Monday, June 23, 2014

Pallabrask fyrir lítinn aur

Það er ekkert notalegra en að sitja úti í íslenskri sumarnóttinni, þ.e.a.s. ef veðrið er bærilegt. Smá gola sleppur reyndar ef teppið er hlýtt og ekki verra að hafa eldstæði við hendina ef því er við komið. Við fjölskyldan ákváðum að gera okkur lítið kósýhorn á pallinum okkar sem hefur aðallega verið nýttur undir gúmmísundlaug úr Rúmfatalagernum en nú langaði okkur að gera eitthvað varanlegra við þetta svæði. Við byrjuðum á að skella upp litlum skjólvegg en það er gott að hafa einhvern útgangspunkt þegar byrjað er í svona framkvæmdum. Síðan máluðum við nokkrar pallettur sem við fengum gefins og hirtum héðan og þaðan, skelltum hjólum úr IKEA undir eina pallettuna svo úr varð sófaborð og stöfluðum restinni svo í hornið svo þær mynduðu lítið sófahorn. Málningin kom úr gamalli þakmálningardollu sem við áttum í geymslunni svo það var vel sloppið.
Gamlar yfirdýnur áttu fyrst að fara á herlegheitin en þegar þær voru mátaðar á var húsfreyjan ekki alveg sátt. Við bættum því við 2 pallettum í viðbót og keyptum dýnur úr IKEA sem pössuðu bara þrælvel, voru reyndar ætlaðar í svefnsófa en breiddin var 80 cm og það var akkurat það sem við vildum  Eldstæðið góða fengum við líka í IKEA, (er ekki á prósentum samt) og það var hreint æðislegt að kveikja í því lítið bál. Gamli gashitarinn sem okkur var gefinn í fyrrasumar var gerður upp, málaður og skipt um slöngur og snarhitaði okkur þegar kuldinn var farinn að gefa í. Vígslukvöldið var yndislegt, góðir vinir kíktu í heimsókn í sykurlausa möndluköku og börnin fengust ekki inn fyrr en um 02.00 leytið. Það er ekkert betra en að liggja undir teppi og horfa upp í himininn svo ég skil þau vel. Mæli með þessari tiltölulega ódýru lausn ef þið hafið ekkert að gera í sumarfríinu. Ég mun allavega njóta þessarar dyngju vel í sumar. 
 
 Útsýnið er nú ekkert agalegt hér á heimilinu...

 
 Brúsi að njóta sín í nýslegnu grasinu, og til hægri er mini kryddjurtagarðurinn minn.

Heimasætan að glugga í hönnunarbók

Ódýr kertaglös , gamlar sultukrukkur, skrautsandur og málið leyst.

 
Svo þegar fer að rökkva þá nýtur eldstæðið sín vel.

 
 Hér eru fleiri hugmyndir af uppsetningum á þessum sniðugu pallettum :)
No comments:

Post a Comment