Friday, December 27, 2013

Molinn sem lifði af

Alveg er það merkilegt hvað tilvera okkar mannfólksins getur snúist mikið um mat. Ég veit það best sjálf enda hugsa ekki um annað allan liðlangan daginn. Freistingarnar eru handan við hornið hvert sem litið er og veisluhöld og boð enda oftar en ekki á því að fólk liggur nánast við yfirliði eftir ofneyslu salts og sykurs. Við gerðum okkar besta til að falla ekki í gryfjuna miklu og keyptum aðeins einn pínulítinn kassa af Machintosh fyrir miðjuna okkar því hann er ekki eins hrifinn af "chiafrærommkúlunum" eins og við enn sem komið er og fékk því undanþágu.

Aðfangadagur rann upp og í hádeginu var snæddur grjónagrautur með möndlu eins og er siður á þessu heimili. Sykurlaus var hann þó og með kanilsykri úr Sukrin en við leyfðum okkur grjónin svona til hátíðabrigða, en þó mjög lítinn skammt. Matseðillinn í ár samanstóð svo af grafinni gæs og nauti í forrétt og í aðalrétt, kalkúnaskip með heimagerðri fyllingu úr hveiti- og glútenlausu brauði, brúnuðu hnúðkáli, waldorfssalati, sveppasósu og heimagerðu rauðkáli, auðvitað sykurlausu, graskersmús og rauðlaukssultu! Allt innan sykurmarkanna :)

Eftirréttur, mokkabúðingur úr sukrin og rjóma :) Byrjaði sem sagt ósköp vel. Leyfðum okkur dálítið rauðvín með matnum og maginn rumdi af ánægju. Engar bólgur né pirringur. Síðar um kvöldið kíktum við til foreldranna og þá byrjaði ballið. Pínulítill heimagerður ömmuís skaðar nú engan, og einn piparmyntumoli, því klisjan "það eru nú jól" var í hávegum höfð. Auðvitað fengum við sukkið beint í bakið og hefðum betur átt að hlusta á sykurlausa engilinn sem dansaði á öxlunum á okkur stríðsdans við sykurpúkann en tapaði því miður slagnum að nokkru leyti.
Skaðinn var þó töluvert minni en mörg árin og aðeins 4 machintoshmolar sluppu inn fyrir mínar varir allavega í ár en töluvert meira af ís og eftirréttum ;) Maður lærir vonandi af reynslunni um áramótin og stefnan er á sykurlausan ís á miðnætti.  Múrsteinninn í mallakútnum er að minnka og með aukinni hreyfingu næstu daga ætti allt að vera komið í full swing, ætla þó ekki að slást um hlaupabrettið til að friða samviskuna, það eitt er víst. Lét duga að fara í heitan og góðan Warm Fit tíma hjá Ólöfu í Hress og merkilega lítið um pústra ...

No comments:

Post a Comment