Tuesday, January 14, 2014

S-Ameríku prinsessan

Það vita það kannski einhverjir sem mig þekkja að stóra/litla stelpan mín hún Mekkín er farin í ferðalag um Suður Ameríku og verður þar næstu 3 mánuði með 4 vinkonum sínum úr MR. Hún er með glútenóþol eins og ég hef nefnt áður og það tók aðeins á að leggja í óvissuna því ekki hafði hún hugmynd um hvað væri hægt að borða þarna úti nema grænmeti, kjöt og ávexti og jú grjón. Þetta er ekki allt mjög lkl væn fæða en það gengur þó allt vel og hún er búin að finna sér ýmsar glútenlausar vörur sem hún getur maulað á. Svo spilar avocado stóra rullu þarna úti og er víst það besta í heimi sem hún hefur smakkað að hennar sögn. Hún er líklega í þessum skrifuðu orðum fljótandi í gúmmíslöngu niður eitthvert stórfljótið í Guatemala og nýtur lífsins. Mig langar að prófa dálítið, reyna allavega að tileinka henni þriðjudagana í einhversskonar S-amerískri matseld og þá snúa réttum og uppskriftum á lágkolvetna máta eins og hægt er. Ég mun ekki reyna við grillaða naggrísi sem eru þjóðarréttur þar ytra t.d. og djúpsteiktir bananar verða heldur ekki á boðstólum. Mig langaði þó að prófa að gera Empanadas þennan fyrsta þriðjudag og held að mér hafi tekist nokkuð vel til. Fylgist svo með spennandi ævintýrum prinsessunnar minnar sem ég er svo stolt af og framandi uppskriftum næstu þriðjudaga :)

Ekkert slæmt að fá sér snarl þarna og allt á spottprís... ávaxtasalat á 100 kr eða minna
Laumaðist í nokkrar góðar myndir af ferðasíðunni þeirra
 
Þarna er hópurinn eða flestar og hittu þær líklegast þennan svala gaur á einu horninu.
 
Þessi dama er svo auðvitað flottust Empanadas deig:
100 g rjóma- eða sveppaostur
30 g kókoshveiti
20 g sesammjöl
30 g HUSK
1/3 tsk Xanthan Gum
30 g olía ég notaði MCT olíu ( fæst í Fitnesssport t.d.)
 eða nota aðra olíu eða smjör
70 ml vatn
1/2 tsk lyftiduft
1 egg
 Öllu hrært vel saman, sett í plast og geymt í kæli í 30  mín eða lengur.
 
Kjötfylling:
300 g svínahakk
1 dl graskersfræ (ristuð á pönnu)
1 lítill gulur laukur eða 1/2 stór
2 litlir vorlaukar eða 2-3 cm blaðlaukur
2 msk rauðvíns eða eplaedik
1/3 rauð paprika
2 hvítlauksgeirar
1 harðsoðið egg
1 tómatur í litlum bitum
50 ml kjúklingasoð
2 tsk cumin krydd
salt og pipar eftir smekk
(1 aukaegg til píska kökurnar með)
 
Steikið hakkið á þurri pönnu og setjið til hliðar á eldhúsbréf.

Steikið fínsaxaða laukana næst á pönnunni. Ristið graskersfræin á annarri pönnu þar til þau eru farin að "poppa" aðeins. Malið niður í mjöl, ég notaði Thermomix, hægt að nota matvinnsluvél.

Blandið soðinu út í laukana, ásamt papriku og kryddum, bætið graskersmjölinu svo út í og hrærið. Hakkið fer svo í lokin og látið malla í 10 mín.
Í lokin er harðsoðna egginu bætt varlega út í í bitum. Kælið.
Fletjið nú út Empanadas kökurnar í hringi um það bil 10 cm í þvermál. Setjið 1 msk af fyllingu í hverja köku, leggið saman í hálfmána ( gott að pensla aðeins brúnirnar með eggi)
og lokið köntunum með gaffli. Penslið tilbúnar Empanadas kökurnar með pískuðu eggi og bakið í ofni í 160°C í 30-40 mín. Þetta deig dugar reyndar bara fyrir 12 kökur og þá er hálf fyllingin eftir. Þá er annaðhvort hægt að 2 falda deiguppskriftina
eða gera aðra útgáfu af réttinum. Setja alla fyllinguna í eldfast mót, fletja deigið út og búa til einskonar lok yfir réttin. Stinga nokkrar raufar í deigið og baka svo í ofni í 25 mín.
Berið fram með Aji sósu.

Aij sósa:
5 vorlaukar, hvíti parturinn og smá af græna, má líka notað blaðlauk ca 5 cm
1 jalapeno pipar (má nota niðursoðna 1-2 msk)
1 msk kóreander, ég notaði steinselju núna
80 ml eplaedik
40 ml limesafi
1/4 tsk salt
Blandið öllu saman í skál og smakkið til, má líka hakka smátt í matvinnsluvél.
 

2 comments:

  1. "30 g olía ég notaði MCT"

    Hvaða olía er þetta?

    ReplyDelete
  2. MCT er gæða kókosolía, svona það besta úr kókosolíunni, er bragðlaus og gefur manni mikla orku. Mátt líka nota aðrar olíur eða smjör bráðið

    ReplyDelete