Wednesday, October 9, 2013

Nóa kakó

Sonur minn yngsti er mikill kakókarl og lætur sko ekki hvaða kakó sem er ofan í sig. Hann er alltaf opinn fyrir heitum kakóbolla og meira að segja í sumarfríi á Almeríu í 30 stiga hita sl sumar veigraði hann sér ekki við að panta einn sjóðheitan með rjóma. Best finnst honum að bræða suðusúkkulaði í mjólk bara svona eins flestir leyfa sér á jólunum en ég ákvað að gera á honum tilraun svona í framhaldi af kakóuppskriftapóstinum hér á undan. Þessi drykkur féll algjörlega í kramið og hann hafði á orði að þetta væri besta kakó sem hann hefði smakkað. Veit ekki alveg hversu stór hluti af þeirri fullyrðingu var sannur eða hvort hann vildi ekki særa mömmuna sem stóð sveitt yfir pottinum með stevíudropa í annarri hendi og lífrænt kakóið í hinni, en ég vona að ykkur líki vel.
Kakódrykkur Nóa:
 
125 ml rjómi
125 ml vatn
2 msk kakó
2 msk Sukrin Gold
6 dropar Stevía vanillu, Via health
(einnig hægt að nota bragðlausa stevíu og bæta þá við 1/2
tsk af vanilludropum í kakóið)
 
Blandið öllu vel saman í pott og hitið að suðu, einnig hægt að hita í örbylgjuofni.
Hellið í 2 bolla, best er að bera þetta kakó fram með þeyttum rjóma.
Val: Bætið kaffiskoti í drykkinn fyrir okkur fullorðnu eða setjið 1/4 tsk af chili dufti fyrir þá sem vilja extra krydd í tilveruna.
 
 
 
 

No comments:

Post a Comment