Saturday, November 23, 2013

Útgáfugleði

Jæja þá er bókin komin út og farin að sjást í hinum og þessum verslunum. Mér líður eins og fjórða barnið sé fætt, það er með allar tær og fingur, jú fann reyndar eina gloppu í einni uppskriftinni, vantaði eitt sætt g fyrir grömm en það er eins og sagt er með bútasaumsteppin, ein villa í hverju teppi er málið eða svo segjir Amish fólkið. Útgáfugleðin mín var haldin í gær með pompi og prakt í Reykjavík Bus hostel sem er bara sætur staður staður með mikla og hlýja sál. Þar mættu hinir og þessir vinir og vandamenn, ættingjar og fjölmiðlafólk. Ég og Mekkín dóttir mín bökuðum nánast í sólarhring nánast fyrir geimið og runnu kökur, flatbrauð og pizzur hratt og örugglega út í stóra sem smáa. Bryndís Ásmundsdóttir tók nokkur vel valin jólalög og gerð það listavel ásamt gítarleikaranum Gunnari Þór Jónssyni sem er mikill snillingur. Ég undirrituð náði ekki að komast í gegnum þakkarræðuna mína án þess að taka Eið Smára á þetta og snökti 2/3 af textanum en það verður bara að hafa það, svona er ég bara, allt fullt af mínu nánasta fólki að horfa og ég verð eins og strá í vindi og brotna við minnsta augnatillit. Ég get ekki einu sinni horft á börnin mín stíga á svið nema að tárin spýtist út svo þetta er bara hrikalega erfitt fyrir mig. Eitthvað í genunum held ég.


En takk allir fyrir að kíkja á bloggið mitt, þið eruð búin að vera æðisleg og haldið mér alltaf við efnið. Það að vita af ykkur þarna úti sem treystið á að fá nýjar uppskriftir hingað inn öðru hverju er bara hvatning og ég mun halda ótrauð áfram. Í dag verð ég ásamt Evu Laufey Kjaran í ráðhúsinu á bókamessu og væri gaman að sjá ykkur milli 16 og 17 , býð upp á köku og kryddbrauð meðan birgðir endast.

No comments:

Post a Comment