Thursday, January 16, 2014

Kókoskurl

Jæja bíóferðir geta oft verið erfiðar, mikið um freistingar og popplyktin getur ært mann hreinlega. Gott ráð er að kaupa sér gosvatn eða fá vatn í glas í sjoppunni og hreinlega lauma með sér smá nesti, held að bíóið fari nú ekki á hausinn við það. Skora samt á bíóhúsin að bæta úr úrvalinu í sjoppunni, bæta við sykurlausu súkkulaði t.d. eða hnetupokum fyrir þá sem vilja maula á einhverju öðru en sætindum og poppkorni. Góð vinkona mín velur stundum sérstaklega í eitt ákveðið kvikmyndahús til þess eins að geta keypt sér súkkulaðipopp sem er auðvitað fáránlega gott en ef þú vilt halda kolvetnum og sykri í lágmarki þá er það ekki alveg það hentugasta. Hér er uppskrift af fínu nasli sem væri hægt að taka með í staðinn. Kristbjörg mín nú verður þetta með í næstu ferð.
Kókoskurl

30 g kókosolía, Himnesk hollusta
30 g kakósmjör (SOLLA)
15 g kakó
20 g Sukrin melis Funksjonell
10 dropar Via Health stevía, vanillu
150 g kókosflögur, Himnesk hollusta, mega vera ristaðar líka
 
Aðferð:
Bræðið kókosolíuna og kakósmjörið saman á vægum hita. Sigtið svo sukrin og kakó út í og hrærið stevíunni saman við.
Hellið kókosflögunum út í og hrærið varlega, hellið á smjörpappír og dreifið úr á bökunarplötu eða grind sem kemst í kæli.
Kælið í 30 mín, brjótið svo niður í kurl og njótið yfir rómantískri bíómynd.

No comments:

Post a Comment