Friday, February 28, 2014

Bolla bolla bolla

Flestir hafa nú sínar skoðanir á hvernig bollu skal velja sér á bolludögum. Vatnsdeigsbollur, gerbollur, bollur með frómas, rommbragði, súkkulaðimús, sultu, ekki sultu, glassúr, súkkulaði, flórsykri.... úrvalið er í það minnsta ansi gott. Minn maður er hrifnari af þessum hefðbundnu gerbollum með sultu og rjóma en ég er vatnsdeigsbollutýpan svo ég ákvað að gera 2 útgáfur í þetta sinn og að sjálfsögðu glúten og sykurlausar. Ég ákvað að blanda sultunni saman við rjómann og kom þessi fallega bleiki rjómi úr þeirri tilraun. Sparar allavega handtökin og lítur nokkuð vel út. Hér eru uppskriftir ef þið viljið prófa fyrir mánudaginn, eigið góða helgi.
 Sparibollur:
 
100 g rjómaostur
3 egg, aðskilin
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 msk Sukrin Melis
1/2 tsk vanilludropar

Aðferð:
Hvítur stífþeyttar sér með vínsteinslyftiduftinu.
Rauðurnar þeyttar í annari skál með rjómaostinum, vanillu og Sukrin Melis. Blandið svo 1/3 af hvítunum út í rjómaostinn, þeytið varlega. Bætið svo afgangnum við af hvítunum og veltið þeim saman við með sleikju.
Setjið 1 msk af deigi í smurt muffinsmót eða notið silikonmót. Það er líka hægt að setja eina msk af deigi varlega á smjörpappír. Bakið svo bollurnar í 20 mín á 150°C. Losið bollurnar varlega úr forminu eða af pappírnum og leyfið þeim að standa á grind meðan þær kólna. Skerið bollurnar í 2 parta og setjið rjóma á milli, loks glassúr eða bræðið súkkulaði yfir toppinn.
Ef bollurnar verða flatar þá leggið þið bara 2 saman með rjóma á milli.

Möndlubollur:
3 egg
100 g rjómaostur
1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
50 g möndlumjöl
1 msk HUSK
valmöguleiki: 1/2 tsk kardimommudropar eða vanilludropar
 
 
Aðferð:
Hitið ofninn í 160°C með blæstri.
Þeytið eggin vel og vandlega með rjómaostinum, blandið þurrefnum saman við og leyfið deiginu að standa í 10 mín. Gott er að setja deigið í sprautupoka og sprautið um 20 doppum á góðan smjörpappír með góðu millibili því þær renna aðeins út í ofninum.
Bakið í 15 mín eða þar til bollurnar eru gylltar. Eftir að bollurnar eru kaldar þá er gott að sprauta rjóma á milli 2 helminga og setja svo glassúr yfir.
 
Súkkulaðibráð:
1 msk kókosolía ( bráðin )
1 msk kakó
2 msk Sukrin Melis
6 dropar karamellustevía, Via Health
 
Hrærið kröftuglega, ef blandan er of þykk þá er ágætt að þynna með rjóma eða kaffi.
 
Jarðaberjarjómi:
1 poki frosin jarðaber
2 msk Sukrin Melis
1 tsk balsamik edik
15 dropar stevía
1/3 tsk Xanthan Gum
 
Hitið jarðaberin að suðu, bætið þá Melis saman við og hrærið vel, balsamedik, stevía og Xanthan Gum fara í lokin út í og berin maukuð með gaffli eða töfrasprota. Kælið.
Þeytið rjóma og blandið 1-2 dl af sultu saman við, hrærið og sprautið svo á milli bolluhelminga.

 
 
 

No comments:

Post a Comment