Thursday, December 5, 2013

Nautasamloka að hætti Ramsey

Nú er ég forfallin matarþáttaaðdáandi og horfi á Masterchef, Top chef og Gordon Ramsey nánast á hverjum degi. Ég verð yfirleitt fyrir miklum áhrifum þegar Gordon eldar í kennsluþáttunum sínum og núna varð ég að prófa að gera steikarlokuna hans en þó með LKL snúning.
Þetta var ótrúlega gott combó, bakaði bara eigið brauð og notaði rauðlaukschutney sem ég gerði frá grunni og auðvitað án sykurs. Mæli með þessari fyrir helgina. Passar mjög vel með bernaise sósu.
Steikarloka a la Ramsey
1 gott stykki nautafille t.d. frá Kjötkompaní
ferskt timian
1 stór hvítlaukur
smjör
olía
salt og pipar
 
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C.
Hitið pönnu (sem má fara í ofn) vel með olíu. Steikið fillet á öllum hliðum rétt til að loka því, setjið til hliðar. Bætið smjörklípu á pönnuna og skerið hvítlaukinn í tvennt, leggið hann með sárið niður ofan í smjörið og leyfið að krauma smá , setjið timianbúnt ofan á laukinn og leyfið þessu að snarka pínu. Leggið því næst kjötstykkið aftur ofan á pönnuna á hvítlaukinn og timianið og setjið pönnuna í ofn í 8-10 mín. Takið svo út úr ofninum og látið taka sig í nokkrar mín áður en skorið er.
 Saltið og piprið síðast svo vökvinn fari ekki of fljótt úr steikinni.
Rauðlaukschutney:
2 rauðlaukar
1/2 tsk chilliflögur
1 lárviðarblað
2 msk balsamikedik
2 msk rauðvínsedik
smjör til að steikja úr
salt og pipar
1 msk sukrin gold
 
Steikið laukinn upp úr smjöri þar til hann er brúnaður og mjúkur. Bætið sukrin út í ásamt ediki og látið krauma í nokkrar mín. Kryddið og smakkið til.

 
Steikarlokubrauð:
 
100 gr ljóst möndlumjöl
3 msk Fiber fin
2 msk Husk duft
1/2 tsk salt eða minna, fer eftir smekk
5 dropar Via Health original stevía
2 stór egg
150 gr sýrður rjómi eða grísk jógúrt, ég notaði 18 % sýrðan
1 tsk lyftiduft
2 msk majónes
1 msk eplaedik
 
Blandið þurrefnum saman og síðan eggjum, stevíu og jógúrt/sýrðum rjóma, majónesi, hrærið vel saman. Hellið deiginu í lágt ferhyrnt mót og bakið í 15-20 mín á 180 gráðu heitum ofni m/blæstri.
 Gott að strá pínu parmesanosti yfir rétt í lok eldunartímans.
 
Þessi loka er góð með ruccola salati, rauðlaukschutney og svo er æði að setja smá bernaise á hana.
 

No comments:

Post a Comment