Thursday, May 8, 2014

Danska mokkatertan

Jæja eins og ég nefndi hér í fyrri pósti þá römbuðum við inn á yndislegt kaffihús í Kaupmannahöfn (reyndar fórum eftir ábendingu á Trip Advisor sem er alltaf sniðugt að nota í útlandinu) sem heitir Taste og er við Store Kongegade. Eigandinn er franskur og skv. Trippinu þá á hann það til að vera hrokafullur og óttalegur dóni en við sluppum nú alveg við þann háttinn á honum. Hann var bara indæll og afgreiddi okkur vel og vandlega. Kannski ekki með sólskinsbrosi en gæðin á matnum voru nóg fyrir okkur enda ekki komin þarna inn til að spjalla við eigandann. Við fengum okkur ommilettu með skinku og brie osti sem var æðisleg og ég stalst svo til að smakka mokkamarens sem var í glugganum og hreinlega öskraði á mig þegar við gengum inn. Reyndar ekki sykurlaus en samt glútenfrí svo skaðinn var ekki alveg jafn mikill. Hún bragðaðist auðvitað jafn vel og hún leit út og ég ákvað að reyna að líkja eftir þessari þegar heim væri komið. Sykurlaus, glútenlaus og án hveitis takk og það bara heppnaðist nokkuð vel. Hún verður ekki eins mjúk reyndar og þessi danska en hugsanlega hefur það eitthvað með bökunartímann að gera. Ekki baka allt of mikið s.s. ;)  Mæli með að þið prófið þessa. Ekta helgarkaka.
Danska fyrirmyndin
 ...svo er hér eftirlíkingin góða ;)
var nú bara ansi ljúffeng
 
Mokkamarensbiti með pistasíum
 
3 eggjahvítur ( 1 dl)
50 g sukrin gold
50 g sukrin
20 dropar stevía Via Health, vanillu
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk vínsteinslyftiduft/ cream of tartar
salt á hnífsoddi
100 g möndluflögur(malið svo gróflega)
má líka nota möndlumjöl en mér finnst betra að finna smá flögur í marensinum.
 
Aðferð:
Þeytið hvíturnar stífar með vínsteinslyftidufti eða cream of tartar. Bætið út í salti, sætu og stevíu.
Stífþeytið áfram og blandið næst varlega saman við möndlumulningnum.
Smyrjið deiginu í ferhyrning (á smjöpappír) smyrjið pappírinn eða notið Kirkland pappír hann er góður eða notið silikonmottu. Bakið í 120°c með blæstri neðarlega í ofni í 15 mín, lækkið hitann í 100°C og bakið í 10 mín í viðbót. Skerið kökuna í 3 jafna parta, en kælið þó áður en henni er lyft af pappírnum.

Mokkakrem:
220 g mjúkt smjör
1 msk skyndikaffi
100 g sukrin melis
20 dropar Via health stevía
1/3 tsk Xanthan Gum
2/3 dl vatn
3 eggjarauður
2 msk pistasíukjarnar, muldir
 
Aðferð:
Hitið vatn, sætu, kaffidufti og xanthan gum í potti, gott að blanda xanthan gum út í melisið og sigta svo út í vatnið.  Það gætu myndast einhverjir kekkir en þá er hægt að hella blöndunni í gegnum sigti í lokin.  Þeytið eggjarauðurnar ljósar og hellið svo sýrópsblöndunni saman við. Þeytið vel og svo má láta smjörið út í í nokkrum skömmtum.  Þeytið vel og látið smjör falla ofan í skálina með jöfnu millibili. Þegar kremið er orðið létt og ljóst þá er það tilbúið.
Losið nú varlega kökunpartana af pappírnum og leggið í disk, smyrjið kremi á milli allra laga og endið á að smyrja efstu hæðina með kremi, stráið muldum pistasíum á kremið og gott er að kæla þessa köku í nokkra tíma. 
 
 
 

No comments:

Post a Comment