Thursday, October 31, 2013

Nammigjafir

Það er svo sniðugt að gefa vinum og ættingjum sælgæti í poka eða krukku. Þá fer lítið fyrir því eftir jólin, og viðkomandi sleppur við að kaupa sér dísætt og sykrað konfekt ;) þ.e.a.s. ef þið búið til svona sykurlaust góðgæti úr kakói og olíu :) Einnig er hægt að gera marsipankonfekt og litlar makkarónur og svo mætti lengi telja.  Upplagt er svo að skreyta svo krukkuna eða gjafapakkninguna með fallegu saltleirsskrauti og þá er alveg víst að þið fáið fullt hús stiga fyrir frumlegheitin og dugnað.
 Konfektmót fást víða t.d. Líf og list í Smáralind, Tiger, Söstrene Gröne, DUKA og fleiri búsáhaldabúðum, ég fann nokkur á leið minni um Kaupmannahöfn, s.s. keypti ekki eitt par af skóm en líklega um 5 konfektmót og geri aðrir betur. Sérstök þessi nýja ástríða.
 Konfekt með rjómakeim, og karamellubragði.
70 g kakósmjör
60 g kókosolía
40 g Sukrin Melis
30 g kakó
1/4 tsk gróft salt
2 msk rjómi
16 dropar karamellustevía eða 1-2 msk Torani karamellusíróp
 
Bræðið kakósmjörið í örbylgju eða yfir vatnsbaði, látið kókosolíukrukkuna í heitt vatn þar til hún bráðnar. Sigtið Sukrin Melis og kakó saman, blandið svo öllu saman í könnu með stút, bragðbætið og hellið í falleg form. Frystið í 30 mín sirka.
 
 Fallegt er að setja konfektið í bollakökuform þessi hörðu úr pappanum sem fást orðið víða. Sellófan og borði og allt klárt. Eins er hægt að setja konfekt í notaðar sultukrukkur, þessi er frá Kjötgallerí en rauðlaukssultan kemur alltaf í svo fallegum krukkum frá þeim.
 Svo er hægt að nota gamla hveitipokann sem ekki er notaður lengur og búa til skraut á pakkana, hita eða láta deigið þorna í nokkra daga og eiga til góða þegar á að punta pakkana, eða konfektglösin.

Eins er sniðugt að fara á heimasíður sem bjóða upp á fría "miða til prentunar" spara þannig og klippa út fallega merkimiða fyrir lítinn aur.
 http://indulgy.com/post/IfgKC5u4O1/antique-christmas-gift-tags
Það þarf allavega ekki að örvænta um jólin þótt sykurpúkinn verði lokaður úti í frostinu. Nóg af góðgæti í boði sem hægt er að eiga í frystinum og grípa í þegar neyðin kallar eða gesti ber að garði.
 

1 comment: