Saturday, February 15, 2014

Hjartapizza og kúrbítsbrauð

Jæja ég er búin að vera dugleg að prófa nýjar uppskriftir í vikunni og hér eru 2 þeirra sem komu glettilega vel út. Það er endalaust hægt að baka pizzubotna og prófa sig áfram en einfaldasta uppskriftin er oftast best eins og ég er búin að komast að því þessa hef ég gert oftar en einu sinni sem er nokkuð gott hjá ofvirka kokknum mér. Eins gerði ég mér kúrbítsbrauð úr osti, möndlum og kúrbít, sem var mjög saðsamt og gott. Passar vel með mat en auðvitað gott með osti og kjötáleggi líka nammi namm. Á pínu erfitt með að pikka á tölvuna eftir jógatíma + stöðvaþjálfun en stundum dettur bara í mann smá ofvirkni og aukakraftur og þá tekur maður tvöfalda æfingu. Verð kannski rúmliggjandi á morgun af harðsperrum en þá baka ég bara eitthvað og hef það notalegt þar haha. Eigið notalega helgi með ykkar fólki, það mun ég gera enda er veðrið yndislegt.

 
Hjartapizza:
1 poki niðurrifinn Mozarellostur
2 egg
2 msk chia seed meal eða 4 msk möndlumjöl
1 msk pizzakrydd
 
Aðferð:
Hrærið öllu vel saman í skál og hellið á bökunarplötu.
Mótið í hring, eða 2 lítil hjörtu eins og ég gerði í tilefni Valentínusardagsins, og bakið svo í 180°C í 10 mín. Takið botninn út setjið áleggið á, ég gerði pizzusósu úr:
 
Pizzusósa:
1/2 hvítlaukur,
handfylli fersk basilika ( eða nota þurrkað krydd)
2 tómatar
1 msk tómatpúrra
1 msk ólífuolía
gróft salt
Maukað saman í matvinnsluvél.
 
Sveppir, beikonkurl, skinka og rifin ostur fóru svo ofan á pizzuna ,smá pizzakrydd og hvítlaukssalt og allt í ofn aftur í 10-15 mín þar til osturinn var gylltur og byrjaður að krauma. 

 
Osta kúrbítsbrauð með rósmarín
2 egg þeytt
270 g möndlumjöl (ég notaði ljóst)
1 hringlaga mexíco ostur niðurrifinn, eða nota annan sterkan ost t.d. cheddar
1 tsk matarsódi eða vínsteinslyftiduft
1/4 tsk salt
80 g niðurrifinn kúrbítur
1 msk rósmarín krydd ( mætti líka nota Herb de Provance eða ítalskt krydd)
2 msk HUSK trefjar
100 ml Sódavatn eða sjóðandi vatn, hjálpar til við lyftingu
 
Aðferð:
Hitið ofn í 180°C. Blandið öllu innihaldinu vel saman og hellið í aflangt smurt, brauðform, gott að nota silikonmót. Bakið í 15 mín og lækkið þá hitann í 160°C og bakið í 30 mín í viðbót.
Kælið og njótið.


No comments:

Post a Comment