Tuesday, March 11, 2014

Naggrís eða búðingur ?

Nú eru dömurnar staddar með inkunum í Perú og eru víst dauðþreyttar og sólbrenndar eftir ferð til stöðuvatnsins Lake Titikaka sem er í 4000 metra hæð. Þær eru búnar að gista hjá innfæddum sem var eftirminnileg upplifun á marga vegu og farið á "Inka-tek" í fullum inkaskrúða sem þær fengu að láni. Þær eru orðnar sjóaðar í fjölbreyttu og stundum óspennandi mataræði og aðstæðum en láta ekkert slá sig út af laginu. Þær sáu t.d. könguló rölta yfir morgunverðarborðið í morgun og í staðinn fyrir að skrækja og æpa þá settu þær bara sykurkar yfir hana og héldu áfram að borða eins og ekkert hefði í skorist.
                Komin í allt of stóran búning                                             Krúttlegur þessi

                           Þessi veit ekkert hvað mun verða um hann í framtíðinni !!
Matur í Perú er ekki beint lágkolvetnamatur enda mikið um grjón og kartöflur. Sumt er frekar framandi fyrir okkur og bera þeir meðal annars fram naggrísi !!! Já  þetta eru heilgrillaðir eða djúpsteiktir naggrísir sem kallast "Cuy" á matseðlum fyrir þá sem vilja forðast að panta slíkan rétt svona óvart!! Mér leist betur á eftirréttina sem eru í boði í Perú og ákvað að prófa sykurlausa og léttkolvetna útgáfu af einum slíkum heldur en að eltast við kjötréttina, ég á nefninlega ekki naggrís!! Rétturinn sem ég gerði kallast "Suspiro de limeña" og er klassískur desert í Perú. Nafnið þýðir "andvarp konu" sem er frekar fyndið og væntanlega er þar verið að vísa til viðbragðanna þegar smakkað er á herlegheitunum. Reyndar er þetta ótrúlega góð blanda en ef ég hefði gert réttinn úr sykri þá hefði ég ekki torgað nema einni skeið. Þetta er einskonar karamellubúðingur með stífum marengs og kaneldufti. Frekar girnilegt takk, en mín útfærsla er án efa töluvert léttari á tungu og hlakka ég til að gæða mér á þessu eftir kvöldmatinn.

 
Andvarp konu eða "Suspiro de limeña"
 
Búðingur:
Fyrri hluti
1 tsk smjör
50 g Sugarless sugar ( eða Sukrin Gold)
50 ml rjómi
nokkur saltkorn
1/2 tsk vanilluduft eða dropar
Seinni hluti
2 eggjarauður
50 ml rjómi

Aðferð:
Hitið smjör í potti á meðalhita, bætið sykrinum saman við og hitið þar til allt er uppleyst og farið að dökkna. Hrærið reglulega í.Hellið svo rjómanum út í, vanillu og salti og hrærið ögn lengur.Látið kólna. Þeytið eggjarauður og 50 ml af rjóma saman og hellið svo karamellunni úr pottinum saman við, þeytið áfram þar til búðingurinn er léttur og fínn. Hellið í 4 skálar og setjið í kæli á meðan marengs er gerður.
 
Marengs
50 ml vatn
100 g Sukrin melis
2 eggjahvítur (við stofuhita)
nokkur saltkorn
1/3 tsk vanilla
kanell til að strá yfir í lokin

Hitið vatn og sukrin saman í potti þar til það bullar vel í sirka 6 mín.
Þeytið hvíturnar og nokkur saltkorn vel í hrærivél þegar stífir toppar myndast þá hellið sjóðandi heitu sýrópinu í mjórri bunu saman við. Þeytið þar til marengsinn er glansandi og stífur.
Setjið marengs í sprautupoka, sprautið fallegum toppum ofan á karamellubúðinginn, stráið kanel yfir og setjið í kæli í 30 mín eða þar til rétturinn er borinn fram.

No comments:

Post a Comment