Saturday, December 14, 2013

Lakkrísmöndlur og hentugir veitingastaðir

Jæja eitthvað lítið farið fyrir bloggstundum núna upp á síðkastið því maður er víst á haus fyrir jól eins og margir og mínúturnar virðast bara ekki alveg duga til suma dagana. Hér er þó ein fljótleg uppskrift fyrir súkkulaði- og lakkrís grísi en ég gerði þetta fyrir saumaklúbbinn minn og þetta er lúmskt gott :)
Lakkrísmöndlur
100 g möndlur með hýði
50 g sykurlaust dökkt Valor súkkulaði t.d.
1 msk lakkrísduft ( fæst t.d. í EPAL og Tiger að ég held)
1 msk kakó
 
Aðferð:
Steikið möndlurnar í nokkrar mínútur á þurri pönnu eða þar til þær fara að ilma duglega. Setjið þær í skál og látið kólna dálítið. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og hellið svo yfir möndlurnar. Hrærið vel í og látið súkkulaðið húða þær allar. Dreifið þeim svo á smjörpappírsklæddan disk eða plötu og skiljið þær svolítið að svo þær festist ekki allar saman. Sigtið svo lakkrís og kakóinu yfir og hristið aðeins bakkann. Leyfið þessu að harðna, fljótlegast í ískápnum. Þessar minna pínu á kúlusúkk og eru bara þrusugóðar, sérstaklega fyrir þá sem eru fyrir lakkrís.
 
Svo langar mig að mæla með einum veitingastað sem við fjölskyldan skunduðum á eftir langan og strangan dag bæði hjá Kristu Design og eftir kynningar á bókinni góðu.
 
Þessi staður sem varð fyrir valinu heitir Primo og er á Grensásvegi( þar sem Rizzo pizza var áður til húsa). Ég hringdi og pantaði borð og bað stúlkuna í leiðinni  að kanna hvort hægt væri að koma með glútenlausan pizzubotn fyrir litla strumpinn svo hann gæti fengið pizzu á alvöru pizzastað. Hún hélt það nú og minn herramaður varð heldur betur glaður. Staðurinn var mjög kósý og smart og maturinn... úff hann var ÆÐI !! Forréttaplattar hentuðu okkur "fituelskendunum" vel, pylsur, álegg, ólífur og ostar, grillað grænmeti og fullt af olíu... nammm. Aðalréttirnir voru svo t.d. grilluð kjúklingabringa, hamborgari, minstronesúpa og svo mætti lengi telja, þeir eru t.d. með mjög girnilega steik á matseðlinum. Þjónustan var lipur og vingjarnleg og bara allt til fyrirmyndar. Fullt hús :) Fer pottþétt þangað aftur. 
 

No comments:

Post a Comment