Wednesday, June 25, 2014

Kryddbrauð er æði

Mér finnst alltaf jafn gaman að sjá hversu vinir mínir hér á blogginu eru duglegir við að baka og prófa uppskriftirnar mínar og nú langar mig að deila með ykkur uppskrift af kryddbrauði sem er í bókinni minni Brauð og eftirréttir en hefur ekki birst hér á blogginu. Ég fékk fyrirspurn um að breyta gamalli kryddbrauðsuppskrift, sem margir hafa eflaust notað í gegnum tíðina, í sykur og hveitilausa útgáfu og mundi þá eftir þessu brauði sem hingað til hefur ekki klikkað. Það er notalegt í rigningunni að gæða sér á nýbökuðu brauði með smjöri og osti og nú er ekkert að vanbúnaði en að prófa. Verði ykkur að góðu. Ég skellti allavega í hálfa uppskrift til að eiga í kaffitímanum og lyktin hér er æðisleg.
Ath að bókin mín er enn til sölu hjá mér og hægt að panta hana hjá mér á netfanginu kristadesign@internet.is. Hún kostar 2900.- með sendingarkostnaði innanlands. 

Kryddbrauð
 
120 g hörfræmjöl
100 g möndlumjöl
70 g Sukrin Gold
2 tsk kanill
1 tsk engifer
1 tsk negull
1 tsk kakó
1/2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
2 egg
4 tsk kókosolía brædd
150 möndlumjólk
1/2 tsk salt
 
Aðferð:
Hrærið öllu saman í hrærivél, hellið í eitt meðalstórt form og bakið á 180°í 20 mín.
Ágætt að stinga prjón í brauðið og ef hann kemur hreinn út þá er brauðið klárt.
Þessu deigi má líka deila í muffinsform og gera kryddmuffins sem má eiga í frysti.
Hentugt sem millimál og frábært í nestistöskuna.
Mjög gott að smyrja þessar með smjörva og osti.

No comments:

Post a Comment