Monday, December 2, 2013

Þjóðleg og jólaleg helgi

Jæja þá er enn einni helginni lokið og jólin nálgast á ógnarhraða :) Hún var ansi þjóðleg helgin hjá okkur skal ég segja ykkur sem og fjörug. Föstudagurinn fór í að undirbúa veitingar fyrir afmælisveislu og auðvitað allt sykur-og hveitilaust. Laugardagurinn snerist mikið um bakstur og vinnu og endaði á skemmtilegri danssýningu hjá Kristbjörgu vinkonu minni og vinkonum hennar þar sem sýndur var dans frá hinum ýmsu löndum og margar stíltegundir á boðstólum. Bakstursáskoranir voru á mjög þjóðlegum nótum og náði ég að setja saman eina útgáfu af vanilluhringjum, gera brúna lagtertu og svo nokkrar týpur af konfekti áður en við skunduðum á útskrift móður minnar og systur úr Annríki, þjóðbúningaskólanum sem þær hafa stundað nám við af kappi undanfarnar vikur.

Enduðum svo á jólafundi kvenfélags Fríkirkjunnar sem alltaf er jafngaman að taka þátt í og á glæsilega happadrættið stóran þátt í góðri þátttöku get ég trúað. Mjög jólaleg og notaleg stund.  Er ekki við hæfi að skella hér inn vanilluhringjauppskrift og lagtertu svona upp á gamla móðinn en þó með sykurlausum snúning.
 Brún hrærð lagkaka
180 g smjör
180 g sukrin gold
4 egg
2 msk kakó
60 g kókoshveiti
40 g möndlumjöl
120 g sýrður rjómi
1 dl heitt vatn
1 tsk kanell
1 tsk negull
1 tsk matarsódi
1/2 tsk Xanthan Gum
 
Krem
180 g ósaltað smjör
100 g Sukrin Melis
1 tsk vanilludropar
15 dropar Via Health vanillustevía
1 eggjarauða

Hrærið smjör og Sukrin gold saman. Bætið eggjum út í og þeytið áfram. Setjið sýrðan rjóma og vatn út í og þeytið enn. Setjið þurrefnin saman í skál og blandið þeim varlega saman við eggjahræruna.
Þeytið létt áfram. Smyrjið 2 litlar bökunarplötur með deiginu,nota bara svona a4 stærð af plötum því það er meðfærilegra, muna að nota bökunarpappír.
Bakið í 180°C í 10-15 mín eða þar til kökurnar virðast fullbakaðar. Kælið. Gott að setja samt kremið fljótlega á þessar því þær eiga til að harðna aðeins. Einnig er hægt að láta þær standa yfir nótt með röku viskastykki. Þá ætti að vera auðvelt að meðhöndla þær daginn eftir.
Setjið krem ofan á og leggið plöturnar saman. Síðan er öðru þunnu lagi af kremi smurt yfir og kakan skorin í 2 hluta og lögð aftur saman. Þá er komin 4 hæða kryddlagkaka með léttu og góðu smjörkremi. Gott að geyma í kæli með plastfilmu meðan kremið tekur sig.
 
Vanilluhringir
190 g smjör mjúkt
60 g kókoshveiti
2 egg
1/4 tsk Hjartarsalt
1/2 tsk Xanthan Gum
10 dropar vanillustevía
1 tsk vanilludropar
100 g sukrin
 Þeytið Sukrin, smjör og egg saman, bætið svo kókoshveiti út í hjartarsalti.
Setjið strax í sprautupoka og sprautið lengjur sem þið klípið niður og mótið hringi.
Bakast í 180°C í 8-10 mín. Þeir þurfa svo að standa aðeins og harðna.
Mjög góðir, sérstaklega nýbakaðir

5 comments:

 1. Sæl Krista - og allra bestu þakkir fyrir frábært matarblogg!

  Ég hef tekið eftir því að t.d. í eftirrétta- og smákökuuppskriftum þínum notar þú yfirleitt annað sætuefni en Erythrotol. Ég velti fyrir mér hvort ekki megi nota það í staðinn fyrir þau sætuefni sem eru í uppskriftum þínum? Og þá, hvort nota megi sama magn. Hvað segir þú um það?

  Bestu kveðjur,
  Lilja

  P.S. Ég póstaði þessu einnig annars staðar á síðunni þinni en set þetta hér líka svo þú rekist alveg örugglega á fyrirspurn mína! :-)

  ReplyDelete
 2. Sæl ég var einmitt að fara að svara þér, sko Erythritol er Sukrin, þeir bara skírðu þetta SUkrin hjá Funksjonell til að það væri þjálla í framburði :) s.s. ég er að nota Erythritol og Stevíu í allt sem ég geri :)

  ReplyDelete
 3. Frábært að heyra Krista - og takk fyrir skjót svör!
  Bestu kveðjur,
  Lilja

  ReplyDelete
 4. Mikið er ég feginn að þú sért búin að "finna " upp vanilluhringi og lagtertu. Fyrstu jólin á lkl og þvi miklar pælingar (veit samt að það er langt i jólin ennþá;-)) en veistu hvernig er best að geyma þetta og hvað lengi.

  ReplyDelete
  Replies
  1. Sæl ég veit ekki alveg með geymsluna, örugglega gott að frysta, en gæti orðið þurrt, ég bjó þetta til bara og át strax svo ég hef ekki reynsluna ;)

   Delete