Thursday, August 15, 2013

Súpudagar

Í ferð minni um Vestfirðina í sumar kom ég við á Þingeyri , nánar tiltekið í Simbahöllinni sem er yndislegt kaffihús þar í bæ. Ég pantaði mér kjötsúpu/ministrone því það var næst því sem komst að vera LKL vænt á matseðlinum og leit líka bara svo ansi girnilega út. Þessi súpa var æðisleg og bragðlaukar mínir náðu nokkurn veginn að greina hana í öreindir svo ég gæti endurtekið leikinn þegar heim væri komið og alveg tekið hana í LKL stíl. Hér er niðurstaðan og hún er mjög góð með kúrbítsbollunum góðu :) Ath að það má líka breyta kúrbítsbolluuppskriftinni í Foccacia brauð og jafnvel bæta við nokkrum niðurbrytjuðum svörtum ólífum í það til að fá enn suðrænna yfirbragð á máltíðina.
Ítölsk gúllash súpa/ministrone fínt fyrir 4-5 manns
 
4 lengjur beikon, klippt niður í bita
1 sellerístöngull
1/2 rauð paprika
1/2 rauðlaukur
1 heill hvítlaukur ( fæst í körfum, mildur og góður, ekki í geirum ) eða nota 2-3 geira venjulega
smjör til að steikja upp úr
1/ 2 rifinn kúrbítur
750 ml vatn
1 lífrænn kjúklingateningur
1 medium brokkolíhaus
200 ml rjómi
2 mínútusteikur( Kjarnafæði t.d. fæst í Bónus frosin) eða nautagúllash
salt og pipar
 
Steikið beikon, lauk og grænmeti upp úr smjörinu, ágætt að nota svona þykkbotna pott í þetta,
spara þar af leiðandi uppvaskið.
Bætið svo út í vatninu og tening, kryddið með salt og pipar.
Leyfið súpunni að malla í 20 mín sirka og bætið svo út í niðurbrytjaðri mínútusteik
(eða notið gúllash) ath "óeldað kjöt"
Leyfið kjötinu að  malla í súpunni í 20-40 mín því lengur enn betra.
Að lokum er rjómanum bætt út í til að gera þetta LKL vænt.
Súpan er líka góð án hans en þetta er smekksatriði.
 
Kjúklingasúpa Kristu
 
 
4 bringur niðurskornar í bita,sett til hliðar, ekki steikja
1 blaðlaukur niðurskorinn
2-3 hvítlauksgeirar
1 rauð paprika(ég nota stundum löngu paprikurnar ef þær eru til)
1 rautt chilli
2 msk karrý
1 msk paprikuduft
1 kjúklingakraftsteningur lífrænn
1 dós Hunts tómatar
1 bolli rifinn kúrbítur ( td. afgangurinn af Kúrbítnum sem fer í brauðið)
1 peli rjómi
150 gr rjómaostur
smjör
salt og pipar
1 líter vatn
Má sæta aðeins með nokkrum dropum af Stevíu Orginal bragði

Steikið aðeins lauk, hvítlauk og krydd í smjöri. Setjið svo grænmetið allt út í og steikið ögn lengur.
Því næst fer vatnið út í pottinn og látið allt malla saman í nokkrar mínútur.
Hér setti ég töfrasprotann aðeins í súpuna.
Finnst auðveldara að koma henni ofan í börnin ef þau finna ekki fyrir grænmetinu. Þar næst fara kjúklingabitarnir út í (óeldaðir) og allt látið malla þar til kjúllinn er eldaður í gegn.
Rjóma og rjómaosti bætt út í lokin og hrært.
Rifinn ostur í hverja skál er mjög gott og mæli eindregið með að baka
Kúrbítsbollur/Foccacia brauð með þessu.
Borið fram með Foccacia/kúrbíts brauði
 
160 gr rifinn kúrbítur, þarf ekki að útvatna
80 gr möndlumjöl
80 gr kókoshveiti
60 gr HUSK
2 msk ítalskt krydd t.d. Pottagaldur
4 egg
4 msk olífuolía
1 msk svartur pipar
1 msk gróft sjávarsalt
200 ml vatn, sniðugt að nota sódavatn
1 msk lyftiduft
1/2 - 1 dl svartar niðurbrytjaðar ólífur
 
Blanda öllu saman í hrærivél, þjappið deiginu í grunnt bökunarform( skúffukökuform t.d.)
 sem hefur verið smurt að innan með smjöri eða spreyjað með dálitlu Pam.
 Baka í 45-50 mín á 170 gráðum.

No comments:

Post a Comment