Tuesday, December 10, 2013

Laufabrauðsgerð

Nú er laufabrauðið ómissandi partur af jólunum hjá ansi mörgum, t.d. með hangiketinu og uppstúfnum ;) en ef þú vilt sleppa hveitinu þá er hægt að gera þessa uppskrift sem var púsluð saman úr hinum og þessum frumgerðum með staðgengilsmjöli sem mér fannst passa vel og þær eru bara nokkuð góðar skal ég segja ykkur.

 Laufabrauð án hveitis
 
 60 g sesammjöl Funksjonell (eða malið 60 g macadamiuhnetur t.d. frá NOW)
 40 g fiberfin
 20 g kókoshveiti
 50 g möndlumjöl
 (ég notaði þetta fínmalaða í grænu pokunum Funksjonell)
 1/2 tsk xanthan gum NOW
 1 msk kúmen
 1/2 tsk lyftiduft
 1 dl rjómi
 1 dl soðið vatn
 1 egg
 1/2 tsk salt
 
 Hrærið allt vel saman, hellið sjóðandi vatni út í rjómann, rjómablönduna út í deigið og hnoðið svo vel saman, ég notaði hrærivél og hnoðarann. Mér fannst ágætt að láta þetta bíða í plastpoka yfir nótt og hnoðaði það svo vel saman á
 borði og ef deigið er of þurrt þá má nota meira af möndlumjölinu til að þurrka það upp. Reynið að ná sem þynnstum kökum úr þessu deigi það verður miklu betra svona stökkt og gott.
 Náðist alveg merkilega vel að haldast saman þetta deig. Ég skar með kleinujárni út litlar kökur eftir undirskál, skar svo litla þríhyrninga í deigið og bretti aftur, ekkert listaverkastúss beint en dugði til. Steikið svo upp úr heitri olíu, má sjálfsagt nota kókosolíu en ég fékk nú að lauma þessu ofan í palmínfeitina bara í þetta sinn af því það eru að koma jól.


1 comment:

  1. Líst vel á þetta hjá þér Krista :) en þá fer ég að láta mig dreyma um uppstúfinn :) Er ekki hægt að fixa hann low carb?

    ReplyDelete