Friday, December 19, 2014

Óskalistinn

Nú ætla ég á misnota aðstöðu mína og droppa hér nokkrum óskasprengjum, aðallega fyrir eiginmanninn sem á alltaf mjög erfitt með að finna eitthvað til að gefa frúnni í jólagjöf og finnst hún afar erfið þegar kemur að gjafavali en svo man hann líka aldrei eftir neinum þeim hugmyndum sem ég er búin að gauka að honum síðustu 11 mánuðina svo hér berst þér hjálp minn kæri. Æ svo á ég afmæli 31.des svo höfuðverkurinn er tvöfaldur hjá mínum spúsa. Og já svo ef einhver annar á eftir að græja eitthvað handa mér þá er tækifærið hér. Ég er með frekar massívan óskalista svo ef þið sameinist kannski 15-20 þá er hægt að finna eitthvað hæfilegt fyrir budduna hhoho djók! Til að  forðast algerlega allan misskilning þá er þessi póstur ekki styrktur af neinum fyrirtækjum enda hef ég ööörsjaldan fengið sendingar heim að dyrum að launum fyrir bloggfærslur mínar. Ég fæ jú stundum hráefni í tilraunabakstur sem endar jafnvel í hænunum og villikattargreyjunum en að öðru leyti er bloggið mitt ekki mín tekjulind :) Ég fékk jú reyndar einu sinni grjónapúða/hitabakstur frá yndislegum hjónum sem komu hér færandi hendi og þökkuðu mér fyrir uppskriftirnar á netinu. Sú gjöf stendur uppi í mínum huga og nota ég hana mikið. Sælla er að gefa en þiggja er mitt mottó og ef hægt er að nýta sér þessa vitleysu í mér hér og tilraunastúss í eldhúsinu þá er það besta mál, allavega þegar ég hef tíma. En nú er komið að óskalistanum góða :) Eruð þið ekki spennt ?


 
Þennan disk ættu allir að eiga, er búin að róa niður taugarnar hjá mér síðustu vikurnar í búðinni minni og ég væri alveg til í að eignast eitt eintak sjálf, Sunna svila mín þú reddar því er það ekki ?
Ljúf íslensk djasslög sem allir raula með, ótrúlegt hvað fólk kann marga texta.

 


Hef lengi viljað eignast almennilegt hjól og hjóla um allt, bókasafnið, kaffihús, blómabúðina og koma kannski við hjá slátraranum og á grænmetismarkaðnum.. mmm í hvaða bíómynd býrð þú María ?


 
Ok kannski pínu tengt mér en kom on, þessi föt hennar systu hjá Volcano Design eru bara svo falleg og klæðileg og yrðu það eflaust á mér, mér sýnist módelið nefninlega vera með svipaðan háralit.. svo þetta er gefið !
 
 
Þarf að ræða þetta eitthvað ?
 

 
Þessi krem þekki ég aðeins og get alveg mælt með, sem og mælt með því að einhver gefi mér bara alla vörulínuna eins og hún leggur sig :))))

 
Já takk, spennandi jól fyrir mig,þreytta verslunareigandann, annars sofna ég ofan í formálann..
 

 
Þessi lofar líka góðu og hver veit nema maður gæti lesið tvær fram að áramótum.

 
Ég myndi ekki kasta þessum skóm neitt út úr rúminu , Marta Jóns þú ert með þetta...

 
Hver vill ekki hafa það notó í klukkara með panflautum og ólífuolíu ? Gæti vel hugsað mér nuddtíma í jóló... hint hint Tóta

 
Sko ef ég á að geta bloggað áfram eitthvað þá er kominn tími á endurnýjun á síma, minn er orðinn ansi smjörleginn og búinn að hitna vel á alla kanta eftir að þurfa að mynda hálfbakaðar kökur á 180°C fyrir bókaskrif eigandans..

Talandi um matreiðslubækur, þessi dama er auðvitað bara einn brandari, allt sem kemur frá henni fær mig til að skella upp úr. Ég mun líklega ekki borða mikið af uppskriftunum en ég get étið textann upp til agna. Og mér finnst bókakápan fyndin.
 

 
Leikhúsmiðar í Borgó eða Þjóðó, ekki slæm hugmynd :) Elska leikhús og skammast mín fyrir lélega mætingu í vetur..

 
Ok uppseld kannski en hey, hefur maður engin sambönd hérna ??

