Monday, February 17, 2014

Næstum Hlölli !

Skyndibiti! Enn og aftur þá kallar hann stundum á mann, sérstaklega ef gleðin hefur verið við völd fram eftir öllu eins og "gerðist" óvart hjá okkur hjónunum um helgina. Sveittur Hlöllabátur er syndsamlega góður og höfum við ósjaldan gripið í einn slíkan á leið heim af samkomum enda oft sársvöng eftir gleðihristing og danstakta á dansgólfinu. Brauðið er þó ekki að fara vel í maga þeirra sem hafa glútenóþol og þrátt fyrir að Hlöllabátar hafi tekið upp þá FRÁBÆRU nýbreytni að bjóða upp á lág-kolvetna brauð þá er það ekki alveg glútenfrítt. Þá græjar maður það bara heima ef manni langar líka að smakka. Tek þó fram að ég dáist af veitingafólki og framleiðendum sem eru að koma í til móts við þarfir fólks varðandi lág-kolvetna mataræðið í sífellt auknum mæli. Algjör snilld. Brauðuppskriftina fann ég á vefnum en ég bætti við smá bragði í hana með því að nota kjúklingasoð og það kom stórvel út. Kemur vel út í bollur líka t.d. með góðri súpu. Teygjanlegt brauð sem hægt er að "rífa" í sundur ;)
Brauðið: 12 bollur eða 6 langlokur (bátar)
200 g ljóst möndlumjöl eða malaðar hýðislausar möndlur
5 msk Physillium HUSK DUFT, ath verður að vera duftið í baukunum frá NOW
2 tsk vínsteinslyftiduft
3 eggjahvítur eða 1 dl
250 ml sjóðandi vatn með 1/2 kjúklingakraftstening
2 msk eplaedik
1/2 tsk sjávarsalt
 
Aðferð:
Forhitið ofn í 180°C og notið blástur.
Blandið þurrefnum saman í matvinnsluvél, bætið eggjahvítu saman við og hrærið vel, sjóðandi kjúklingasoðið fer svo út í síðast og hrært vel. Látið deigið standa í skálinni í 5-10 mín. Mótið þá bollur ( gott að nota einnota hanska eða setja pínu olíu í lófana) Mótið ca 12 bollur eða 6 langlokur úr deiginu og setjið á bökunarplötu. Bakið í 50 mín með blæstri neðarlega í ofni.
Í hverjum bát eru um 3.5 netcarb ef uppskriftin skiptist í 6 báta.

 
Álegg fyrir einn Roastbeefbát:
3 sneiðar roastbeef-álegg
2 sveppir
1/3 laukur
smjörklípa
Eðalkrydd frá Pottagöldrum
kínakál
Hlöllasósa
 
Svissið laukinn og sveppina á pönnu með klípu af smjöri. Kryddið vel með Eðalkryddinu og takið til hliðar á pönnunni. Setjið roastbeef í nokkrar sek á pönnuna. Að lokum er gott að skera bátinn í sundur og steikja örstutt á pönnunni með sárið niður. Setjið hlöllasósu á bátinn, kínakál og að lokum kjötið/sveppi/lauk. Lokið bátnum, snæðið og njótið þess að vera til.
 
 
Einnig hægt að útbúa bollur úr sama deigi og gott að strá pínu parmesan osti yfir bollurnar eða graskersfræjum til að breyta til.


 
 
 
 

1 comment:

  1. Sæl Krista. Þegar ég bakaði bátana í fyrsta skipti voru þeir ÆÐI .... léttir og flöffý. Næsta skipti var allt í lagi .... góðir á bragðið og allt það. Næst voru þeir of blautir og lyftu sér lítið sem ekkert. Og núna síðast var bara DÍSASTER !!!! Bollur sem voru þungar með engri lyftingu :( Núna er ég búin að hræra deigið einu sinni enn og þori varla að baka ... hehe. Hefur þú orðið vör við að munur sé á t.d. möndlumjöli hvað þetta varðar? Hvenær setur þú eplaedikið útí? Með kveðju,
    Gróa.

    ReplyDelete