Tuesday, May 20, 2014

Sól sól skín á mig..

 Ég verð að segja ykkur frá hversu heppin við fjölskyldan vorum nú fyrir stuttu.  Ég var að brjóta saman þvott og sinna þessum týpísku heimilisstörfum á þungbúnum mánudagsmorgni þegar síminn hringdi. Góðan dag, þetta er hjá ferðaskrifstofunni Nazar, ert þú María Krista ? Uuuuu já reyndar.. og fyrsta sem mér datt í hug var að þarna væri einhver sölumaður á ferð að óska eftir happadrættisvinningum hjá Kristu eða þá að bróðir minn ástkær væri að stríða mér með símahrekk, en hann Knútur er sérfræðingur í að ná fólki með útpældu gríni. Nei nei, daman sannfærði mig um að þetta væri ekki grín og spurði jafnframt hvort ég hefði ekki átt von á símtali.. uuu nei ekkert frekar svaraði ég. Þá mundi ég allt í einu eftir því að ég hafði tekið þátt í leik á facebook þar sem þessi umrædda ferðaskrifstofa var að leita eftir fjölskyldum til að prufa gistingu hjá þeim á Tyrklandi !!! Já sæll, nú þutu hugsanir mínar ansi hratt í gegnum hugann, ekki datt mér í hug að svona leikir virkuðu ... jú mikið rétt ég hafði sent inn lýsingu á fjölskyldunni og að við hefðum virkilega mikinn áhuga á að ferðast og hefðum alltaf langað að fara til Tyrklands. Sá auglýsinguna í blaði á kaffihúsi fyrir norðan enda kemst ég mjög sjaldan í blöð og les þá yfirleitt bara auglýsingarnar, skrítin ég veit en ég pikkaði inn á símann minn umsókn í flýti meðan eiginmaðurinn beið eftir mér, nokkuð óþolinmóður ;) ef hann bara vissi þá !!
 
Lífið er alveg ótrúlega yndislegt og kom í ljós að við hefðum unnið þessa ferð !!! svo nú er undirbúningur hafinn á fullu við að koma sér í bíkíni- og sólargírinn.
 
Ég mun skrifa um ferðalagið okkar og upplifanir á blogginu mínu og það er óhætt að segja að spenningurinn sé að magnast hér á Brúsastöðum.  Nú þarf að fara að finna til sólarvörnina, grafa upp bikiníið, sandalana og sólgleraugun. Við munum gista á Pegasos Royal hótelinu á Incekum Tyrklandi sem er hið glæsilegasta, með rennibrautum fyrir gaurana og gullfallegri strönd sem liggur bara rétt fyrir neðan hótelgarðinn. Þjónustan á hótelinu er víst mjög fjölbreytt, barnaklúbbar, heilsulind, íþróttasalur og veit ekki hvað og tala nú ekki um matinn sem er innifalinn og víst mjög fjölbreyttur og góður. Það verður áskorun hjá mér að finna það sem hentar best mataræðinu mínu en mér skilst að úrvalið sé frábært svo ég hef ekki miklar áhyggjur.Hér verður hægt að fylgjast betur með ferðalaginu okkar :)  http://nazar-prufukeyrsla.blogspot.se/


No comments:

Post a Comment