Saturday, May 17, 2014

Tiramisúbollakökur

Uppáhaldseftirrétturinn minn er Tiramisu eins og áður hefur komið fram á blogginu. Ég geri stundum tiramisu fyrir veislur og matarboð og jú fólk fær sér alveg og finnst flestum þetta gott. Yfirleitt verður þó eftir dágóður afgangur því þessi desert er mjög seðjandi og hann endar þá í ískápnum HANDA MÉR FYRIR DAGINN EFTIR ... eða bara um nóttina þessvegna og ég hendi ekki mat ! Ég ákvað því núna að gera litla mini útgáfu af Tiramisú svo ég myndi komast í bikiníið mitt í sumar og prufaði að blanda saman fyllingu úr einni uppskrift, kremi úr annarri og bollakökudeigið er í rauninni uppfærð sjónvarpskaka með smá twist ;) Jæja þetta kom allavega vel út og ég get ekki beðið með að smakka dýrðina í kvöld. Ég er auðvitað búin að bragða á kreminu, fyllingunni og litlu gæjunum sem ég holaði úr bollakökunum fyrir fyllinguna, sniðug ekki satt hehe og allt smakkaðist guðdómlega. Þetta ætti að vera mjög bragðgott samankomið og kælt í nokkra tíma. 
 

 Tiramisú bollakökur
 6 stk
 
Deig:
2 egg
40 g Sukrin
8 dropar Via Health stevía
1/2 dl rjómi
1/2 dl sýrður rjómi eða grísk jógúrt
20 g mjúkt smjör
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk vanilludropar
30 g kókoshveiti
1/4 tsk salt
20 ml kaffiblanda
 
Kaffiblanda:
30 ml sjóðandi vatn
2 tsk skyndikaffi
1/2 tsk rommdropar
 
Fylling:
80 g mascarpone ostur
10 ml kaffiblanda
1/3 tsk vanilludropar
30 g Sukrin Melis
10 dropar Via health stevía
 
Krem:
80 g rjómaostur
60 g Sukrin Melis
1/2 tsk vanilludropar
10 dropar Via Health stevía
120 ml rjómi (ég nota laktósafrían)
 
Aðferð:
Þeytið fyrst eggin, sukrin og stevíu saman þar til eggin eru létt og ljós, bætið rjóma og sýrðum rjóma út í ásamt smjörinu og að lokum fara þurrefnin saman við. Setjið 2/3 af deiginu í smurð bréfa-bollakökuform (nóg að spreyja létt með kókosfeiti eða Pam)
Blandið næst restinni af deiginu saman við 20 ml kaffiblönduna, hrærið saman og hellið ofan á bollakökurnar. Bakið í 20 mín við 170°C á blæstri.
Kælið vel kökurnar og munið að taka þær upp úr álmúffuforminu.
 
Fylling:
Þeytið saman með písk innihaldinu þar til allt hefur blandast vel saman, þynnið með kaffiblöndunn þar til hægt er að sprauta fyllingunni með sprautupoka.
Þegar múffurnar eru kólnaðar, þá er ágætt að skera úr miðjuna með breiðari endanum á sprautustút og moka upp með teskeið.
Sprautið fyllingunni í kökurnar og kælið.
 
Krem:
Þeytið saman rjómaost, sukrin, stevíu og vanillu. Hellið rjómanum varlega saman við og hrærið hægt. Þegar rjóminn er kominn út í þá setjið þið vélina á fullan kraft þar til toppar myndast í kreminu. Setjið kremið í sprautupoka með fallegum skrautstút og skreytið hverja köku. Fallegt er að sigta dökku kakói yfir kökurnar áður en þær eru bornar fram.

 
No comments:

Post a Comment