Thursday, April 2, 2015

Páskatertan

Það er orðin hálfgerð hefð hjá okkur í fjölskyldunni að ég baki páskatertu og mæti með hana upp í bústað hjá foreldrunum. Vegna anna þá förum við líklega ekki í bústaðinn þessa páska en kökuna þurfti að baka engu að síður. Ég ákvað að gera einfalda súkkulaðitertu í þetta sinn með mokkasmjörkremi og súkkulaðihjúp, pínu bakarís :) Njótið páskanna kæru vinir og þessi er ekki eins flókin og hún lítur kannski út fyrir að vera.

 
Páskatertan
 
120 g  smjör mjúkt
200 g Via Health sæta með stevíu, eða sambærileg sæta
80 g kókoshveiti
100 g möndlumjöl
70 g kakó
3/4 tsk matarsódi
5 egg
Saltklípa
250 ml rjómi
2 tsk vanilludropar
 
Smjörkrem:
150 gr mjúkt smjör
1 tsk vanilludropar
2 dl Via Healt fínmöluð sæta eða Sukrin Melis
10 dropar stevía, t.d.  karamellu
1 tsk skyndikaffiduft ( má sleppa )
2 msk rjómi
2 msk kalt vatn
(hér má nota eina eggjarauðu í stað rjóma og vatns)
 
Hjúpur:
1 plata sykurlaust súkkulaði, Valor eða Balance Steviusúkkulaði
1 dl rjómi
1 msk ósaltað smjör

Aðferð:
Þeytið smjör og sætuefni vel saman, blandið eggjum einu í einu saman við og blandið vel saman.
Því næst fara þurrefnin út í blönduna og hrærið áfram, rjóminn fer síðast.
Hellið blöndunni í 2 hringlaga form og bakið í 160°C heitum blástursofni í 40 mín eða þar til pinni kemur hreinn úr miðju.
 
Kælið og þeytið saman smjörkremið.
Blandið mjúku smjörinu saman við sætuna og kakó/ kaffidufti og þeytið vel þar til kremið verður loftkennd, bætið rjóma saman við og vanillu og að lokum ísköldu vatni.
Það gerir helling að nota vatnið og kremið verður fallega ljóst. Smyrjið kreminu á milli botnanna og setjið til hliðar. Hér má geyma 2-3 msk af kremi til skreyta með í lokin.
 
Næst er það hjúpurinn:
Hitið í potti rjómann þar til hann fer að sjóða örlítið, brytjið niður súkkulaðiplötuna í skál og hellið svo sjóðandi heitum rjómanum yfir, hrærið þar til allt verður slétt og fellt, bætið smjöri út í og endurtakið leikinn.
Nú er sniðugt að rífa smjörpappír í lengjur og smeygja undir kökuna allan hringinn. Þá er hægt að hella hjúpnum yfir án þess að diskurinn verði allur útbíaður í kremi.
Þegar hjúpurinn hefur kólnað aðeins, líklega jafn lengi og þið setjið pappírinn á sinn stað, þá er honum hellt yfir varlega. Dreifið með hníf en annars ætti hjúpurinn að renna sjálfur á sína staði.
Skreytið með afgangs smjörkremi og dálitlu heslihnetukurli og leyfið kökunni að taka sig aðeins í kæli áður en hún er borðuð. Mæli með þeyttum rjóma og góðu kaffi með þessari. Tilvalin í eftirrétt eftir kalkúninn.  Gleðilega páska :)
 

Monday, March 23, 2015

Sykurlaust döðlugott á tvo vegu

Jæja þá er komið að enn einni játningunni... súkkulaðihúðað poppkorn er líklega höfuðsynd nr 8 í mínum bókum, svei mér þá. Saltað, stökkt og sætt allt í sömu lúku !! hvað er hægt að biðja um meira.. Jæja, kannski ekki beint það hollasta en ef maður gerir svona semiholla útgáfu með því að nota sætuefni og döðlur sem eru jú innihaldið í öðru uppáhalds "stelistínamminu" mínu "döðlugottinu hennar Kristbjargar vinkonu" þá er hægt að gera örlítið nettari útgáfu sem inniheldur ekki eins margar sprengjur, hvort hitaeiningalega séð né í súperháum sykurstuðli.. allt með smá tilfæringum. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir af hinu týpíska döðlugotti og í þeim flestum voru allavega 250 g af döðlum. Mér fannst það heldur of há kolvetnatala því jú döðlur eru háar í kolvetnum svo ég ákvað að minnka magnið og nota Sukrin Gold á móti. Rice krispies er svo megin innihaldsefnið í þessum týpisku döðlugotterísbitum en ...naaa ekki alveg í boði, það eru svo mörg aukaefni í því og framandi sýrópstegundir sem maður þekkir ekki svo ég einsetti mér að nota eitthvað annað, hey popp !! því ekki. Loftpoppað popp hentar fullkomnlega, er það ekki nýjasta heilsuæðið, hollara en salat sagði einhver ;). Ég ákvað því að gera 2 útgáfur, eina með fitnesspoppi og aðra með möndlum og dálitlu glúteinlausu haframjöli . Þetta kom vel út og hélst saman og allt, þrátt fyrir þessar örfáu krúttlegu döðlur svo hér er komið mitt nýja uppáhald svona allavega fyrir laugardagskvöldin, sykurlaust og svona semihollt nasl :)  Hér eru uppskriftirnar af herlegheitunum, endilega prófið.
Döðlugott með poppkorni
Döðlugott með möndlum og haframjöli
Poppið malað í matvinnsluvél hér og blandað saman við maukið
 
