Friday, February 7, 2014

Svikinn grískur héri !

Já já grískt þema takk, mín ákvað bara að fara alla leið. Þar sem ég elska eggaldin og fetaost og átti hvorutveggja í ískápnum þá var upplagt að gera eitthvað gúmmelaði úr því kombói. Um leið og ég googlaði þetta innihald þá kom auðvitað í ljós að við erum að tala um aðal hráefnið í grískri matargerð. Ég hafði einhversstaðar séð uppskrift af fetabollum og borgurum en þar sem ég nennti ekki að standa í bollugerð þá ákvað ég að leita á æskuslóðirnar og gera "svikinn, grískan héra" en svikinn héri eða FALSKUR eins og ég kallaði hann alltaf í gamla daga er í rauninni bara hakk með smá lauk og beikoni, þjappað saman og bakað í ofni :) Ég notaði sýrðan rjóma og fetaost í þennan rétt og kom þetta dásamlega vel út og ekki verra hvað þetta er fljótlegt. Eggaldinpizzurnar eru pínu dúllerí en svo þess virði nammmmmi !!!
 Fetahakkhleifur
650 g hakk (t.d. passlegt að nota eina nautahakksrúllu Kjarnafæði, fæst frosin)
170 g fetaostur (fetakubbur án olíu)
3 tsk oreganokrydd
90 g grísk jógúrt
3 hvítlauksgeirar eða u.þ.b. 1/2 hvítlaukur án geira
4-6 sneiðar gott beikon (má sleppa)
 
Aðferð:
Setjið hvítlaukinn, fetaostinn, kryddið og jógúrtina í matvinnsluvél eða hrærivél, blandið.
Setjið hakkið næst saman við og blandið duglega saman, ég notaði góða matvinnsluvél og þetta verður mjög slétt og fellt við það.
Setjið kjötdeigið í smurt eldfast mót og bakið í 20 mín á 180°C
Bætið svo ofan á 4-6 lengjum af beikoni og bakið á 220°C í 10 mín í viðbót eða þar til beikonið er stökkt og flott, jafnvel skella aðeins grillinu á. Gott að elda ekki of lengi svo kjötið þorni ekki um of.
 
Hvítlauks og dill dressing:
2 geirar hvítlaukur eða 1/2 hvítlaukur án geira
240 g grísk jógúrt
100 ml ólífuolía
1 tsk edik, hvítvíns eða eplaedik
1 msk af fínskornu dilli ,best ferskt krydd en má auðvitað nota þurrkað krydd.
 
Aðferð:
Blandið öllu vel saman, fljótlegt að nota litla matvinnsluvél eða töfrasprota en
það er vel hægt að raspa hvítlaukinn eða pressa hann út í dressinguna og blanda í skál.
Geymið í ískáp í 1 klst til að fá bragðið vel fram.
 
Eggaldinpizzur með fetaosti og tómötum.
1 eggaldin, skorið í 1/2 cm þykkar sneiðar
2-3 tómatar, fræhreinsaðir og skornir í litla bita
1 msk tómatpúrra t.d. Himnesk hollusta
1 msk hvítlauksolía eða ólífuolía
1-2 msk fersk steinselja eða basilika ef til er
fetaostur (ágætt að nota afganginn af fetakubbnum sem fór í hakkið)
 
Aðferð:
Skerið eggaldinið í sneiðar og raðið á bökunarpappírsklædda plötu, saltið með grófu salti og látið standa í 20 mín. Þerrið þá eggaldinið vel með eldhúsbréfi og penslið með ólífuolíu, setjið í ofn 180°C í 15 mín þar til eggaldinið er gyllt og fallegt. Takið sneiðarnar út úr ofninum, blandið niðurskornum tómötum saman við tómatpúrruna, olíuna og steinselju og dreifið á eggaldinsneiðarnar.
Myljið fetaost yfir og setjið í ofn í 15 mín í viðbót eða þar til "pizzurnar" eru brúnaðar á köntunum.
Berið þessa rétti fram saman eða hafið pizzurnar í forrétt og hakkhleifinn í aðalrétt með dilldressingu og grænu salati.No comments:

Post a Comment