Thursday, May 22, 2014

Grautar, krap, klattar og djúsar

Það kemur fyrir að ég nenni hreinlega ekki að malla mér eitthvað á eldavélinni og þá er fínt að geta sullað saman í graut eða þeyting á tiltölulega stuttum tíma og næra sig á hlaupum. Ég prófaði líka nýlega að gera mér krap úr Jell-ó sem kom svona skemmtilega á óvart. Slush hvað ...nú getur hitabylgjan mætt á svæðið. Annar fljótlegur réttur sem ég er farin að gera oft í viku, reyndar á hellunni, eru kotasæluklattar sem ég get endalaust boðið sjálfri mér upp á, enda hægt að útfæra þá á marga vegu. Ég set hér inn uppskriftir af þessum æfingum mínum og kannski getið þið nýtt ykkur þær eitthvað í sumarannríkinu, margt skemmtilegra hægt að gera þessa daga annað en að standa sveittur yfir pottunum.
Kotasæluklatti í heilu lagi, með skinku og osti

Kotasæluklatti með áleggi og guacamole

 Kotasæluklattar:
 
100 g kotasæla
1 stórt egg
1 msk HUSK / NOW
ögn af salti
svartur pipar eftir smekk
 
Þeytið allt saman, helst með töfrasprota eða í litlum blandara.
Hitið bragðlausa kókosfeiti eða klípu af smjöri á pönnu og steikið litla klatta. Það er líka hægt að steikja einn stóran og skera í 2 hluta. Hægt að gera litlar samlokur úr þessu með skinku og osti, borða með góðu salati, tómat, osti og jafnvel slettu af balsamediki.
 
Súkkulaðichia búðingur:
 
2 msk chia fræ
2 dl möndlumjólk
1 tsk kakó
4 dropar Via Health stevía
1/3 tsk vanilluduft eða dropar
1 tsk Torani karamellusýróp, ef grauturinn er ekki nógu sætur
1/2 tsk hnetusmjör ( má sleppa )
 
Best er að píska grautinn kröftuglega saman eða sigta kakóinu út í til að fá sem fallegasta áferð. Má líka nota töfrasprota. Kælið í 20 mín eða lengur og njótið. Hentar t.d.í morgunmat eða sem eftirréttur. Toppið með nokkrum möndlu- eða kókosflögum.
 
Engifer og túrmerikdjús:
 
engifer 2 cm
1 bolli klaki
1 bolli vatn
1 túrmerikangi ca 2-3 cm
10 dropar Via Health, sítrónu
 
Blandið öllu saman í blender, þeytið og njótið.
 
 
Jell-ó krapís
1 pk sykurlaus Jell-ó (ég notaði lime)
250 ml sjóðandi vatn
500 ml sódavatn (sódastream) eða Sprite zero

Blandið fyrst Jell-ó út í heita vatnið og hrærið, hellið svo gosvatninu eða sprite zero út í og hrærið.
Frystið í fati sem þolir frysti. Geymið í 4 tíma lágmark eða yfir nótt. Skafið svo ískrapið í skálar og njótið á heitum dögum. Örfáar hitaeiningar og enginn sykur.
 

Chia - grjóni !
 
Blandið eftirfarandi í góða krukku:
 
1 poki muldar möndlur ( 100g)
8 msk chiafræ
3 dl kókosflögur
2 msk kanell
ögn af salti

Hristið krukkuna svo allt blandist vel. Skammtið ykkur svo um 1/4 í skál setjið
sjóðandi vatn yfir úr hitakönnu eða hitið í örbylgjunni í 2 mín.
Mér fannst gott að hella smá laktósafríum rjóma yfir og bætti við nokkrum hindberjum,
má setja nokkra dropa af stevíu út á berin.
 
 
 

No comments:

Post a Comment