 
Döðlugott með poppkorni:
 
1 poki fitnesspopp, þarf ekki að nota alveg allan pokann, má fá sér lúku
50 g smjör
100 g döðlur, niðurbrytjaðar (H- Berg selur þær tilbúnar í bitum)
1 kúfuð msk Sukrin Gold
 
Aðferð:
Hitið smjörið, sukrin gold og döðlurnar í stórum potti þar til þær fara að bubbla.
Gott er að mauka blönduna í pottinum með töfrasprota.
Malið  poppkornið gróflega niður og blandið öllu saman þar til poppið er orðið húðað í döðlumauki.
Þrýstið þessu í form og þjappið vel niður.
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni með 1 tsk af kókosolíu og hellið yfir, ég notaði dökkt Valor súkkulaði sem er hægt að fá sykurlaust.

Döðlugott með möndlum og haframjöli:
 
100g möndlur brytjaðar
1 dl glúteinlaust haframjöl ( má samt sleppa og bæta við macadamiuhnetum t.d. )
50 g smjör
100 g döðlur, niðurbrytjaðar (H- Berg selur þær tilbúnar í bitum)
1 kúfuð msk Sukrin Gold
 
Aðferð:
Hitið smjörið, Sukrin gold og döðlurnar í stórum potti þar til þær fara að bubbla.
Gott er að mauka blönduna í pottinum með töfrasprota.
Blandið möndlunum og haframjölinu saman þar til allt er orðið húðað.
Þrýstið þessu í form og þjappið vel niður.
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni með 1 tsk af kókosolíu og hellið yfir, ég notaði dökkt Valor súkkulaði sem er hægt að fá sykurlaust.


Monday, March 16, 2015

Kókosjöklar sem slá í gegn

Jæja eftir rúma viku í veikindum hélt ég að allt væri á réttri leið, vann svo í búðinni okkar um helgina og svei mér þá ef kvefið er ekki eitthvað farið að böggast í mér aftur. Hef þó heitið mér að vera extra dugleg núna og sleppa öllu svindli, já hef aðeins laumast skamm skamm. Það er því ekki vitlaust að eiga svona "vopn" gegn sykurpúkanum í startholunum í ískápnum ef græðgin dettur í hús. "Kókosjökla" kalla ég þessa bita og eru meðal fjölmargra uppskrifta sem leynast í bókinni minni Brauð&eftirréttir Kristu. Ath. að ég á nokkur eintök eftir á litlar 2500 kr ,bæði hjá mér sem og í verslunum Systra og maka, Laugavegi 40 og Strandgötu 9 Akureyri, just saying :)
Í fréttum er það helst að ég og eiginmaðurinn lukum enn einu matreiðslunámskeiðinu í síðustu viku, nú á Hvolsvelli og það gleður mig endalaust hvað margir eru að halda sig frá sykrinum. Það styrkir okkur hjónin alltaf eftir þessi kvöld að halda okkur við þetta góða mataræði og nú er það bara operation speedo/bikini næst á dagskrá.
 
 
Ég breytti örlítið uppskriftinni frá því úr bókinni en notaði rjóma í þetta sinn og Via Health strásætu með blandaðri stevíu og kom það mjög vel út.
 
Kókosjöklar
 
80 g Via Health strásæta með stevíu
80 g kókosolía
80 g kókosmjólk, kókosrjómi eða venjulegur rjómi
200 g gróft kókosmjöl
 
Aðferð:
 
Hitið kókosolíuna og rjómann í potti, bætið sætunni saman við og hrærið vel. Blandið því næst kókosmjölinu saman við og hrærið aftur.
Ef blandan er of þurr þá má bæta við örlitlum rjóma eða kókosmjólk.
Þrýstið blöndunni í konfektform t.d. úr silikoni og frystið í klt.
 
