Thursday, April 4, 2013

Sumarlegur kúrbítur

Kúrbítur er hrikalega fyndið grænmeti og ég hef aldrei alveg fattað það, en mikið verið að elda þennan græna gaur upp á síðkastið enda í "góða grænmetisflokknum" aðeins 7 net carb í þessum stóra kúrbít, 330 gr sem ég eldaði úr í kvöld. Dugði í matinn fyrir 3 - 4. Og útkoman var "Kúrbítsbaka"

"Kúrbítur tilheyrir sömu ætt og gúrka. Hann er orku- og fitulítill eins og flest annað grænmeti en gefur talsvert af vítamínum og steinefnum, mun meira en gúrka. "Helstu vítamínin sem hann veitir eru A-vítamín, ýmis B-vítamín og C-vítamín."  Heimild: Hólmfríður Þorgeirsdóttur hjá Manneldisráði
 Kúrbítsbaka:
1 kúrbítur stór eða 2 minni
3 egg
1/2 tsk salt
3 vorlaukar
1/2 dl af möndlumjöli eða 1/4 kókoshveiti
fersk steinselja 1/2 búnt
1/2 tsk svartur pipar
90 gr fetaostur ( ég veiddi hann upp úr olíunni)
1/3 bolli valhnetur
3 msk olifuolía.
2 rif hvítlaukur
Bacon og rifinn ostur ofan á.
 
Byrjið á að rífa kúrbítsgreyið í ræmur, saltið og látið liggja í skál í 30 mín.
Kreistið vökvann úr eins og hægt er.
Eftir að kúrbíturinn er búinn að svitna eins og lýst er hér að ofan, þá blandið þið saman öllum hráefnum í stóra skál, saxið hneturnar og hvítlaukinn og blandið saman.
Allt sett á bökunarpappír, mótað í hring eða kassa, nánast eins og pizzu, ekkert fuzz.
Mér fannst voða gott að strá smá beikonkurli yfir, og rifnum osti. Bakað í 180 gráðum í 20-30 mín. Má líka steikja klatta úr þessari uppskrift á olíuborinni pönnu. 
Ofsa sumarlegur og léttur réttur með ruccola
(ég veit uppáhalds hjá mér, á líka að vera gott fyrir húðina)
Mætti nota einhverja góða kalda sósu með þessu en bakan er ekki þurr í sér svo það var óþarfi.
Ískalt sódavatn og 1 tsk af eplaediki og við erum að tala saman. Kreppuhvítvínið mitt.
 Svo minni ég á kúrbítspastað sem er hér á síðunni, og eins er hægt að skera kúrbít í örþunnar sneiðar og baka í ofni á bökunarpappír, úða yfir olíu og léttkrydda.
Svo má líka léttsteikja kúrbítsbita í smjöri, kæla og nota í köld salöt, í staðinn fyrir karöflur. Góð uppskrift af slíku salati í bókinni hans Gunnars :)
En eigið gott kvöld, er farin í hjólatúr í þessu yndisveðri.


 

3 comments:

 1. Gaman að skoða síðuna og takk fyrir að deila uppskriftunum :) hvar færðu kókoshveiti?
  Kv. Eygló

  ReplyDelete
 2. Sá kókoshveiti í Lifandi Markaði í Smáranum og eins rakst ég á poka í Hagkaup í Garðabæ, nokkuð hagstætt verð minnir mig :) Dr Georg.

  ReplyDelete
 3. Ég rakst á kókoshveiti í Krónunni upp á Höfða á 1798 kr

  ReplyDelete