Sunday, January 26, 2014

Klessukaka og Reykjavíkurrölt

Það er oft voðalega grátt og leiðinlegt veðrið í svona janúarslyddu. Í dag rofaði þó til og okkur hjónunum þótti upplagt að skreppa saman í bæjarrölt. Haldið var á Slippbarinn eftir góða ræktaræfingu og fengum við okkur brunch sem var alveg ljómandi góður. Flott þjónusta, fjölbreytt hlaðborð, gott fyrir okkur lág-kolvetnafólkið og gátum við auðveldlega valið okkur mat við hæfi í stað þess að fá fyrirfram ákveðinn brunch sem við myndum hugsanlega leyfa stórum parti af. Röltum svo um alla borgina og skoðuðum blöð í bókabúðum, fengum okkur kaffi á Haíti kaffihúsinu og kíktum á ljósmyndasýningu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Borgin var á iði en þó á ljúfum nótum og mæli ég eindregið með að leika túrista í Reykjavík minnst einu sinni í mánuði.  Hér ætla ég að setja inn uppskrift af klessuköku sem ég gerði um helgina með hindberjasósu og hún sló algjörlega í gegn.

 
Klessukaka í ofni
4 egg
130 g Sukrin Gold
80 g kakó
100 ml kókosolía
2 tsk vanilla dropar eða 1 tsk duft
salt
1/2- dl rjómi eða möndlumjólk
 
Þetta er sett í blender eða hrært í hrærivél þar til silkimjúkt. Smyrjið deiginu í hringlaga form, t.d. silikonmót og bakið á 180°C í 15 mín á blæstri. Takið kökuna út og setjið álpappír eða disk yfir formið. Látið kökuna halda áfram að bakast í mótinu þar til hún er orðin volg.
Borið fram með þeyttum rjóma og hindberjasósu.
 
Hindberjasósa:
2 dl hindber, frosin
1-2 msk vatn
1 tsk balsamedik
1 msk Sukrin Melis
6 dropar Stevía Via Health
1/4 tsk Xanthan gum, má sleppa
Hitið í potti eða lítilli pönnu þar til freyðir. Kælið og hellið svo út á rjómann með kökunni eða setjið yfir alla kökuna og berið fram þannig.
 No comments:

Post a Comment