Wednesday, March 20, 2013

Moldvarpan og músin

 
Þegar ég var lítil stelpa, var oft boðið upp á "Moldvörpu" á heimili mínu, en það kölluðum við rétt sem samanstóð af hakki, dísætri kartöflumús, gulrótum og grænum baunum.
 
Í þetta var ríkulega bætt við af HUNTS tómatsósu og allt sett í ofn með þykku lagi af osti. Svipar til hins klassíska "Shepards Pie" breta og frakka, nema hvað þessi "hafnfirski" er ekki beint sá hollasti !! Moldvarpan hefur þó verið vinsæl hjá mínum börnum gegnum árin en nú langaði mig að gera mína útgáfu af þessum saðsama og "kósý" rétt í LKL stíl.
Heppnaðist hrikalega vel og hreint ekkert verri en orginallinn....auðvitað miklu betri :)
Hér er "Moldvarpan og músin" en nú er músin búin til úr blómkáli.
 
Innihald:
 
Músin
1 blómkálshöfuð, brotið niður í stóra bita, sett í pott og vatn rétt látið fljóta yfir, látið sjóða í 10-15 mín eða þar til gegnumsoðið.
2 msk smjör
2-3 msk rjómi
salt og pipar
50 gr rifinn ostur, parmesan, cheddar eða annar ostur.
Setjið nýsoðið kálið í skál, bætið rjóma, smjöri og osti út í og mixið með töfrasprota eða kartöflustappara ! Saltið og piprið vel. Geymið til hliðar.
 
Moldvarpan

500 g nautahakk
1 stór laukur fínhakkaður gulur eða rauður
2-3 geirar hvítlaukur
1 -2 góðir þroskaðir tómatar
2 msk tómatpúrra, t.d. Himnesk hollusta (passa sykurinnihald)
1 msk oregano
1 msk basilika
1/2 tsk ca þurrkaðar chilliflögur ( Söstrene gröne t.d.)
salt og pipar
ólífuolía eða smjör til steikinga
3-4 lengjur af beikoni eða nota beikonkurl
Sellerí, vorlaukur, paprika, sveppir valfrjálst og þetta er ekta "taka til í ískápnum" réttur.

 
Steikið hakkið, setjið til hliðar, steikið lauk, beikon og grænmeti á sömu pönnunni (minnka uppvaskið )blandið kryddum út í og blandið svo tómatpúrrunni og tómötum út í, leyfið þessu að malla vel.Setjið að síðustu hakkblönduna í eldfast mót, smyrjið blómkálsmúsinni yfir, setjið 2-3 msk af rifnum osti yfir og bakið í ofni í ca 10 mín þar til osturinn er orðinn fagurgylltur.
Gott að bera fram með fersku blaðsalati eða ruccola.
Dressing: Nokkrir dropar af sítrónusafa, olíu og eplaediksslettu.
 
Verði þér að góðu !
 

7 comments:

 1. þetta er allt svo girnilegt ... verð að fara að prufa eitthvað af þessu .... þú virðist svei mér þá hafa endalausa hæfileika :)

  ReplyDelete
  Replies
  1. hhah knús á þig ;) já endilega rífðu upp sleifina og eldaðu eitthvað gott.

   Delete
 2. Ég elska þetta blogg!

  Endalaust takk fyrir að nenna að deila öllum sniðugu og góðu uppskriftunum með okkur hinum :)

  ReplyDelete
 3. Aldís ArnardóttirMarch 22, 2013 at 2:18 AM

  Moldvarpan og músin voru í matinn í gærkveldi - virkilega góður réttur :)

  ReplyDelete
 4. Prófaði þetta í kvöld. Börnin okkar kroppuðu rétt svo í þetta en okkur hjónum fannst þetta verulega gott:)

  ReplyDelete
  Replies
  1. já mínir krakkar þykjast alltaf finna lykt af blómkálinu, en við elskum þetta , svo létt og gott í magann.

   Delete
 5. Namm þetta var sjúklega gott!!! Takk fyrir að deila :)

  ReplyDelete