Wednesday, May 8, 2013

Klístraðar kjötbollur í BBQ

Ó mæ, eitt af því sem ég pantaði mér iðulega á Hard Rock Café hér í den var þeirra fræga Grísasamloka, rifið svínakjöt í BBQ sósu og hamborgarbrauð með ;) Munið þið ekki eftir þessu, fáninn upp úr og allur pakkinn... geggjað. Jæja ég saknaði þessa eitthvað í kvöld, langur dagur að baki í vinnu og þá þarf maður smá "ást" BBQ sósa yrði mölluð og hana nú. Sullaði saman úr einhverjum uppskriftum sem ég fann og breytti í LKL og var bara nokkuð ánægð með þetta. Kjötbollur og hrásalat með og þetta var bara mega gott og saðsamt. 3 lítil grey urðu afgangs og það kalla ég nokkuð vel af sér vikið fjölskylda. Verði ykkur að góðu.

 
Klístraðar kjötbollur í BBQ sósu
 
1 kg svínahakk
2 tsk erythritol eða xylitol, má sleppa 
2 tsk paprikuduft
1 tsk salt
1/2 tsk svartur pipar
1/2 tsk cayenne pipar
1 tsk cumin
2 egg
1/2 bolli möndlumjöl
2 msk vatn
 
BBQ sósan
 
3 tsk dijon sinnep
2 msk eplaedik
1 lítil dós tómatpúrra 6 oz eða um 180gr
1 heill tómatur eða 4 kokteiltómatar,gefur ferskt bragð
salt og pipar
4 tsk Franks hot buffalo sósa ( fékkst í FK )
4 tsk erythritol eða xylitol
3 msk af beikonkurli
1/2 gulur laukur smátt skorinn
3 msk Worcestershier sósa
1 tsk oregano
dash af negul
 
Steikið beikonið í potti, bætið niðurbrytjuðum lauk út í og leyfið að verða mjúkt.
Bætið restinni við af kryddunum
og leyfið sósunni að malla í sirka 8 mín, þynnið dálítið með vatni ef hún er mjög þykk.
Ágætt að bregði töfrasprota ofan í pottinn ef bitarnir eru stórir í sósunni.
Hitið ofninn í 200 gráður.

Blandið nú saman innihaldinu í kjötbollunum í hrærivél eða skál, búið til um það bil 30 bollur úr þessari uppskrift og steikið á pönnu, má nota olíu eða smjör. Þegar bollurnar eru klárar þá hellið þið af sósunni á pönnuna og veltið bollunum upp úr henni.
Skellið svo bollunum á smjörpappír og í ofn í 5 - 10 mín til að ná fram þessu "klístraða" ;)
Afgangur af sósu getur farið í krukku og notast með matnum,
eða á næsta hamborgara af grillinu í sumar.
 
Æðislegt að bera fram með hrásalati úr hvítkáli, gulrótum,rauðlauk,dijon sinnepi,sýrðum rjóma og mæjó.Góð uppskrift í bókinni hans Gunnars.

 

No comments:

Post a Comment