Hitið svo sykurlaust súkkulaði (ég notaði Valor og það má endilega bragðbæta það með appelsínu, romm eða piparmyntudropum eftir smekk) yfir vatnsbaði og dýfið kókosjöklunum ofan í súkkulaðið.

Kælið á smjörpappír og njótið síðan með rjúkandi heitum kaffibolla.
Geymast best í frysti eða kæli.


Friday, March 6, 2015

Kanilsnúðar fyrir lasarus

Pínu upprifjun hér hjá mér lasarusnum sem langaði svo í snúð þegar ég sá systur mína á snappinu gæða sér á einum slíkum og þar sem ég legg ekki einu sinni í bílferð í bakaríið þá varð úr að gera hollustu útgáfuna mína. Katla mín þú prófar þessa næst :) Við erum sko að taka "Mega mars" í hreyfingu og mataræði sem byrjaði ekki betur en að undirrituð lagðist í rúmið með flensu.. en munið að 50-70% hollusta er betri engin... er það ekki.. jæja farin að gæða mér á snúð og  kaffi.  
Kanilsnúðar á 5 mín í öbba

 20 g kókoshveiti( rúmleg msk)
1 rúm msk HUSK grófa
10 g sukrin melis
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 egg
1/4 tsk vanilludropar
2 msk vökvi(vatn, möndlumjólk, rjómi)
örfá saltkorn
 
Aðferð: 

Hrærið þurrefnum og svo bætið þið við egginu og vökvanum, hrærið soppuna þar til hún er kekkjalaus með gaffli t.d.
smyrjið deiginu í lítinn ferning á plastfilmu og látið standa þar þar til búið er að gera fyllinguna.

 

Fylling:
1/2 msk brætt smjör
1 msk sukrin
1 tsk kanell

 Hrærið saman kanelsykri og bræðið smjörið. Dreifið kanelsykrinum yfir deigið og látið svo smjörið drjúpa varlega yfir allt saman. Rúllið upp snúðunum með plastfilmunni og skerið í 9 litla snúða. Setjið yfir á smjörpappír og bakið í örbylgjunni á hæsta styrk í 2.30 mín.
Leyfið snúðunum að anda aðeins og kólna áður en þeirra er neytt. Eggjalyktin hverfur fljótt ;)

Þetta ætti ekki að taka mikið meira en 5 mín, kannski 10 mín með tiltekt :)

Friday, February 20, 2015

Súkkulaðicado trufflur

Nú þegar páskahelgin nálgast óðfluga þá fyllast allar hillur verslana af girnilegu súkkulaði í öllum stærðum og gerðum. Ég fór meira að segja á fund í Nóa Siríus fyrr í vikunni og viðurkenni alveg að það var hættulega góð lykt í loftinu... og já ég fékk smakk með kaffinu. Þó allt sé gott í hófi þá   hentar sumum bara alls ekki að neyta sykursins í neinu hófi svo hér er útfærsla af trufflum sem eru svei mér þá "truflaðar" og komast alveg með tærnar langt fram yfir hælana á súkkulaðinu. Það tekur stuttan tíma að útbúa sjálft innihaldið en svo er smá dúllerí að rúlla þeim út og skreyta. En vel þess virði nota bene. Ég er persónulega mjög hrifin af sterku súkkulaði og pínu krydduðu svo ég notaði cayenne pipar í mínar trufflur, það má þó alveg sleppa því. Skemmtilegasta við þessar trufflur er þó aðalinnihaldið sem er avocado sem er svo mikil ofurfæða.  Endilega prófið þessar um helgina, til dæmis á konudaginn :)Súkklaðicado trufflur
Innihald:
1 avocado stórt eða 2 lítil
85 g kókosolía
30 g kakó
40 g Via Health fínmöluð sæta
5 dropar Via Health stevía
1 tsk vanilludropar
1/3 tsk cayenne pipar
 
Skraut:
malaðar pistasíur
malaðar möndlur
kakóduft
kókosmjöl
o.sfrv.
 
Aðferð:
Setjið innihaldið saman í matvinnsluvél, blandara eða notið töfrasprota.
Blandið öllu vel saman og setjið í kæli á meðan skrautið er undirbúið eða um 30 mín.
Takið nú tsk og skafið upp úr skálinni ca 1 tsk á trufflu, rúllið varlega milli handanna, gott að nota einnota hanska.
Veltið trufflunni upp úr skrauti að eigin vali og setjið á disk.
 Kælið trufflurnar og njótið ca klst síðar.Wednesday, February 11, 2015

Ástarterta með eldrauðu hlaupi

Þessi sló í gegn hjá gamla mínum, eða honum fannst hún "obbossins" góð eins og hann er vanur að segja enda er átrúnaðargoðið hans Gunnar á Völlum, sá fyndni drengur. En að kökunni, þetta er dálítill útúrsnúningur á Sítrónutertuna sem ég póstaði hér í fyrra og stendur enn fyrir sínu en nú er botninn með salthnetum og kirsuberja jell-o með frosnum hindberjum eru á toppnum á þessari.

