Sunday, October 13, 2013

Súkkulaðibitakökur

Ég er svo hrærð yfir þátttökunni á námskeiðunum okkar hjá Salt eldhúsi. Við héldum fjórða námskeiðið sl. laugardag og það gekk alveg einstaklega vel. Öll svo dugleg, hress og ánægð með afraksturinn, já ÖLL, fyrsti herramaðurinn mætti á svæðið og rúllaði þessu auðvitað upp. Frábært að hafa hópinn dálítið blandaðan. Vegna þessa óvæntu vinsælda er búið að bæta við einu námskeiði í viðbót þann 9.nóv nk. svo endilega kíkið á www.salteldhus.is og skráið ykkur ef þið viljið fræðast aðeins um bakstur og fleira skemmtilegt LKL kruðerí.
 
Í dag fékk ég fyrirspurn frá vinkonu sem var farin að hugsa til jólanna og langaði í súkkulaðibitakökur, STRAX, ég mundi eftir uppskrift sem ég setti á áhugasíðuna okkar á fésbókinni og var aldrei búin að koma með hingað á bloggið, hér er hún því komin á sinn stað.
 
Súkkulaðibitakökur með sólblómafræjum:
(gerir um 50 kökur u.þ.b.)

160 g sólblómafræ
80 g Sukrin
2 msk kókoshveiti
1/2 tsk lyftiduft
75 g kókosolía
1 tsk gróft salt
3 eggjarauður
3 msk möndlumjólk, eða kókosmjólk
1/2 tsk vanilludropar
10 dropar vanillustevía
30 g gróft kókosmjöl
3 msk kakóbitar,
eða “coconibs”
(má líka nota 85% súkkulaði, en ekki missa sig í magninu takk)
20 g macadamiuhnetur
 
Aðferð:
Malið sólblómafræin niður í mjöl í matvinnsluvél.
Blandið öllum þurrefnum saman við og blandið áfram. Þeytið egg og kókosmjólk, olíu, blandið saman við þurrefnablönduna með sleikju eða notið matvinnsluvélina allan tímann sem sparar mesta uppvaskið og er fljótlegast.
Bætið macadamiuhnetum saman við deigið og maukið áfram í stutta stund.
Blandið kakóbitunum eða súkkulaðinu síðast út í deigið.
Setjið litlar doppur á bökunarpappír með 2 skeiðum, og bakið  í 10 mín á 180°C.
Kökurnar verða stökkar og góðar þegar þær hafa náð að kólna, ekki freistast til að baka of lengi.
 
 

No comments:

Post a Comment