Saturday, April 13, 2013

Ljúfur laugardagur í lit

Merkilegt hvað sólin kallar fram hressleikann í okkur. Dagurinn byrjaði auðvitað í ræktinni í nýju skræpóttu buxunum sem ég fann í Spútnik, já svei mér þá það er aldeilis hægt að gera kostakaup í nýjustu tískunni, sem virðast vera munstraðar sportbrækur og mín fann einar gamaldags leggings á heilar 3.800 krónur í Spútník, fór ekki fram hjá neinum í morgun held ég og voða sæl með mig, og þá sérstaklega með sparnaðinn ;) Merkilegt hvað tískan snýst í hringi en ég er að fíledda.
 
Næst var skundað í Kópavogslaug þar sem aðalpottaumræðan var LKL og Þríþrautir og mikið sem var skemmtilegt að hlusta útundan sér á vangaveltur fólks og ráðleggingar, tómir snillingar fullir af eldmóð.
Kringluráp tók því næst við, fermingardrengurinn þarf víst að vera í skóm á stóra deginum. Serrano sá um svanga manga, það var vel hægt að útfæra Fresco salat að okkar þörfum svo við vorum vel mett eftir sundsprettinn.
Heim var svo farið í enn eina fermingartiltektina og fyrsta tilraun í sykurlausri makkarónugerð prófuð. Verð nú að segja að hún heppnaðist nokkuð vel þrátt fyrir að fjólublái liturinn á kökugreyjunum endaði fagurgylltur, eða pínu "beige" en það skipti engu, út komu litlar sætar makkarónur með saltkarmellukremi og minntu á hinar frægu Sörur. Mjög góðar með kaffinu og runnu einum of fljótt ofan í liðið.
Endar maður svo ekki svona litríkan dag á steik með Chimichurri sósunni úr bókinni hans Gunnars Más.. jú það held ég nú. Kremað hvítkál, brokkólí og hvítlaukssveppir settu svo punktinn yfir i-ið og nú held ég að ég komi ekki niður kaffibolla eftir allar þessar kræsingar. Læt uppskrift af makkarónum fylgja en frekari rannsóknarvinna mun fara fram á næstu dögum.
Kannski maður nái að troða í sig einni eða tveimur litlum sætum í eftirrétt.. ef það er þá eitthvað eftir í boxinu.... !!

Makkarónur
 
Uppskriftin dugði í 42 kökur, ótrúlegt en satt
 
Hita ofninn í 220 gráður
Áður en kökur eru bakaðar er lækkað niður í 120 gráður og kökurnar bakaðar í ca klst. eða þar til þær mynda stökka húð. Passa að lækka ofninn ef þær dökkna of mikið, þetta er smá kúnst en þegar þær hafa kólnað þá verða þær nokkuð stökkar. Krefst þolinmæði. 
 
70 gr Erythritol eða ca 1 dl
60 gr möndlumjöl
2 eggjahvítur ( 120 g)
1/4 tsk salt
litarefni ( valfrjálst)
 
Hvítur eru stífþeyttar með saltinu og sætunni bætt út í í 2 skömmtum.
Þeytt vel þar til stífir toppar myndast og fallegur gljái er á blöndunni.
Veltið möndlumjölinu saman við með sleif og blandið varlega saman.
Sprautið kökunum í litlum doppum á silikonmottu t.d. þær losna vel frá slíkri mottu.
 
Leyfið að standa í 10 mín áður en settar í ofn.
Krem:
Má vera hvaða smjörkrem sem er en þetta fannst mér svo gott á makkarónunámskeiðinu sem ég fór á  að ég varð að reyna að gera svipaða útgáfu.
 
60 ml rjómi
35 gr Erythritol
1/2 msk gott salt, eins og Fleur de Sel eða annað gott salt
90 gr mjúkt smjör
1 tsk xanthan gum ( valfrjálst en þykknaði fyrr þar sem sykurinn vantar)
"mætti líka bæta við 1 tsk af kaffidufti til að fá mokkabragð "
 
Setjið sætuefni í pott og 1/2 tsk af vatni , hitið saman þar til bráðnar.
Hitið rjóma í öðrum potti að suðu, hellið rjómanum yfir sætuefnið og hrærið vel í.
Blandið svo 45 gr af smjörinu út í blönduna og saltinu.
Xantham gum bætist hér út í líka til að þykkja. Blandið þessu vel saman og látið kólna í ískáp.
Þeytið að lokum hinum 45 gr af smjörinu út í kælt kremið.
Sprautið kreminu á makkarónur og límið saman 2 og 2 helminga, gott að frysta í nokkra tíma því
þá stífna þær enn meira og verða geggjaðar í ískápnum í lokuðu boxi.
 
Prófið ef ykkur líkar við sætuefnin, annars bara skál í osti og chorizo !
 
 
 
 
 
 
 

No comments:

Post a Comment