Ég er ekki merkjasnobbari á nokkurn hátt, á ekki milljón Ittala krukkur og glös.. jú ok ég á nokkur, en ég á t.d. ekki Omaggio vasagreyið...hmm já það er fín hugmynd líka á listann ! En þessir stólar eru ekki bara bjútífúl heldur líka gott að sitja á þeim hef ég heyrt :) Love it.
 
Þessi dásamlegu rúmföt eru víst til í H&M, Mekkín mín og Arnar Danmerkubúar, smá hint á ykkur :)
 
Litla flugan eftir vinkonu mína hana Olgu Perlu í Gling Gló er nú bara kjútípæ og færi mér ábyggilega gasalega vel. Ég er sko meira gyllt Börkur minn !
 
 
....Jæja er þetta ekki orðið gott, elsku eiginmaður, jólasveinn, börn, ömmur og frænkur... það er allavega ekki hægt að segja að maður eigi ALLT hahah.
 
Gleðileg Jól öll og hafið það notalegt yfir hátíðirnar.
Auðvitað óska ég þess svo heitast og best að eiga góðar stundir með fjölskyldunni og frábært ef við náum að spila svolítið og hlæja, laus við síma og tölvur, það er svo agalega gott fyrir andann. 
Elska ykkur öll !
 
 

Friday, December 12, 2014

Piparkökur og rauðlaukssulta

Já það er víst hægt að nota kökumótin fyrir annað en skrautmuni úr matarsóda svo ég ákvað að hræra í eina piparkökuuppskrift sem kom bara nokkuð vel út. Ég er með aðra hér á blogginu en ég breytti henni töluvert og er ekki frá því að deigið sé skemmtilegra að vinna með enda xanthan gum töfraduft fyrir lkl bakstur. Svo heppnaðist rauðlaukssultan mín svo vel hér í vikunni að ég ákvað að deila henni með ykkur. Eigið góða helgi og ekki láta ykkur verða of kalt. Mæli ekki með lungnabólgu um jólin.


 
Piparkökur bakarastelpunnar
 
130 g fínmalað möndlumjöl (grænu pokarnir frá Funksjonell)
20 g kókoshveiti
1 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk engifer
3 tsk kanell
1 tsk negull
1/2 tsk pipar
8 msk sukrin gold
100 g mjúkt smjör
2 eggjahvítur
1/2 dl rjómi
1/2 tsk Xanthan gum
15 dropar stevía Via Health
 
Aðferð:
 
Þeytið saman smjörið og sukrin gold. Bætið svo við rjóma og eggjahvítum og að lokum þurrefnunum. Hrærið í góða kúlu og geymið hana í kæli í dágóðan tíma, best yfir nótt.
Fletjið út deigið og skerið karla og kerlingar úr deiginu. Bakið í u.þ.b. 15 mín á 160°c en fylgist með að kökurnar brenni ekki.
Látið kólna vel og skreytið svo með glassúr.
 
Glassúr:
30 g Sukrin Melis eða fínmöluð Via Health sæta
1/3 tsk xanthan gum
1 msk eggjahvíta
5 dropar stevía
 
Aðferð:
Hrærið og þynnið með smá vatni ef þörf er á.
Skreytið og njótið.
 
 
 
Rauðlaukssulta:
 
3 rauðlaukar
1 msk smjör
2 msk sukrin gold
2 msk rauðvínsedik
salt og pipar
2 msk þurrkuð trönuber, gefur mjög gott bragð
 
Aðferð:
Steikið laukana upp úr smjörinu, látið edik saman við og sukrin gold og hrærið vel í.
Þegar edikið hefur gufað upp að mestu þá er laukurinn tilbúinn. Mjög góður með kjöti og grafinni gæs t.d.
 

Monday, December 8, 2014

Föndur

Nú er mín bara lítið búin að elda af mat undanfarið, en hef aftur á móti föndrað smá úr mat :) Gaf mér nokkra tíma í að leika mér með matarsóda og kartöflumjöl eins og margir eru að gera þessa dagana og bjó til pakkaskraut. Þetta kemur enn betur út heldur en saltdeigið sem ég gerði í fyrra og fallegri áferðin á þessu deigi.
Þau eru svo auðvitað bara snilld mótin frá Allt í köku í Kópavoginum, gerir þetta fallega skraut allt svo miklu meira alvöru :) Svo er algjör snilld að brjóta jólatré í origami stílnum úr gjafapappír, ljósritunarblöðum eða origamipappír en þau punta svo sannarlega stofuna, jólapakkann eða gluggana.
Jólapakkaskraut
 
100 g kartöflumjöl
300 g matarsódi
200 ml vatn
 
Aðferð:Hitið allt saman í potti á lágum hita og þegar deigið fer að þykkna þá er það tilbúið. Um leið og hægt er að hræra deiginu upp í kúlu þá má taka pottinn af hellunni og
kæla. Hnoðið svo vel deigið á mottu og notið kartöflumjöl ef það er of blautt. Svo má skera út fallegar stjörnur eða hjörtu, þrykkja mynstri ofan í eða hvað sem er. Notið sogrör til að
búa til gat fyrir borða og leyfið svo skrautinu að þorna yfir nótt eða tvær. Það er líka hægt að baka skrautið en mér fannst koma betur út að leyfa því að þorna sjálfu.
 

