Sunday, March 9, 2014

Karamelludraumur

Góðan sunnudag! Hér er á ferðinni kaka sem ég prófaði fyrr í vikunni og sló rækilega í gegn. Mjúkur svampbotn og klístruð karamella með hnetum á toppnum. Frekar girnó. Njótið dagsins. Ég er farin í heitan foam flex tíma svo ég eigi kannski inni fyrir síðustu sneiðinni þegar ég kem heim.
 
Karamellukaka
1 krukka hvítar baunir, sigtið vökvann frá ...
5 egg
1 tsk vanilla, duft eða dropar
10 dropar Via Health stevía
100 g ósaltað smjör
120 g sukrin, eða Sugarless Sugar
45 g kókoshveiti
15 g möndlumjöl
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt

Karamella
1 msk smjör
100 g Sugarless Sugar (gætuð notað aðra sætu en þessi virkaði vel)
100 ml rjómi
1/4 tsk salt
1/2 tsk vanilla, duft eða dropar
2 dl blandaðar hnetur, t.d. pekan og valhnetur

Aðferð:
 Þeytið saman smjör og sætuefni, bætið 2 eggjum saman við og þeytið mjög vel.
Blandið saman baunum, 3 eggjum, vanillu og stevíu í blender og blandið duglega.
Hellið svo baunablöndunni út í smjörið og hrærið áfram.
Þurrefnin fara næst saman við og aftur þeytt. Hellið deiginu í form, mér fannst best að nota silikonform, hringlaga því það festist aldrei neitt í þeim.
Bakið í 40 mín við 180°c neðarlega í ofni og notið blástur. Blandið karamelluna á meðan.

Hitið smjör í potti, bætið svo Sugarless sugar saman við. Látið þetta malla og fylgist vel með í nokkrar mín. Þegar karamellan er farin að dökkna og sjóða takið þá pottinn af hellunni og hellið rjóma út í.Bætið vanillu við og salti og hrærið vel í. Leyfið karamellunni að kólna aðeins í pottinum. Ef þið notið hnetur þá setjið þið þær hér út í og blandið saman.

Opnið ofninn þegar 40 mín eru liðnar, hellið karamellublöndunni yfir kökuna og bakið svo áfram í 10 mín. Passa að kakan brenni ekki. Best er að láta kökuna kólna í forminu, leggja svo smjörpappír yfir og snúa henni á disk og svo leggja kökudisk yfir botninn og snúa aftur. Þá næst hún í heilu lagi úr forminu. Þessi er mjúk og góð í nokkra daga og er æðisleg með nýþeyttum rjóma.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

No comments:

Post a Comment