Tuesday, November 26, 2013

Lakkrístoppar !

Það er eitthvað við lakkrís sem heillar marga, ég er reyndar ekki mjög hrifin af lakkrís í öðru formi en bara beint upp úr Appollolakkríspokanum og bestir eru molarnir með marsipaninu. Aðrir vilja setja lakkrísduft á ísinn sinn, í súkkulaðið og jafnvel út í matinn sinn og er það bara gott mál þótt ég sé ekki eins hrifin. Ég sá að ein góð kona skoraði á okkur í bakstursgenginu á fésbókinni að gera lakkrístoppa og þrátt fyrir að hafa aldrei verið fyrir þessa hefðbundnu lakkrístoppa í gegnum tíðina þá tók ég áskoruninni bara svona upp á grínið. Þeir komu glettilega vel út og lakkrískonfektið eitt og sér er lúmskt gott. Það mætti líka bara nota lakkrísduft beint út í marengsinn en sumir vilja finna svona lakkrísbita í kökunum svo þá er bara að fara í smá lakkrísgerð :)Lakkrísnammi
 
5 matarlímsblöð lögð í kalt vatn í skál í 10  mín
2 msk vatn
1 tsk kókosolía Himnesk hollusta, (bragðlaus og lyktarlaus)
1 msk lakkrísduft
10 g Sukrin Melis
10 dropar Via Health stevía
 
Kreistið vatnið úr matarlíminu og setjið þau í pott ásamt vatni, Melis,stevíudropum,
lakkrísdufti og olíu. Hitið á vægum hita þar til limið bráðnar og hrærið vel.
Hellið blöndunni í könnu og þaðan yfir í konfektform sem er búið að pensla dálítið með kókosolíu.
Setjið í kæli og látið bíða í um klst
.
 
Lakkrístoppar ATH BREYTT ÚTGÁFA eftir misreikning bakarans á heimilinu ;/
140 g eggjahvítur ( 2 dl ) við stofuhita
80 g Sukrin Gold
nokkur saltkorn
1/2 tsk Xanthan Gum
 
50 g dökkt sykurlaust súkkulaði, smátt skorið
1/2 - 1 uppskrift Lakkrís, skorinn í bita, magnið fer eftir smekk hvers og eins
eða 1 tsk lakkrísduft
 
Þeytið sukrin gold og eggjahvítur saman þar til létt og ljóst, ég þeytti með handþeytara í glerskál en líka hægt að nota stálhrærivél, bætið smá salti út í og þeytið þar til þetta er vel stíft.
Bætið súkkulaðibitum varlega út í og lakkrísbitunum eða 1 tsk af lakkrísdufti bakið í 130°C í ca.5 mín, lækkið þá hitann í 100°C og bakið áfram í 20 mín , jafnvel lengur.
Takið toppana út úr ofninum og leyfið þeim að kólna vel. Gæti þurft að bregða spaða eða ostaskera undir kökurnar til að ná þeim af pappírnum ef lakkrísinn hefur eitthvað lekið út. 

2 comments:

  1. Hvar færðu lakkrísduft?

    ReplyDelete
  2. Ég fékk mitt úti í danmörku en það fæst í EPAL veit ég

    ReplyDelete