Tuesday, May 27, 2014

Súkkulaði"tart"

Ó já ég fór til himna þegar þessi "tart" var smökkuð í fyrsta sinn. Málið er nefninlega að ég er dolfallinn yfir Masterchef þáttunum sem og fleiri í fjölskyldunni minni en til að mynda þá er hún systir mín Katla, hjá www.volcanodesign.is sýnu verri og er búin að afgreiða  helmingi fleiri seríur en ég, en það er nú annað mál.  Í einum þættinum var skorað á keppendur að útbúa rétt úr einskonar "leynikassa" en þá er hráefnum úr öllum áttum blandað í kassann og keppendur verða að nota ímyndunaraflið til að hugsa upp uppskrift og græja einhvern dásemdarrétt á örfáum mínútum. Einn gaurinn ákvað að útbúa súkkulaði "tart" líklega kallast það baka hér á Fróni. Skemmst er frá því að segja að hann rústaði keppninni enda var "bakan" vægast sagt girnileg. Þegar þarna er komið við sögu voru bragðlaukarnir í mér farnir að dansa og ég varð hreinlega að prófa. Botninn er að mestu úr möndlumjöli og svo var fyllingin frekar einföld. Hún kallar reyndar á notkun á 100 g af súkkulaði en ef maður velur sykurlaust dökkt Valor súkkulaði þá er skaðinn ekki mjög mikill. Eins er ég orðin mjög hrifin af laktósafría rjómanum frá Örnu, hann virðist fara betur í magann minn, og því notaði ég hann í uppskriftinni. Nú þarf ég að skora á Kötlu systur mína að toppa þessa böku eða "tart" og efast ég ekki um að hún rúlli þeirri áskorun upp, it is on Katla Hreiðarsdóttir !!

Súkkulaðibaka "meistarans"
6 litlar bökur eða 1 lítil baka
 Botninn:
100 g möndlumjöl
 45 g sukrin
1/4 tsk salt
40 g smjör, ósaltað, kælt og brytjað niður í litla bita
1 eggjahvíta
1/2 - 1 msk kókoshveiti ef blandan er mjög blaut
 
 Fylling:
100 g sykurlaust Valor súkkulaði eða 70% Rapunzel súkkulaði
150 ml rjómi(má nota laktósafrían)
25 g smjör (ósaltað)
2 msk Sukrin melis
ögn salt
 
Aðferð:
Hitið ofninn í 170°c. Smyrjið  bökuform að innan með smjöri, best að nota form með lausum botni, líka hægt að nota silikon form t.d. lítil hjörtu og þrýsta þá deiginu upp á kantana.
 Blandið saman í matvinnsluvél, möndlumjöli, sætu og salti. Bætið næst smjörinu saman við og blandið vel saman. Eggjahvítan og kókoshveitið fara síðast út í og aftur blandað. Dreifið deiginu í bökuformið og þrýstið því vel upp á kantana.
 Stingið með gaffli í botninn á nokkrum stöðum. Bakið í ofni í 15 mín eða þar til kantarnir fara að verða gylltir. Takið út og látið kólna (skelin harðnar við kælingu).
 Blandið fyllinguna á meðan bakan kólnar.
 Hitið rjóma í potti að suðu, þegar að fer að freyða í rjómanum þá er honum hellt yfir niðurbrytjað súkkulaðið í skál og hrært í þar til það leysist upp. Blandið sukrin melis saman við og að lokum smjörinu. Hrærið vel þar til blandan er kekkjalaus og glansandi.
 Þá er fyllingin tilbúin og hægt að hella ofan í litlar bökuskeljarnar (hjörtun) eða ofan í stóru bökuskelina úr forminu. Geymið í kæli þar til fyllingin þéttist.
 Borið fram með þeyttum rjóma og jarðaberjum.
 
 

 
 

No comments:

Post a Comment