Tuesday, January 7, 2014

Meðlæti

Jæja nú eru flestir farnir að kannast við sig aftur í eldhúsinu, blómkálið komið í ískápinn, kúrbíturinn niðurrifinn í lasagnað og enn leynast nokkur hnúðkálshöfuð í matvöruverslununum. Þá er um að gera að prófa sig áfram með skemmtilegt meðlæti því smjörsteikt grænmeti getur orðið leiðigjarnt til lengdar. Ég var með mjög gott hægeldað lambalæri á sunnudaginn í matinn fyrir fjölskylduna og átti afganga af hnúðkálssnakki frá kvöldinu áður sem mér datt í hug að nota í gratín, (nú nýtir maður allt upp til agna til að geta borgað jólavísað ;)) Hér er uppskriftin og mæli ég svo sannarlega með þessum rétti.
Hnúðkálsgratín:
500 g hnúðkál skorið niður í þunnar sneiðar( gott að nota mandólín)
300 ml kjúklingasoð eða vatn
1 dl rjómi
1-2 kjúklingakraftsteningar ef ekki er notað kjúklingasoð
2 geirar af hvítlauk
2 skallottulaukar má líka nota gulan lauk eða blaðlauk
2 msk ólífuolía
100 g parmesanostur rifinn eða annar bragðsterkur ostur
Aðferð:
Steikið laukinn upp úr olíu þar til hann er mjúkur, bætið soði við og rjóma og sjóðið aðeins niður. Flysjið hnúðkálið og sneiðið í þunnar sneiðar, gott að nota mandólín eða rifjárn. Leggið þunnt lag á botninn í smurðu eldföstu móti og ausið svo rjóma-lauksoðinu yfir hnúðkálið. Leggið annað lag yfir og endurtakið leikinn. Bakið í 180°C ofni í 20 mín. Dreifið þá ostinum yfir efsta lagið og bakið í 10 mín í viðbót á 220°C , jafnvel setjið á grill í nokkrar mín.   
 

No comments:

Post a Comment