Sunday, October 6, 2013

Brunch meistaranna


Sunnudagur, bjartur og fagur og eftir frábæran Tabata tíma hjá Siggu "Hressu" þá var ekkert annað í stöðunni en að fara í "Brunch", sem verður sífellt vinsælli siður hjá landanum. Fyrir valinu var nýr staður niðri við Grandagarða, Coocoo´s Nest. Spennandi húsnæði sem og matseðill og hafði ég heyrt vel af honum látið. Gikkirnir synir mínir komu með og annar með nesti sem er vaninn en erfitt er að komast í glúteinfrí brauð á veitingastöðum hér á landi, enn sem komið er allavega. Fengum þó smjör og ost handa honum svo hann gat borðað með okkur og kakóbollinn var góður að hans mati en hann er harður kakógagnrýnandi. Mæli með að kaffihús og veitingastaðir taki sig nú á varðandi þetta vandamál sem er að verða algengara og algengara og bæti við glúteinlausu já eða lágkolvetna brauðmeti á matseðilinn. Þetta var hinn fínasti morgunmatur, gott beikon og egg á 3 mismunandi vegu í boði með basilpestó og fersku grænmeti og salsa. Skemmtileg tilbreyting og andinn mjög góður. Takk fyrir okkur.

Ég ætla að enda þessa færslu í dag á að setja hér inn uppskrift sem ég póstaði á Facebook í gærkveldi og vakti töluverða eftirtekt en það er af Kúrbítskryddköku sem er alveg syndsamlega góð og minnir mjög á gulrótaköku, bæði í útliti og bragði. Jömmmý.
 
 
Ljúffeng kúrbítskaka
180 gr möndlumjöl
100 gr Sukrin Gold
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk gróft salt
2 tsk kanill
1/2 tsk engifer
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk negull
1 tsk kardimommudropar
2 msk kókosolía
10 dropar stevía
2 egg
100 ml kókosmjólk
60 gr pecanhnetur
100 gr rifinn kúrbítur,
(gott að kreista úr honum mesta vökvann)
 
Blandið öllum þurrefnum saman í skál. Þeytið eggin og kardimommudropana saman ásamt kókosmjólkinni í nokkrar mín. Blandið varlega þurrefnum út og hrærið vel saman. Þá bætast hneturnar út í ásamt niðurrifnum kúrbít, muna að kreista vökvann frá. Kókosolían fer út í síðast.Setjið deigið í hringlaga form eða notið ferhyrnt álmót. Bakið í 25 mín á 170 gráðu hita með blæstri.

Krem:
200 gr rjómaostur
60 gr Sukrin Melis
15 dropar stevía
1 tsk sítrónusafi
1 1/2 tsk vanilludropar
 
Setjið allt í lítinn mixer og blandið saman, eða notið handþeytara, gott að þeyta þetta mjög vel.
Sprautið kreminu í litla toppa, eða smyrjið því á kökuna.
 Valmöguleiki,Stráið muldum möndlu eða heslihnetuflögum yfir kremið.No comments:

Post a Comment