Tuesday, September 17, 2013

Makkarónu-Sörur

Nú eru margir farnir að hugsa til jólabakstursins, ótrúlegt en satt en það er ekkert skrítið í þessum fimbulkulda undanfarið. Það eru farnar að birtast söruuppskriftir á bloggsíðum og allt að gerast í konfektmálum hjá undirritaðri. Eftir heimsóknina í Salt eldhús síðustu helgi þá rifjaðist upp fyrir mér makkarónuuppskrift sem ég aðlagaði að LKL eftir að ég tók þátt í makkarónunámskeiði þeirra á sínum tíma, enda er ég frekar þrjósk týpa og einsetti mér að útbúa gómsætar makkarónur þrátt fyrir að þær væru sykur og hveitilausar. Nú eru komin fleiri sætuefni á markaðinn og því var ákveðið að skella í eina uppskrift. Þetta voru fínustu makkarónur, minna óneitanlega á Sörur, enda botninn með mjög svipuðum hlutföllum og með kaffikremi eða saltkarmellukremi þá má alveg gæða sér á þessum um jólin, eða bara núna :)
Makkarónur með kaffikremi
u.þ.b. 60 kökuhelmingar


120 gr möndlumjöl
120 gr Sukrin Melis Funksjonell
120 gr eggjahvítur eða um 4 stk
1/4 tsk salt
1/2 tsk edik
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
8 dropar Via Health stevía bragðlaus eða vanillu
 
Aðferð:
Stífþeytið hvíturnar í glerskál. Bætið sukrin út í , edik, salti og stevíu og þeytið áfram þar til stífir toppar myndast.Bætið möndlumjölinu varlega út í, hrærið með sleikju þar til allt er blandað saman og setjið deigið í sprautupoka. Klippið af pokanum og sprautið á makkarónumottu eða smjörpappír litlum doppum með jöfnu millibili. Bakið í 25 mín á 130 gráðum á blæstri.
Takið kökurnar út og ef þær eru örlítið mjúkar ennþá, þá leyfið þeim að standa á plötunni og kólna áður en þær eru teknar af pappír/ mottu.Þær harðna á nokkrum mínútum.
Kaffikrem:
120 gr smjör
12 msk rjómi
1 msk instant kaffi
1 tsk kakó
2 egg
3 msk Sukrin Melis
10 dropar vanillustevía Via Health
1/2 tsk Xanthan Gum
Aðferð:
Hitið rjóma og kaffi að suðu. Þeytið saman egg, melis og xanthan gum þar til létt og
kekkjalaust, gott að gera þetta í litlum mixer.
Hellið eggjahrærunni út í kaffirjómann og hrærið þar til kremið þykknar.
Takið af hellunni og hellið yfir í skál sem fer í kæli í 30 mín. Þegar kremblandan er kæld
þá er mjúku smjörinu bætt út í og þeytt vel saman þar til létt og ljóst.Sprautið kremi á makkarónurnar setjið annan helming á og kælið.
Nú má bræða 70-85% súkkulaði og dreifa yfir í mjórri bunu eða húða alveg efri partinn.
Saltkarmellukrem:
120 ml rjómi
70 gr Sukrin Melis
1 msk gott gróft sjávarsalt
180 gr mjúkt smjör
1/2 tsk xanthan gum
6 dropar English Toffee stevía NOW eða 1 msk karmellusýróp TORANI
 
Aðferð:Hitið Melis sykurinn í potti í einni tsk af vatni, látið sjóða upp og bubbla í nokkrar mínútur og
hrærið vel á milli, má alveg dökkna aðeins. Hellið rjómanum út í og hrærið áfram.
Rjóminn freyðir dálítið og þá passar að taka af hellunni og kæla. Geymið blönduna í ísskáp þar til hún er orðin vel köld. Smjörinu er því næst þeytt saman við sykurblönduna og þeytt þar til ljóst og létt. Sprautið kremi á botnana og leggið annan botn yfir.
 
 

No comments:

Post a Comment