Saturday, March 1, 2014

Flagð undir fögru..

Ég bakaði þessar gómsætu kökur nú á dögunum og einhverra hluta vegna þá datt mér í hug nafn á þær í ljósi umræðunnar undanfarna daga á vefmiðlum sem hefur tekið upp allt pláss á fésbókinni minni. Nú er nóg komið en kökurnar eru engu síður góðar og ég leyfi þeim að heita "Engla eða púkakökur" ;) Þær eru sem sagt ljósar og sakleysislegar að ofan en þegar bitið er í þær kemur í ljós  dökkur púki undir niðri. Saman bragðast þær þó vel og vega bragðtegundirnar hvor aðra uppi hahah, heimspekilegt ekki satt ? Þið ráðið alveg hvernig þið skiljið þetta hjá mér !! En hér er uppskriftin.

 
P.s. ég mæli með að kíkja á matarmarkað Búrsins sem nú stendur yfir í Hörpunni. Það er svo frábærlega mikil gróska í íslenskri framleiðslu matvæla og leyndust margir gómsætir gimsteinar þarna í okkar stórfenglega tónlistarhúsi. Tröllapylsurnar voru gómsætar, og eins var gaman að smakka á hinum ýmsu kaffitegundum, te-i og svo nautakjöti, bæði gröfnu og reyktu. Svo var pínu fyndið að sjá Ainsley Harriot með berum augum í Food and fun salnum, en þegar maður tekur matreiðsluþætti fram yfir Greys Anatomy, þá fær maður pínu stjörnur í augun þegar svona þekktir cheffar mæta á skerið. Hann er líka bara svo kátur eitthvað og áhugasamur.

 Engillinn:
240 g rjómaostur
1 egg
2 msk sukrin melis
 
Púkinn:
1/4 tsk salt
200 g möndlumjöl
2 msk kókoshveiti
160 g Sukrin(Funksjonell), Erythritol(NOW) hér má líka nota Sugarless Sugar(NOW)
80 g kakó
250 ml kalt kaffi eða vatn
1 msk brætt smjör
1 msk edik
1 sk vanilludropar
 
Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C og notið blástur.
Hrærið saman rjómaost, melis og egg og setjið til hliðar.
Blandið því næst þurrefnum saman og bræðið smjör. Blandið því næst kaffi, ediki og vanillu saman við ásamt smjörinu og hrærið vel saman, þó ekki of lengi.
Setjið nú dökku blönduna í smurð múffuform 12 venjuleg form í það minnsta. Setjið svo eina góða msk af ostablöndunni yfir þá dökku og bakið í ofni í 25-30 mín en fylgist vel með múffunum.

Þessar eru dásamlega mjúkar og karmellukenndar efst og svo kemur svona ekta dökk súkkulaðikaka í ljós. Spennandi. 

No comments:

Post a Comment