Monday, December 1, 2014

Súkkulaðibúðingur án sykurs og súkkulaði

Súkkulaðibúðingur án sykurs og súkkulaði, hljómar ótrúlega, því yfirleitt er einhversskonar súkkulaði brætt út í rjóma til að búa til þennan ljúffenga eftirrétt.
Það er alveg hægt að fara milliveginn og nota kakóduft og sykurlausri gervisætu til að ná fram sömu áhrifum, allavega brosti ég hringinn eftir þennan ljúffenga eftirrétt í gærkvöldi.

Súkkulaðibúðingur
 
4 dl laktósafrír rjómi (Arna) má líka nota venjulegan
2 kúfaðar msk Via health fínmöluð sæta
1 kúfuð msk kakó
1 tsk vanilludropar
4-8 dropar stevíu án bragðefna eða vanillu
 
Aðferð:
Sigtið sætu og  kakó út í hrærivélaskál, hellið rjómanum fljótandi út í og bætið við vanillu og stevíu.
Þeytið nú eins og um venjulegan rjóma sé að ræða og þegar toppar myndast í skálinni er rétturinn klár.
Skerið niður jarðaber í fallegar skálar og svo er extra smart að sprauta búðingnum í skálina. Kælið og njótið svo eftir matinn.
 

Sunday, November 30, 2014

Aspasréttur á sunnudegi


 Hvað er að frétta með þetta veður ? Ég fann mig knúna til að skella í eitthvað saðsamt og huggandi í þessu rokrass... og úr varð skinku og aspas pæ sem er svo einfalt að hálfa væri helmingur.
Ég hef verið arfaslök á blogginu undanfarið því vinna og loðnir ferfætlingar án heimilis hafa tekið upp allan tímann minn. Er einmitt að skipuleggja Jólabasar nk laugardag 6.des sem verður haldinn í sal systur minnar Síðumúla svo ef þið viljið kíkja á ekta fatamarkað og jafnvel fjárfesta í prótótýpum og efnisströngum frá Volcano Design þá eruð þið velkomin. Allur ágóðinn sem við systur nælum okkur í mun renna til félagsins Villikettir :) Gaman að því. En endilega skellið í eitt svona pæ það er geggjað gott.

Aspasréttur á sunnudegi
 
4 egg
100 g rifinn ostur
100 g brytjuð skinka
100 g aspas úr dós
2 msk husk
salt og pipar
1 dl rjómi
 
Aðferð:
Pískið öllu vel saman og hellið svo í smurt eldfast mót.
Bakið á 180°c í 15-20 mín, bætið rifnum osti ofan á pæið og bakið áfram í 5 mín ca.


 
Hér er svo auglýsing vegna Jólagleðinnar góðu.
 

Monday, November 10, 2014

Súkkulaðikaka og kókómjólk

Ég fór í afmæli hjá frændsystkinum mínum um helgina og eftir að hafa séð svo girnilega mynd af skúffuköku hjá dóttur minni á snappinu þá ákvað ég að búa mér til afsökun fyrir að ÞURFA að baka eina slíka sjálf. Þarf ekki að koma með eitthvað bakkelsi ?? spurði ég mágkonuna og er ekki bara fínt að það sé eitthvað sykurlaust  ?? Ég leitaði ekki lengi á netinu áður en ég fann eina girnilega uppskrift sem mæjónes leikur stóra rullu en mér finnst algjör snilld að nota það í bakstur, sem og rjómaost, það kemur eitthvað nýtt bragð af bakkelsinu :) Ég snaraði bollamælingum og amerísku hráefni yfir á íslensku, breytti pínu og kakan var klár eftir tæpan klukkara.  Get alveg mælt með þessari í barnaafmælið, bragðgott súkkulaðibragð og að sama skapi mjúk og góð.  Svo er nú ekki hægt að fá sér súkkulaðiköku án þess að fá sér mjólk með en þar sem ég er minna í mjólkinni ákvað ég að prófa að þynna bara rjóma og bragðbæta og úr varð þessi fína kókómjólk.


