Sunday, November 10, 2013

Ömmusprengja

Jæja ekki verið mikið um blogg síðustu daga þar sem allur frítími hefur farið í undirbúning stórafmælis hennar ömmu minnar yndislegu. Óvænt partý haldið henni til heiðurs í dag í tilefni 80 ára afmælisdagsins. Það var öllu tjaldað til, börn, barnabörn og tengdafólk mætti með bakkelsi á hlaðborðið. Tvær myndabækur voru útbúnar handa afmælisbarninu, ein með myndum frá Barcelonaferð okkar sem komumst í þá ferð henni til heiðurs og önnur bók tileinkuð handavinnu afmælisbarnsins í gegnum árin. Sú bók endaði í 55 bls og þá var ekki allt tekið með, án gríns, en snilldargjöf og góð hugmynd fyrir þá sem eiga allt. Peysur, dúkar, búningar, bútasaumur og endalaus teppi og dúllerí fylltu þessa bók sem verður gaman að eiga í framtíðinni.

Ég ákvað í tilefni dagsins að reyna að endurgera tertu sem við fengum að smakka á í Danmörku í La Glace konditoríunu fræga á Strikinu og heppnaðist bara nokkuð vel. Tók reyndar dágóðan tíma en vel þess virði. Það er slatti af súkkulaði í þessari en 80 ára afmælisbarnið átti það skilið. Myndirnar eru ekki með þeim betri en ég skrifa það á pínu stress við undirbúning.
Ömmusprengja
 
Karamelluð graskersfræ:
100 g graskersfræ
2 tsk Sukrin Gold
nokkur saltkorn
Hitið pönnu með 2 tsk af Sukrin, ristið graskersfræin og stráið pínu salti út í. Leyfið fræjunum að
hitna vel og takið svo af hellunni.
 
Graskersfræmarengs:
40 graskersfræ
2 eggjahvítur
20 g Sukrin
20 g möndlumjöl
20 g Sukrin Melis
 
Stífþeytið eggjahvítur og Sukrin, bætið út í Sukrin Melis og þeytið áfram. Blandið varlega út í möndlumjöli og graskersfræjum og bakið 2 botna um 20 cm í þvermál í 170°C heitum ofni í 10-15 mín. Takið botna út og kælið.

Mascarponebotnar:
125 g Mascarponeostur
1/2 tsk vanilluduft
35 Sukrin Melis
25 g vatn
2 matarlímsblöð
70 g þeyttur rjómi
15 g Sukrin
2 eggjarauður
 
Pískið eggjarauður, mascarponeost og Sukrin Melis saman. Sukrin, vatn og vanilluduft er hitað í potti með matarlímsblöðum. Látið kólna örlítið og blandið svo út í mascarponeblönduna hrærið létt, bætið svo þeyttum rjóma út í varlega með sleikju. Hellið í 2 20 cm form og frystið.
 
Súkkulaðimús:
100 g rjómi
150 g 85% dökkt súkkulaði eða stevíusukkulaði
4 eggjarauður
250 g þeyttur rjómi
40 g Sukrin Melis
35 g vatn
Hitið rjóma í potti ásamt vatni og Sukrin Melis, hellið honum svo yfir niðurbrytjað súkkulaðið. Þeytið eggjarauður í skál þar til þær verða léttar og ljósar.
Hellið þeim út í súkkulaðiblönduna. Blandið svo þeyttum rjóma varlega saman við.
 
Kakan sett saman:
Setjið 1 marengsbotn á kökufat, gott að nota stálhring eða smelluform sem hægt er að losa frá kökunni sem er ca 25-30 cm í þvermál.
Næst fer einn frosinn mascarponebotn ofan á kökuna, stráið ca 40 g af graskersfræjum yfir botninn en skiljið eftir nokkur til að skreyta með.
Því næst má setja heimagerða hindberjasultu yfir en ég sleppti því í þetta sinn. Næst fer seinni marengsbotninn ofan á og þar á eftir seinni mascarponebotninn.
Hellið því næst súkkulaðimúsinni yfir kökuna og fyllið upp í kökuformið ( músin fer út fyrir marengsbotninn ) Látið þetta svo stífna í kæli.
 
Súkkulaðibráð:
150 g 85% dökkt súkkulaði eða stevíusúkkulaði
5 dropar karamellustevíudropar
2 dl rjómi
Hitið rjóma, bætið stevíu út í og hellið honum svo yfir niðurbrytjað súkkulaði. Hrærið vel í og hellið svo bráðinni yfir kökuna svo hún fyllið vel út í hringformið sem á enn að vera utan um tertuna.
Það má líka losa hringinn og láta bráðina leka niður hliðarnar, allt eftir smekk :)
Kælið vel. Skreytið með afgangnum af graskersfræjunum og rétt áður en hún er sett á borð þá losið þið hringinn frá kökunni.

No comments:

Post a Comment