Monday, February 24, 2014

Konudagur

Konudagurinn var ansi viðburðaríkur hjá mér enda fór hann í að halda námskeið í bakstri og eldamennsku án sykurs og sterkju hér í Stykkishólmi með góðum hópi fólks sem fórnaði fallegum sunnudegi til að elda og stússast saman í litlu skólaeldhúsi í nokkra klukkutíma. Afraksturinn var fullt borð af girnilegum réttum og vonandi fóru allir sáttir og saddir frá því borði. Þegar heim í bústað var komið þá stóðst ég ekki að skella í eina tertu í tilefni dagsins, fékk nefninlega bara kaffibolla í rúmið frá eiginmanninum í þetta sinn ;). Tertan er samsuða úr nokkrum hugmyndum og endaði í þvílíkri bombu sem verður seint kláruð.
 
 
Konudagsprengjan:
 
3x uppskrift af franskri súkkulaðiköku úr bókinni minni Brauð og eftirréttir:
 
Frönsk súkkulaðikaka:
3 egg
50 g sukrin gold
150 g sýrður rjómi
30 g kakó
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1 tsk skyndikaffi
1 tsk vanilla
30 g möndlumjöl
nokkur saltkorn
 
Aðferð: 
Pískið saman egg og sukrin, blandið saman við sýrða rjómann og vanilluna. Þurrefnin fara þá út í og blandan bökuð í 22 cm formi í 20 min á 180°C hita.
 
Hnetusmjörskrem:
240 g rjómaostur
4 msk smjör
230 g hnetusmjör
150 g sukrin melis
230 ml rjómi
1 tsk vanilludropar
 
Aðferð: 
Þeytið öllu vel saman, fyrst rjómaosti, smjöri og hnetusmjöri. Þá sukrin, rjóma og vanillu. Kremið á að vera loftmikið og ljóst. Smyrjið því á milli botnanna þriggja og endið á að hylja alla kökuna með afgangnum.
 
Súkkulaðiglassúr:
4 msk smjör
40 g sukrin melis
60 g sykurlaust súkkulaði
1/2 tsk vanilludropar
 
Aðferð:  
Hitið allt saman við lágan hita í potti. Hrærið reglulega, látið kólna og hellið svo yfir kælda tertuna svo leki níður á hliðarnar. Þessi terta þarf að kólna aðeins til að hún nái að setjast og kremið stífna. Best með þeyttum rjóma eins og svo margt ;) 

No comments:

Post a Comment