Fersk og góð kaka með passlega sætu bragði sem ætti að henta vel á Valentínusarborðið eða í hvaða partý sem er. Hún batnar með aldrinum eins og flestar ostakökur en hún er löngu búin hér svo það breytir engu. Fljótlegt og gott, kemur öllum í gott skap.


Salthnetu ostakaka með kirsuberja jell-o og hindberjum.
 
Botn:
80 g möndlumjöl gróft
40 g brætt smjör
50 salhnetur malaðar
30 g Via Health strásæta með stevíu
 
Fylling:
400 g rjómaostur
1 peli rjómi léttþeyttur
1 msk matarlímsduft ( fæst í bökunardeildunum )
100 g Via Health fínmöluð strásæta
1 tsk vanilludropar
 
Toppur:
250 g frosin hindber eða jarðaber
1 Jell-o pakki sykurlaus (fæst t.d. í KOSTI) cherry eða strawberry sugarfree
300 ml sjóðandi vatn
 
Aðferð:
Blandið saman mjöli og hnetum við smjör og sætu, hellið í eldfast mót og bakið í 10 mín við 170°c
Þeytið rjómann létt og takið til hliðar, þeytið næst rjómaostinn saman við sætuna og vanilludropa ásamt matarlímsduftinu.
Blandið rjómanum saman við og þeytið vel.
Hellið fyllingunni út í eldfasta mótið þegar það hefur kólnað ögn og dreifið úr henni. Kælið í ískáp.
Á meðan er hægt að útbúa Jell-o toppinn, sjóðið vatn og hellið í skál ásamt Jell-o duftinu. Hellið frosnum berjunum saman við og hrærið vel.
Þegar blandan er farin að kólna nokkuð þá er henni hellt yfir ostakökuna og hún kæld aftur. Berið fram þegar jell-o ið hefur stífnað
.

Friday, February 6, 2015

Bóndadags sprengjan

Jæja seint blogga sumir en blogga þó. Ef ég ætti sirka einn klukkutíma í viðbót í sólarhringnum þá gæti ég verið duglegri hér en held samt að ég sé að nýta tímann minn alveg 100% svo þannig er það bara. Pabbi hafði nú á orði þegar hann mætti í opnunina hjá okkur systrum og mökum  í nýju versluninni í gær og horfði yfir allt skartið, hárböndin og dúlleríið í öllum hornum að hann hreinlega skildi ekki hvenær ég hefði tíma í að gera þetta allt !! Æi sætt en ég skal alveg viðurkenna að ég nýti hverja einustu mínútu í vinnu eða einhversskonar dútl og ég fer aldrei í Candy crush eins og ég hef eflaust talað um áður :) Tími ekki mínum dýrmæta tíma í eitthvað tilgangslaust (að mínu mati) leikjastúss. En allavega ... ég og Katla systir ætlum að bjóða upp á klúbbakvöld í búðinni okkar á Laugaveginum í vetur og verða þau á fimmtudagskvöldum. Við kynnum fyrirtækið og hugmyndafræði okkar á bak við verslunina og svo verður matur borinn á borð, súpa, brauð og einhver gómsætur desert.. Hann er einmitt kveikjan að blogginu hér.. Ég gerði þessa súkkulaðisprengju handa bóndanum mínum á bóndadaginn síðastliðinn og rann hann ljúft niður. Hann er þrusueinfaldur og þarf rétt að kæla hann áður en hægt er að bera fram. Ekkert vesen.

 Bóndadagssprengja

50 g sætuefni
250  ml kókosolía
40 g kakó
2 tsk vanilla
50 ml möndlumjólk eða kókosmjólk
10 dropar Via Health stevía

Hitið kókosolíuna, blandið síðast öllu saman með töfrasprota, hellið í form og kælið. Gott að bera fram með ristuðum pecanhnetum, þeyttum rjóma og hindberjasósu :)


  Svo verð ég aðeins að monta mig af nýju versluninni okkar , Systur og makar Laugavegi 40, nú eru það tvær búðir ein í Reykjavík og önnur á Akureyri, á 5 mánuðum og geri aðrir betur :)

Ein nýjungin, svona bara til að fimmtudagskvöldin hjá okkur systrum verði ekki ónýtt !!