Tuesday, October 15, 2013

Afmæli framundan ?

Hugsa sér ef barnaafmæli væru algjörlega sykurlaus ! Hversu ljúf og notaleg væri slík veisla.
Blóðsykurinn héldist jafn, næringarríkar og bragðgóðar veitingar væru í boði og foreldrar myndu taka við afslöppuðum og söddum börnum að afmæli loknu. Ég hef persónulega séð dönnuðustu prinsessur klífa veggi eftir eina sneið af súkkulaðiköku og efast um að niðursveiflan sé góð fyrir svona litla kroppa. Hér er uppskrift af kleinuhringjum sem eru fullir af næringarríku grænmeti og chia fræjum en það er óþarfi að nefna það fyrr en eftir á :) Svo er hér uppskrift af kókostertu sem enginn fattar að er sykurlaus. Hún hentar kannski betur fullorðna fólkinu en það er nú ágætt að þau haldi sínum blóðsykri niðri líka ;) sérstaklega yfir fótboltaleikjum !!!

Ég mæli með því að þið kíkið á þennan þátt en hann fjallar um sykur og áhrif sykurs á mannslíkamann. Mjög fróðlegt.
Kúrbíts og chia kleinuhringir
120 g möndlumjöl
30 g kakó
65 g sukrin Gold
1 msk smjör
1/2 tsk kanill
1/4 tsk gróft salt
2 egg
1 msk möndlumjólk
150 g rifinn kúrbítur
2 msk chia mjöl
 
Aðferð:
Blandið þurrefnin saman í skál. Þeytið egg og sætuefni í 2-3 mín.
Bætið smjörinu og möndlumjólkinni saman við og þeytið áfram. Rífið kúrbítinn niður,
kreistið úr honum mesta vökvann og
vigtið svo 150 g. Blandið öllu vel saman. Spreyið kleinuhringjaform (Allt í köku) eða notið muffinsform. Bakið kleinuhringina í 20 mín á 180°C

Hnetusmjörsglassúr:
120 g rjómaostur
30 g smjör mjúkt
50 g Sukrin Melis
1 msk hnetusmör
1 msk kakó
4-6 dropar stevía, vanillu
 
Aðferð:
Þeytið saman með töfrasprota, smjöri og rjómaosti.
Því næst Sukrin Melis, kakói, stevíu og hnetusmjöri.
Smyrjið eða sprautið á kleinuhringina.
 
 Hefðbundinn súkkulaðiglassúr:

100 gr dökkt súkkulaði 85%
1 msk kókosolía
2 msk Sukrin Melis
1/2 tsk vanilludropar
 
Hitið allt í örbylgjuofni, 30 sek í einu, hrærið þar til allt er uppleyst og hellið svo yfir kleinuhringina.
 
 
Kókosterta:
60 g Sukrin Melis
4 eggjahvítur
150 g kókosmjöl gróft
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
10 dropar stevía
 
Rjómabotn:
400 ml rjómi , þeyttur og frystur í hringlaga formi
 
Krem:
40 g 85% súkkulaði
eða dökkt stevíusúkkulaði
1 msk kókosolía
1 msk Sukrin Melis
1/2 tsk vanilludropar
 
Aðferð: 
Þeytið eggjahvíturnar vel í glerskál, bætið út í Sukrin Melis, vínsteinslyftidufti og stevíudropum.
Þeytið áfram þar til toppar myndast í hvítunni. Blandið kókosmjölinu varlega út í með sleikju.
Setjið deigið í hringlaga silikonform eða tertuform, gott að setja smjörpappír í botninn.
Bakast í 100°C í 40 mín, neðarlega í ofni. Kælið
.
Krem:
Bræðið 40 g af 85% súkkulaði yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni, bætið út í það 1 msk af kókosolíu,
 1 msk Sukrin Melis og 1/2 tsk vanilludropum. Hellið kreminu yfir botninn og kælið.
Þeytið því næst 400 ml af rjóma og frystið í öðru hringlaga formi.
Þegar bera á kökuna fram þá takið þið rjómann úr frysti og leggið hann ofan á kókosbotninn, rífið smá súkkulaði yfir. Þessi er æðislega góð.
 
 
 

2 comments: