Friday, October 4, 2013

Bleikur október


Nú stendur yfir "Bleikur október" sem er tileinkaður baráttunni við krabbamein en allt of margir í kringum mig hafa á einhver hátt kynnst þeim leiða fjanda. Ég kvaddi sjálf ömmu mína fyrir tæpu ári síðan í faðm sjúkdómsins og náinn aðstandandi hefur þurft og glímir enn við brjóstakrabba. Í tilefni átaksins "Bleika slaufan" langaði mig að baka bleikar kökur án sykurs og sterkju og ótrúlegt en satt fullar af hollustu, því þær innihalda hvítar baunir sem eru trefja- og próteinríkar og einnig af fólinsýru, A, C og K vítmínum, járni, magnesíumi, kalíumi og andoxunarefnum. Kólestról- og fitulausar. Það er nú ekki amalegt. Þessar gætu vel hentað í prinsessuafmælið og ég lofa því að baunabragðið finnst ekki af þessum elskum. Erum við ekki alltaf að reyna að koma grænmeti og hollustu ofan í börnin ;)
 
Prinsessukökur með bleiku rjómaostakremi:
 
200 gr hvítar baunir í krukku
Himnesk hollusta (krukkan er 300 gr með vökva)
3 egg
3 msk ósaltað smjör
10 dropar stevía
70 gr sukrin
1 tsk vanilludropar
30 gr kókoshveiti
1/4 tsk matarsódi
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/4 tsk sjávarsalt
 
ATH: Ágætt að byrja á að gera kremið hér að neðan.
Hitið ofn í 180 gráður og blástur
Hellið vökva af baununum og setjið í blender ásamt eggjum, vanillu og salti. Hrærið í hrærivél smjörið og sætuefnin þar til það er létt og ljóst.
Blandið baunamaukinu saman við og hrærið áfram. Setjið því næst sléttfullar msk af kókoshveiti út í deigið ásamt öðrum þurrefnum,hrærið aðeins áfram.
Gott er að setja deig í sprautupoka og sprauta því í muffinsform um það bil 3/4 af forminu.
Bakið því næst kökurnar í 25 mín eða þar til hægt er að þrýsta létt á þær.
Gott að leyfa kökunum að standa í 2-4 tíma og jafnvel yfir nótt til að baunabragðið hverfi og það
mun hverfa trúið mér.

Bleikt prinsessukrem:
125 ml  rjómi
115 gr smjör ósaltað
1 tsk vanilla
10 dropar Stevia vanilla
1/2 tsk Xanthan gum
40 gr rjómaostur
100 gr Sukrin Melis
1/3 tsk rauður eða bleikur matarlitur

Aðferð:
Hita rjómann og smjörið saman í potti, bætið út í í stevíu, vanilludropum og  Xanthan gum.
Hellið blöndunni í skál og kælið í 30-60 mín.
Takið úr kæli og þeytið vel. Sigtið Sukrin Melis saman við smjörið, þeytið aftur og að lokum fer rjómaosturinn út í. Þeytið aftur  á fullum krafti þar til þið eruð ánægð með áferðina á kreminu.
Sprautið kreminu á bollakökurnar með Wilton 1M t.d. til að gera fallegar rósir og kælið svo kökurnar í u.þ.b. 10 mín.
 Svona líta baunirnar góðu út og fást t.d. í Fjarðarkaup hvar annars staðar :) Snillingarnir þar fagna núna 40 ára afmæli verslunarinnar, sem er s.s jafngömul mér og því finnst mér nú alveg við hæfi að taka það fram, fyrir utan hvað er bara yndislegt að fara í þessa búð og dúllast eitthvað.
 


No comments:

Post a Comment