörfinni var svalað. Allir sáttir eftir þessa fínu helgi.
Íspinni með dýfu
2 egg
2 msk Via health sæta m steviu
1 tsk vanilludropar eða 1/2 tsk vanilluduft
1/3 tsk xanthan gum (má sleppa, en gerir heilmikið)
2 dl rjómi ég notaði laktósafrían, þeytið
 
Þeytið egg, sætu og vanillu vel saman, bætið xanthan gum saman við ef þið eigið, það gerir ísinn þéttari og einhvernveginn "alvöru". Blandið þeytta rjómanum við eggin og hellið svo í form. Ég notaði frekar djúp silikonform sem ég gat nýtt sem íspinna.
Skerið nokkur sogrör í 2 parta og stingið ofan í ísinn. Frystið.

Dýfan:
50 g rapunzel 80% súkkulaði eða annað
sykurlaust súkkulaði
1 tsk kókosolía
10 dropar karamellustevía Via Health t.d.
 
Bræðið saman hráefninu og veltið íspinnunum hratt upp úr dýfunni. Frystið aftur eða njótið strax.
Svo má sáldra kókosmjöli eða hnetumulning yfir ef þið viljið extra bragð.
 

 Thursday, September 25, 2014

Ömmuloka

Það kannast væntanlega fleiri en ég við að þrá sveitta samloku eða pizzu eftir næturbrölt og ég hef áður póstað uppskriftum af þessháttar samlokum í samlokugrilli. Mig langaði hinsvegar núna að steikja hana upp úr smjöri og gera svona ekta "ömmusamloku" æ bara smá persónulegar minningar á ferðinni. Brauðið þurfti að gera hratt og örugglega því mallinn var farinn að garga og ekki átti ég neitt tilbúið svo úr varð einskonar deighræra í matvinnsluvélinni sem ég smurði á bökunarplötu. Bakaði þetta svo á merkilega stuttum tíma og skar niður í 8 parta. Brauðin voru smurð með smá mæjó (Hellmans) enda bauð líðanin ekki upp á fleiri gloríur í eldhúsinu og svo var osti og skinku skellt á milli. Steikt á sveittri pönnu með íslensku smjöri og eftir merkilega stuttan tíma.. (hefði pottþétt ekki verið búin að fá Dominos slæsuna heim á sama tíma), þá var þessi girnilega loka mætt á diskinn. Brauðið sjálft er líka gott í brauðrist daginn eftir ef það er einhver afgangur. Njótið kæru lesendur.


Osta og skinkuloka
50 g kotasæla ( ath. gleymdist að setja inn í upphafi )
30 g sesammjöl
50 g möndlumjöl
50 g sólblómafræ
1 tsk lyftiduft
2 msk HUSK
dash xanthan gum ef þið eigið
salt
2 egg
1 dl vatn

Aðferð:
Ég malaði aðeins þurrefnin í matvinnsluvélinni minni, bætti svo eggjum og vatni við og
smurði deiginu á smjörpappír. Bakaði í ofni 180 gráður í 10 mín ca. Skar svo niður í 8 parta og smurði hverja sneið með smá mæjónesi, bætti við rifnum osti og skinku og svo steikti ég samlokurnar á pönnu upp úr smjöri  gott að hafa Hlöllasósu með þessu  eða búa til sykurlausa kokteilsósu.

Tuesday, September 23, 2014

Kjúklingasamsuða í anda bloggvinkonu

Ég ætla núna að viðurkenna eitt fyrir ykkur sem ég get ekki þagað yfir lengur... ég er með "stelpuskot"..... í henni Guðrúnu Veigu bloggvinkonu minni. Ég les skrif hennar upp til agna og það gleður mig alltaf jafnmikið því fyndnari penna hef ég sjaldan komist í tæri við. Við tvær gætum ekki verið ólíkari þegar að matargerð kemur en ég held að hún lifi á poppkorni, hnetusmjöri og óreó kökum. Það breytir mig þó engu enda fagna ég fjölbreytileikanum, sykurlausum eða ekki. Hún GV "lenti" í því fyrir stuttu að elda eitthvað annað en poppkorn og úr varð mjög girnilegur kjúklingaréttur sem ég ákvað að herma dálítið eftir enda kominn tími á að tæma úr grænmetisskúffunni. Ég átti ekki alveg allt sem var í réttinum hennar og breytti því sósunni örlítið enda ekki mikið fyrir að kaupa tilbúnar krukkusósur. Þetta varð hin skemmtilegasta kjúllasamsuða sem verður eflaust gerð aftur. Takk Veiga snillingur og ég mæli með að allir lesi bloggið hennar, það gefur lífinu lit.
Kjúklingasamsuða:
 
 1 poki kjúklingabringur frá Rose
1 tsk hvítlauksmauk eða 1-2 geirar hvítlaukur
3 msk smurostur að eigin vali, t.d. camenbert og beikon (ég notaði bæði)
1 lítil paprika
3-4 cm blaðlaukur
3-4 sveppir
1 tómatur
1 msk tómatpúrra
1 dl rjómi
2 msk fetostur, má sleppa
rifinn ostur 2-3 msk
 
Aðferð:
Steikið kjúklinginn í bitum upp úr olíu og hvítlauk.
Kryddið með góðu kryddi ég notaði chipotle krydd úr Kosti.
Setjið bitana í eldfast mót og geymið vökvann í pönnunni.  Bætið tómatpúrru út í og smurostinum, þynnið með smá rjóma og vatni ef þörf krefur.
Hellið sósunni svo yfir kjúklinginn og bætið niðurskornu grænmeti yfir. Bætið fetaostinum saman við og slettu af olíu. Að lokum er rifnum osti dreift yfir og allt hitað í ofni þar til osturinn er orðinn gylltur og girnilegur. Berið fram með þessu, t.d. ferskt grænmeti og blómkálsgrjón.