Friday, March 29, 2013

Humarpizza föstudagsins langa

 
Eftir málningarvinnu og yfirhalningu á þvottahúsi og forstofu svo væntanlegir fermingarveislugestir fái ekki flog þegar þeir birtast hér næstkomandi fyrsta dag sumars, (vá löng setning) en það er jú Föstudagurinn langi.. þá ákvað húsfreyjan að vera grand og prófa að umbreyta hefðbundinni humarpizzu í "ketó" LKL pizzu. Heppnaðist bara glimrandi vel og hvítlauksilmurinn fer líklega seint úr eldhúsinu.
 
Botninn var nokkuð hefðbundinn blómkálsbotn.
Í þennan stóra botn fór:
 
1 heilt blómkálshöfuð
4 egg
1 poki af mozarella rifnum osti
pipar
2 msk oregano
hvítlaukssalt
2 msk kókoshveiti
 
Blómkálið rifið niður í mixer eða með rifjárni ( mixer töluvert hraðvirkari) sett í örbylgjuna í 8 mín
Leyft að kólna dálítið áður en innihaldsefnum var blandað út í .
Blandan sett á bökunarplötu og í ofn í 10 -15 mín. Tekin úr ofni og látin standa aðeins á meðan humarinn var græjaður til.
 
Humar:  Skelflettur humar í poka ( Sælkerafiskur í þetta sinn ) hreinsaður og gerður fínn.
1 hvítlaukur skorinn í bita og 50 gr smjör sett á pönnu. Látið malla dálitla stund.
Humarnum var svo velt upp úr þessu gúmmilaði.
 
Sósan: Rjómaostur og tómatpúrra ( sykurlaus ) blandað saman og þynnt með pínu rjóma.

Sósunni dreift á volgan botninn, ég setti niðurskorna sveppi í þetta sinn með á pizzuna( þarf ekki ), og svo var humrinum dreift yfir ásamt hvítlauksbitunum og smjörinu.
Pizzunni brugðið í ofninn og bakaðist hún á nokkuð háum hita í 5-8 mín þar til humarinn var eldaður. Ruccola og parmesan ostur yfir og þá var hún klár.
Hvítvínsglas til hátíðarbrigða og allir kátir enda búin að vinna fyrir þessari í dag.
 
 
 
 

2 comments:

  1. Girnilegt !!!

    ReplyDelete
  2. Frábær pizza - góð tilbreyting frá þessari hefðbundnu.

    ReplyDelete