Thursday, March 20, 2014

Ostasnilld !!

Ostar ostar ostar !!

Ég fór í eina af skemmtilegustu afmælisveislum sem ég hef upplifað lengi í janúar s.l. Aðdragandinn er sá að afmælisbarnið, hann bróðir minn valdi að fara nokkuð skemmtilega leið í fyrra þegar hann bauð okkur í Sushi-veislu en þá áttum við að útbúa allt sushi-ið sjálf og fengum frábæran japanskan kennara í heimsókn sem leiddi okkur í gegnum þau fræði á skemmtilega vísu. Hann ákvað að endurtaka leikinn í ár en að þessu sinni fékk hann hana Eirnýju í Búrinu til að mæta á svæðið og taka okkur á skyndikúrs um osta, má eiginlega kalla þetta ostar 101 því viskubrunnur Eirnýjar er ansi djúpur. Uppsetningin á námskeiðinu er algjör snilld en á sama tíma einföld. Við mættum bara á svæðið og fengum fyrst sýnikennslu í gerð ricotta osts sem var merkilega einföld aðgerð og smakkaðist dásamlega svona ferskur og beint upp úr pottinum. Síðan var sest við borð og diskar bornir á borð með 8 mismunandi ostum fyrir hvern og einn . Meðlætið var frábært, þurrkaðir ávextir, perur og epli, hnetur og súrdeigsbrauð fyrir þá sem vildu. Sultur og chutney úr smiðju Eirnýjar voru einnig í boði í fallega merktum krukkum og var borðið hreint út sagt GIRNILEGT !
Eirný tók góðan tíma í að kynna okkur fyrir sögu ostanna, gerðum, áferðum og bragði og sátum við lengi við borðið, nutum osta, (næstum ásta), meðlætis, léttvíns og síðast en ekki síst fróðleiksins frá þessari skemmtilega hnyttnu ofurkonu en hún er m.a. konan sem stóð á bak við Matarmessuna í Hörpunni sem hefur algjörlega slegið í gegn. Ég mæli með því að fá þessa dömu í heimsókn, lágmarkshópur (8 manns) og verðið mjög sanngjarnt enda innifalið: ostar, vín og meðlæti auk kennslugagna. Búrið hefur nýlega fært bækistöðvar sínar úr Nóatúninu og er núna niðri við Granda nánar tiltekið Grandagarði 35. Takk fyrir okkur Eirný þú ert svo með þetta !! 
 

No comments:

Post a Comment