Thursday, May 9, 2013

Steig snemma upp í dag

Uppstigningardagur, já svo sannarlega. Tókum daginn snemma og hjóluðum um Hafnarfjörð, upp að náttúruperlunni Hvaleyrarvatni, heimsóttum ömmu og afa í kirkjugarðinn, fórum í sund, sólbað og í pikknikk. Þetta kallar nú alveg á góðan mat ekki satt.  Morguninn byrjaði á Frittata eggjaköku eftir magnaðann stöðvaþjálfunartíma Sigþórs Árnasonar, snilldarþjálfara í Hress. Frændi klikkar ekki frekar en fyrri daginn.
 4 egg, þynnt með rjóma, salt, pipar, hitað á pönnu, beikonkurl sett út í , kjúklingaálegg, og rifinn ostur. Pannan sett í ofn(ef hún má fara í ofn, annars bara lok yfir pönnuna) í stutta stund eða þar til ostur bráðnaði. Klettasalat sett yfir, kaldpressuð sítrónuolía frá BORNHOLM, Lehnsgaard, voða góð hellt yfir, og smá parmesan. Ljúffengt og saðsamt.


 Já sko, það eru byrjuð að gæjast upp, Basilikufræin í eggjaskurninni minni, býst við að fara í massa framleiðslu á Pestói ef það rætist úr þessu öllu, en þetta er snilldaraðferð til að koma kryddjurtum og öðrum fræjum til fyrir sumarið. Nóg er nú til af eggjaskurninni... sáði fyrir grænkáli, sellerí og kóríander í leiðinni. Þetta verður eitthvað, svo brýtur maður bara lauslega skurnina og stingur ofan í jörð þegar kemur að því að flytja plönturnar út, næringin úr eggjaskurninni er svo holl og góð.

Möndlusmjörsbrauðið góða var í boði í kaffinu eftir hjólatúrinn góða og að þessu sinni prófuðum við að nota Caribbian cooler bragðið frá Nectar út í uppskriftina, 1/2 tsk af negul, 1/2 tsk engifer 1 tsk kanil og 1/2 tsk matarsóda. Fengum þetta fína "bananabrauð" út úr þessu sem var svoo gott.

Kvöldið var svo toppað með kjúklingauppskrift sem ég fékk frá Söndru vinkonu minni en þessi er vinsæll á hennar heimili.
 
Innihald:
1 kjúklingur heill ( Rose ) lífrænn danskur og best að krydda hann með Best á kjúklinginn og steikja hann í steikarpoka sem fást í flestum búðum, fékk mína í Bónus.
Grænmetið:
Sveppir hálf askja, paprika 1 heil, 1/2 haus brokkolí, 1 rauðlaukur og hvítlauksmauk 1 tsk.
1-2 tsk kókosolía og dash af ólífuolíu hellt yfir í eldfast fat og grænmetinu velt upp úr. Kryddað með salt og pipar og bakað í ofni.
 
Sósan var mjög sniðug:
1 piparostur skorinn í bita og bræddur í potti með smá vatni
1 kjúklingateningur, lífrænn er betra
slurkur af rjóma þegar osturinn er bráðinn.
2-3 tsk gott karrý, gerði heilmikið.
   

No comments:

Post a Comment