Friday, April 19, 2013

Gyðjur í Hafnarfirði

Já, það er víst ekki bara nóg að næra kroppinn, það þarf að næra sálina og andann líka öðru hverju.
Það búa 4 gyðjur í Hafnarfirði sem ákváðu upp á sitt einsdæmi að sinna þeim hluta og slógu upp heljarinnar veislu fyrir okkur konurnar í Firðinum án nokkurra skuldbindinga og eiga þær stórt hrós skilið. Hátíðin"Gyðjugleði" var haldin nú í annað sinn, og að þessu sinni í Haukahúsinu þar sem hátt í 400 konur mættu í sínu fínasta pússi til að hittast og gleðjast saman. Við mæðgurnar kíktum á svæðið ásamt mágkonu og nutum kvöldsins í ystu æsar.


Þær Sigga, kennd við Timo, Linda í Hress, Malla í Caritu og Ása Karin hjá Capacent eiga heiðurinn af þessari kvöldstund og verð ég að taka ofan fyrir eljunni í þeim og krafti. Það var enginn aðgangseyrir inn á þessa gleði, veitingar voru í boði og frábærir landsþekktir skemmtikraftar komu og skemmtu okkur, þ.a.m. Eyþór Ingi og Bjarni Ara sem gerðu allt vitlaust og trylltu skvísurnar. Skemmtilegar ræður voru haldnar og ungir tónlistarmenn fengu að stíga á stokk en hápunkturinn var svo að mínu mati sá að Helgi í Góu var heiðraður fyrir frábær störf í þágu góðgerða í Hafnarfirði og víðar. Þetta var virkilega vel heppnað kvöld og við dömurnar fórum klyfjaðar heim með gjafir og góðgæti. Svona lagað rífur maður ekki upp úr götunni sko !!

Í morgun var mallinn samt farinn að kvarta svo ég prófaði að gera uppskrift eftir hugmynd sem ég fann á veraldarvefnum með pínu aðlögun.

Hér er uppskrift af "Skinkubollaköku" 4 stk

4 sneiðar af gæðaskinku t.d. Kjarnafæði, ekkert "gúmmírusl" þar á ferð
3 egg pískuð saman með dálitlum rjóma
rauðar chilliflögur eða annað gott krydd
pipar
spínatlúka
3 sneiðar beikon í bitum
 
 
Steikið beikonið og spínatið og piprið. Leggið eina skinkusneið ofan í form t.d. siliconform.
Deilið beikoninu og spínatinu í hvert hólf og hellið svo eggjablöndunni yfir.
Bakið í ofni í 15 mín á 200 gráðum sirka eða þar til eggin lyfta sér og brúnast.
 

No comments:

Post a Comment