Thursday, March 27, 2014

Ferming framundan ?

Jæja nú fara fermingarveislurnar að skella á með tilheyrandi bakstri og kökuáti! Ég vildi prófa að setja mig í spor fermingarmömmunnar þó svo að ég sé nú búin að ferma tvö börn af þremur og eigi nokkur ár í síðustu veisluna. Það er bara svo gott að hafa afsökun fyrir að baka eitthvað gómsætt öðru hverju. Marens varð fyrir valinu ásamt kransakökutoppum sem mér finnst alltaf skemmtilegir og góðir en ég man að amma mín Bagga bakaði þá alltaf fyrir okkur systkinin ásamt risastórri kransaköku þegar við fermdust. Hér er uppskriftin af marens sem klikkar ekki ef farið er eftir nokkrum grunnreglum. Uppskriftin af toppunum er þar fyrir neðan, einföld og afar fljótleg.

1. Hafa eggjahvítur alltaf við stofuhita
2. Nota hreina skál, stál eða gler
3. Nota cream of tartar eða vínsteinslyftiduft og pínu salt
4. Baka við lágan hita og sýna bakstrinum þolinmæði.
5. Mér finnst góð lausn að sprauta marengs í toppa því þá bakast hann vel og verður stökkur.


Marengsterta með jarðarberjum og karamellusósu
2 stórir botnar, ágætt að skipta uppskrift í tvenna og baka í tvennu lagi svo allt gangi sem best.
 
3 dl eggjahvítur við stofuhita (um 8 hvítur)
120 g Sukrin Melis
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk Cream of tartar eða vínsteinslyftiduft
nokkur saltkorn
26 dropar stevía, Via Health, bragðlaus
 
Aðferð:
Hitið ofn í 120°C með blæstri
Þeytið eggjahvíturnar í tandurhreinni hrærivélaskál eða glerskál þar til þær fara að freyða. Bætið þá við Sukrin Melis, cream of tartar, salti og vanillu.
Þegar marensinn fer að mynda stífa toppa þá setjið þið hann í sprautupoka. Mér fannst fallegt að nota wilton 1M rósastút og eftir að hafa markað fyrir hring á
smjörpappír þá sprautaði ég rósum á pappírinn innan í hringinn og lét þær rétt snertast.
Uppskriftin dugar í 2 góða botna.
Bakið nú við 120°C í 15 mín, neðarlega í ofninum, lækkið þá niður 90°C og bakið í aðrar 20 mín, fylgist með því að þeir dökkni ekki um of.
Látið svo botnana bíða í ofninum eftir bakstur í 2 klst. Það er ekki vitlaust að baka einn botn í einu til að baksturinn verði sem bestur, svo má setja þá í ofninn og kæla í 2 tíma.

Fylling:
1 peli rjómi
1/2 tsk vanilludropar
1 box fersk jarðarber
1 msk balsamedik (má sleppa)
3 msk kókosflögur, Himnesk hollusta
 
Aðferð:
Þeytið rjómann með vanillunni og skerið niður jarðarberin, dreypið 1 msk af balsamediki yfir(má sleppa) en það gerir samt svo mikið. Setjið helming rjómans á neðri botninn, dreifið jarðaberjum yfir og svo kókosflögunum, afgangurinn af rjómanum þar á eftir og svo fer efri kökubotninn ofan á.
Dreypið karamellunni yfir kökuna í lokin.
 
Karamella:
1 tsk smjör
nokkur saltkorn
50 g Sugarless sugar eða Sukrin gold
1/2 tsk vanilludropar eða duft
30 ml rjómi

Aðferð:
Bræðið smjörið í potti við meðalhita ásamt sætuefninu, látið krauma í dálitla stund. Þegar karamellan er farin að verða dálítið brúnleit þá er rjómanum bætt saman við.
Hrærið vel þar til allt er vel blandað saman. Takið pott af hellunni og látið kólna örlítið.
Best er að setja rjóma og niðurskorin jarðaber á milli botnanna tveggja og kæla í ískáp í ca klst. Þá er karamellunni dreypt yfir kökuna.  Borið fram og notið með bestu lyst.
 
 
 
 
Kransakökutoppar
200 g möndlumjöl(ljóst) eða mala hýðislausar möndlur
60 g Sukrin Melis
2 eggjahvítur
30 dropar bragðlaus stevía, Via Health
1 tsk möndludropar
1 tsk sítrónusafi
40 g rjómi
 
Aðferð:
Blandið öllu vel saman í matvinnsluvél þar til þétt mauk hefur myndast.
Setjið deigið í sprautupoka, sprautið litlum rósum á bökunarpappír og bakið í 10 mín við 180°C m blæstri.
 
Súkkulaðibráð:
30 g sykurlaust súkkulaði, ljóst eða dökkt Rapunzel/ Stevía eða Valor t.d.
2 tsk sukrin melis
10 dropar Via Health stevía, karamellu
1 tsk bragðlaus kókosolía
 
Bræðið súkkulaðið saman t.d. í örbylgjuofni. Hrærið vel í og dýfið svo botninum á kældum kransakökutoppunum ofan í bráðina.
Leggið á smjörpappírinn og ágætt að setja í ísskáp eða frysti í nokkrar mín.
Þessir eru afar góðir með kaffinu.

3 comments:

 1. Sæl María
  hvaða mödluhveiti ertu að nota, ég prufaði þessa uppskrift og notaði mjölið frá funksjonel og ég þurfti að henda öllu, hræðilega vont, og svo var það líka rosalega þykt og skrítið.

  ReplyDelete
 2. ekki nota fituskerta mjölið frá Funksjonell, ég notaði ljósar hakkaðar möndlur, bæði hægt að gera sjálf eða kaupa í KOSTI Bobs red mill

  ReplyDelete
 3. Ok frábært takk kærlega fyrir þetta, ég prufa aftur :)

  ReplyDelete