Monday, April 7, 2014

Ferðalangur komin heim

Jæja þá er snúllan mín komin heim frá Suður Ameríku, reynslunni ríkari með fulla bakpoka af minningum í bland við óhreina sokka og ókeypis hostel stuttermaboli. Það var mjög gott að knúsa litla barnið okkar sem hefur nú skotist framúr foreldrunum í ferðamennskunni. Við kölluðum á fjölskylduna í smá heimkomupartý og eftir velheppnaða máltíð sem var innblásin af frægum rétti frá Perú þá var sest að veisluborði. Hún Mekkín er mikill aðdáandi Minion teiknimyndafígúranna og bakaði mamman því eina Minion köku handa prinsessunni. Kakan er í rauninni bara 2 föld uppskrift af Dönsku súkkulaðitertunni hér á blogginu og svo gerði ég tvöfalda uppskrift af rjómaostakremi með sem ég litað í réttum litum, augun og hnappar úr sykurlausum Le Bron lakkrís og IKEA krukkulok reddaði glerauganu ;). Uppskriftirnar eru báðar í bókinni minni Brauð og eftirréttir Kristu en einnig má finna þær hér á síðunni.  Það voru einnig bornir fram ýmsir réttir sem daman hafði pantað við heimkomuna enda komin með meira en nóg af grjónum, kartöfluréttum og naggrísum !! Aspasrúllubrauð, önnur brauðrúlla með chorizo og avocado en marens pavlovur fylltar með berjum og rjóma settu svo punktinn yfir i-ið. Nú mun ég hafa hana hjá mér í eina viku áður en hún heldur á vit annarra ævintýra í kóngsins Köbenhavn.

Einn frægur réttur í Perú kallast Aji de Gallina og samanstendur af kjúkling og sterkri hnetu-og ostasósu sem er rjómakennd og góð. Yfirleitt er rétturinn borinn fram með kartöflum, grjónum soðnum eggjum og ólífum en í minni tilraun til að snúa uppskriftinni yfir á lág kolvetna máta þá notaði ég blómkálsgrjón. Ég hélt mér þó við eggin og ólífurnar en í stað brauðsins sem notað er til að þykkja sósuna þá bætti ég við dálitlu af chia seed meal.Bragðið er alveg himneskt og fyrir þá sem þola sterkan mat þá mæli ég sérstaklega með þessum.

Aji de Gallina:

4 kjúklingabringur
1 l vatn + 2 kjúklingakraftsteningar
100 ml olía t.d. ljós ólífuolía
3 hvítlauksrif
1 gulur laukur
3-4 gulir aji pipar
(ég keypti spænskan gulan chillipipar í Hagkaup og lét það duga, mætti nota jalapeno líka)
3 msk pekan hnetur eða valhnetur, niðurbrytjaðar
3 msk parmesan ostur
4 msk sýrður rjómi
2 harðsoðin egg
10 svartar ólífur
150 ml rjómi
2 msk chia seed meal
 
Setjið vatn í pott ásamt kjúklingakrafti og sjóðið, setjið kjúklingabringurnar út í vatnið og látið sjóða í 10 -15 mín. Kælið.
Í matvinnsluvél fara fræhreinsaðir piparbelgirnir og olían. Maukið vel. Steikið laukinn og hvítlaukinn á pönnu upp úr piparmaukinu og þegar laukurinn er orðinn glær þá takið þið pönnuna af hellunni.
 
Setjið í matvinnsluvélina parmesanost, hnetur og rjóma og maukið saman ásamt laukblöndunni. Setjið þetta mauk aftur á pönnuna ásamt 1/3 af kjúklingasoðinu. Rífið nú niður kjúklingabringurnar og bætið út í sósuna. Hér er gott að setja um 4 msk af sýrðum rjóma út í kássuna og milda bragðið sem gæti verið pínu sterkt. Látið krauma á pönnunni þar til borið er fram með blómkálsgrjónum, harðsoðunum eggjum og ólífum. Ljómandi fínn og spennandi réttur.
 
 
 

 


2 comments:

 1. Sæl Krista
  Ég hef verið að velta fyrir mér hvar þú heldur þessi námskeið og þá hvar þau eru auglýst? Við erum hérna þrjár vinkonur í Borgarnesi, sem erum á LKL og hefðum áhuga á að komast á námskeið hjá þér. ��
  Ég hreinlega elska bloggið þitt og allar þessar góðu uppskriftir sem hér eru og bendi öllum á að kíkja á það.
  Bestu kveðjur úr Borgarnesi
  Edda Soffía

  ReplyDelete
 2. SÆl ég hélt þau með endurmenntunarstofnunum bæði á Húsavík, Akureyri og svo Stykkishólmi, það fékkst ekki næg þátttaka á Borgarnesi en það námskeið var auglýst í þónokkurn tíma. Ég get haldið námskeið en þá er lágmarksþátttaka 10 manns og ég þarf aðstöðu til að elda með ykkur, best ef það er skólaeldhús.

  ReplyDelete