Sunday, April 6, 2014

Skonsur og sítrónur

Namm, eitt af því sem við fengum að smakka í morgunmatnum í Skjaldarvík sem er frábær gististaður fyrir norðan, rétt áður en komið er inn á Akureyri, það var sítrónusulta. Hún var auðvitað löguð með sykri og því var bara nánast þefað af góðgætinu en ekki gúffað :( Það er þó vel hægt að snúa þessu áleggi yfir í sykurlausa útgáfu og heppnaðist þrælvel í morgun. Ég þarf alltaf að bæta og breyta smá svo ég setti engifer í mína uppskrift og fannst það gera heilmikið. Þetta er æðislegt meðlæti t.d. með ostum og á kex eða skonsur og svo má setja þetta á pavlovur eða litlar marenstertur og bera fram :) Prófið bara og um að gera að kaupa góðar lífrænar sítrónur því börkurinn er mikilvægur í þessa uppskrift. Njótið elskurnar !! Skonsurnar eru svo úr bókinni minni og ég set þær hér neðst í bloggið.

 Sítrónu og engifersulta
 
3 sítrónur, bestar lífrænar
100 g smjör
100 g sukrin
10 dropar stevía, Via Health
6 eggjarauður
1 tsk rifinn engifer(má sleppa en mér finnst það æði)
 
Aðferð:
Hitið smjör í potti þar til það er bráðið, lækkið hitann og blandið saman safanum úr 3 sítrónum, ætti að vera um 100 ml. Því næst setjið þið sukrin saman við, stevíu, rifinn börk af sítrónunum þremur og engiferið. Hrærið vel þar til sukrinið hefur leyst upp. Takið pottinn af hellunni og leyfið blöndunni að kólna örlítið. Pískið nú saman við eggjarauðunum 6 (gerið marens úr hvítunum) og látið pottinn aftur á helluna á lágan hita. Pískið stöðugt á meðan sultan þykknar.
Þetta tekur um 5 mín sirka. Sigtið svo þykkri blöndunni í skál og látið kólna á borði. Þetta geymist svo í lokuðu íláti í um það bil mánuð.
 
 
 
Skonsur:
160 g möndlumjöl, ljóst (hýðislausar möndlur)
20 g kókoshveiti
¼ tsk matarsódi
¼ tsk lyftiduft
50 g kókosolía eða smjör
100 ml ósæt möndlumjólk
½ tsk kardimommur
1 pískað egg
10 dropar stevía (má sleppa)
 
Aðferð:
Blandið þurrefnum gróflega saman og hrærið svo kókosolíunni út í; ágætt er að nota fingurna.
Blandið því næst möndlumjólkinni saman við. Deigið verður nokkuð blautt svo það þarf að dreifa dálitlu af möndlumjöli á smjörpappír og fletja það út svo það festist ekki á borðplötunni.
Fletjið deigið út í u.þ.b. 1 cm þykkt og notið glas til að skera út hringlaga skonsur. Lyftið þeim varlega yfir á bökunarplötu með spaða og fletjið svo aftur út afgangsdeigið. Endurtakið leikinn þar til deigið er fullnýtt. Penslið með pískuðu eggi.
Bakið í 15 mínútur við 180°C þar til skonsurnar eru gylltar á lit, takið úr ofni og kælið. Þessar skonsur eru frábærar með smjöri og osti, rjómaosti og sultu, svo ég tali nú ekki um góðum tebolla.
 
 

No comments:

Post a Comment