 
Súkkulaðikaka:
 
100 g kókoshveiti ( ekki hægt að nota H-Berg)
70 g kakó
1 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
200 g Via Health sæta með stevíu
6 egg
1 tsk vanilludropar
180 g Hellmanns mæjónes
280 ml vatn
 
Aðferð:
Þeytið egg og sætu saman í 3-5 mín , bætið mæjonesi við og þeytið áfram. Blandið þurrefnum saman í skál, bætið svo vatninu og þurrefnum til skiptis við eggjablönduna.
Smyrjið skúffukökuform og hellið deiginu í. Bakið á 170°C í 35 mín.
 
Glassúrkrem:
100 g fínmöluð Via Health sæta
50 g smjör eða kókosolía, brædd
1 tsk vanilludropar
2 msk kakó
1 dl rjómi eða möndlumjólk
1 msk karamellusýróp eða 10 karamellustevíudropar
 
Hræra vel saman eða nota töfrasprota, dreifa yfir volga kökuna og strá kókosmjöli yfir rétt áður en glassúrinn storknar
 
Súkkulaðimjólk:
1 tsk fínmöluð Via Health sæta
1 tsk kakó
2-3 msk rjómi, má nota laktósafrían
1 tsk súkkulaðisýróp Torani eða 6 dropar súkkulaðistevía
hálft glas klaki
vatn upp að brún
 
Aðferð:
Blandið kakói og sætu saman við rjómann og hrærið vel ( best að gera þetta all í blandara en ef hann er ekki til þá bara nota skeiðina) setjið svo klaka í glasið og vatn upp að brún, hrærið vel þar til kakóið er farið að leysast upp og svo bara svolgra þessu í sig.
 
 
 

Sunday, November 9, 2014

Brauðstangir, Dominos hvað ?

Það er laugardagskvöld, steikin búin að setjast í mallanum og nánast komið að háttatíma. Bíómyndin hálfnuð og þá allt í einu bankar nartþörfin hjá frú Maríu Kristu. Hvað gera bændur, jú hendast inn í eldhús og snara fram brauðstöngum á mettíma. Örbylgjuofninn kemur sér vel í þessari uppskrift en eflaust er hægt að bræða ost í góðum potti á lágum hita ef fólk er algjörlega mótfallið örbylgjunotkun eða á ekki slíkan grip. Bakaraofninn er reyndar líka nauðsynlegur í þetta verkefni og eftir 15-20 mín mesta lagi voru 6 ómótstæðilega girnilegar brauðstangir með hvítlaukssmjöri og parmesan lentar á sófaborðinu. Ídýfan sem er algjörlega út í loftið var æðisleg með þessu og já kláraðist allt á mjög stuttum tíma. Skammarlega stuttum jafnvel. Hér er uppskriftin ef þið eruð í sömu hugleiðingum og ég. 
Brauðstangir:
1 egg
1 msk rjómi
2 msk kókoshveiti
140 g rifinn ostur
hvítlauksduft eftir smekk
1-2 msk parmesanduft úr bauk
 
Aðferð:
Hitið ostinn í öbbanum ( í skál )  í 30 - 60 sek eða þar til hann er fljótandi og ekki farinn að ofhitna.
Blandið öðru innihaldi saman við og hrærið rösklega svo allt blandist saman, gæti tekið nokkur kröftug handtök. Ofninn hitaður í 180°c og næst er klipið í deigið vænn skammtur og eins og ég gerði þá bara sneri ég upp á deigið og bjó til hálfgerðan snúning sem ég lagði svo á bökunarpappír. Endurtakið þar til ca 6 stangir eru mættar á plötu. Dreifið pínu parmesanosti yfir, nota bara úr bauk.
 
Bakið í ofni í ca 10 mín. Þegar stangirnar eru fagurgylltar þá eru þær klárar
EXTRA GOTT EF ÞIÐ NENNIÐ:
 
Hvítlaukssmjör
Á meðan stangir eru í ofninum er gott að bræða 2 msk smjör í  potti eða öbba, blanda 1/2 tsk af hvítlauksmauki saman við og um leið og stangirnar koma úr ofninum er smjörinu penslaði yfir.
 
Sósan:
Hunts pizzusósa væn sprauta 2-3 msk allavega
1 msk Franks hot chilli sauce ( KOSTUR) 
Ath að þetta er einungis minn smekkur, það er líka nóg að nota bara pizzusósuna.