Monday, June 9, 2014

Heimkoma

Jæja loksins kemur hér nýtt blogg. Ástæðan fyrir hreyfingarleysinu er sú að við fjölskyldan skelltum okkur í vikufrí til Tyrklands þar sem við slökuðum vel á í boði Nazar og fjölluðum við um upplifun okkar á blogginu þeirra. Orkan fór því að mestu í að skrifa og mynda fyrir ferðaþyrsta íslendinga á slóðinni http://nazar-prufukeyrsla.blogspot.se/2014/05/dagur-1.html. Mataræðið hélst ágætlega ytra en auðvitað var maturinn framandi og ekki alltaf vitað hvað hann innihélt. Við borðuðum þó mikið af grænmeti, kjúkling og salati og vatnið var vel þegið enda allt innifalið í ferðinni. Það var nú samt yndislegt að koma heim í ferska loftið og chiagrautinn. Okkur beið reyndar ágætis skammtur af stressi því villikisinn okkar varð fyrir því að bráka á sér fótinn með tilheyrandi læknaheimsóknum og lyfjastússi, frystikistan var óvart tekin úr sambandi með þeim afleiðingum að allt í henni varð ónýtt og svo náði frúin að næla sér í lungnabólgu á leiðinni heim í loftkældri flugvélinni ! Ekki eitt, heldur allt !!!  En þetta mun ganga yfir og lífið heldur áfram þrátt fyrir þessar hraðahindranir.

Garðurinn beið okkar í fullum blóma, bæði sumarblóm og fíflar höfðu sprottið duglega svo við tók tiltekt í honum sem og að planta niður matjurtum, við vorum búin að sá fyrir spínati og salati og ánægjulegt að sjá litlu sprotana gægjast upp úr moldinni. Rabarbarinn er kominn vel af stað og því skelltum við í rabarbaragraut á línuna. Nú verður lifað af landinu ;)
 
Rabarbara- chiagrautur:
 
750 gr rabbarbari
300 ml vatn
1 1/2 dl Sukrin, má nota minna
10 dr stevia Via Health
1 msk balsamikedik
4 msk chia fræ
2 cm engifer
nokkrir dropar rauður matarlitur
eða rauðrófusafi.
 
Aðferð:
Sjóðið þar til rabarbarinn er mjúkur.
Berið grautinn fram volgan með rjómaslettu,
ég notaði laktósafrían rjóma
 
Eftirréttirnir á hótelinu okkar í Tyrklandi voru ansi sykraðir og því létum við þá vera að mestu. Það voru þó mjög girnilegar sumar kaffikökurnar sem í boði voru og ég prófaði að gera eina sykurlausa útgáfu þegar heim var komið með mascarpone/sítrónukremi.
Kaffikaka:
 
Botninn:
4 egg, aðskilin
1 tsk vínsteinslyftiduft eða cream of tartar
40 g kókosolía (fljótandi)
10 dropar Via Health stevía
50 g sukrin
60 g kókoshveiti (notið Dr Georg eða Funskjonell)
2 tsk vanilludropar
 
Toppur:
30 g Sukrin Gold
40 g kókosolía (fljótandi)
1 msk kókoshveiti
1/2 tsk kanell
 
Aðferð:
Þeytið eggjahvíturnar sér með vínsteinslyftidufti eða cream of tartar.
Blandið á meðan sukrin og olíu saman, þeytið vel og bætið eggjarauðum saman við. Þeytið þar til létt og ljóst.Setjið vanilludropa saman við og stevíu.
Blandið næst kókosveitinu saman við og þeytið stutt. Setjið að lokum eggjahvíturnar saman við og blandið kröftulega saman við með sleif.
Smyrjið deiginu í form, annaðhvort hringlaga form eða múffuform. Ég notaði browniesform sem ég nældi mér í í Danmörku en silikonform henta mjög vel í þessa köku.
Blandið næst saman innihaldinu í toppinn og smyrjið ofan á deigið. Bakið í 180°C í 30 mín. Látið kökuna kólna vel áður en hún er tekin úr forminu.
 
Mascarponeostur:
3 msk mascarpone- eða rjómaostur
3 msk sýrður rjómi
safi úr hálfri sítrónu + rifinn börkur
1 msk sukrin melis
10 dropar Via Health stevía
 
Aðferð:
Þeytið öllu vel saman í litlum blandara eða með töfrasprota og berið fram með kökunni.
Sætið meira ef þörf krefur.

 

No comments:

Post a Comment