Sunday, November 24, 2013

Hnetuflex- toppar

Munið þið ekki eftir kornflextoppunum sem voru búnir til með flórsykri, kakói og palmínfeiti ? Þetta nammi var ótrúlega vinsælt á mínum uppvaxtarárum og það var góð kona á bókamessunni sem minnti mig einmitt á þetta einfalda góðgæti nú um helgina. Hún var vön þessu úr æsku og var þetta nánast eina konfektið sem hún komst í fyrir utan jólaeplin og appelsínurnar. Nú er tímarnir aðrir og úrvalið gígantískt en afhverju ekki að staldra aðeins við og nýta okkur þessar gömlu góðu aðferðir. Hér er útfærslan gerð sykurlaus og í stað kornflex nota ég hollar og góðar hnetur og fræ. Ég er mjög hrifin af dökku súkkulaði og þetta er bara eins og draumur í dós fyrir mig. Stökkar og góðar með passlega sætu súkkulaðibragði.Hnetuflex-toppar
 
70 g kókosflögur, Himnesk hollusta
70 g heslihnetuflögur
70 g möndluflögur
70 g graskersfræ eða sólblómafræ
100 g kakósmjör
50 g kókosolía, Himnesk hollusta bragð og lyktarlaus
50 g Sukrin Melis
40 g kakó
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk gróft sjávarsalt
20 dropar stevía, Via Health, vanillubragð
 
Aðferð:
Rífið  kakósmjörið niður með rifjárni ofan í skál, bætið kókosolíunni út í og bræðið þetta í örbylgjuofni 1-3 mín eða þar til allt er bráðnað saman. Sigtið Sukrin Melis og kakó út í kókossmjörblönduna, bætið stevíu út í og bragðefnum( vanilludropum og salti )
Blandið næst fræjum og hnetuflögum saman í skál, merjið svona grófustu kókosflögurnar niður og hellið svo öllu saman við súkkulaðið. Dreifið svo blöndunni í lítil múffuform og frystið í 15 mín ca. Best að geyma þessar í kæli.
Þetta eru alveg um 40-50 miniform ef þið setjið bara í hálft formið enda mjög fyllandi og saðsamar þessar.3 comments:

 1. Takk fyrir uppskriftina, þetta er mjög gott :)

  ReplyDelete
 2. Takk Birna mín :) mér finnst þetta hættulega gott :/ haha

  ReplyDelete
  Replies
  1. Verð að vera sammála þér, fuku aðeins of margir í mallakútinn í gærkveldi :)

   Delete