Friday, June 13, 2014

Sumarleg ostakaka

Ekki byrjar nú sumarið hér heima neitt allt of vel hjá mér. Nældi mér í lungnabólgu, líklega í fluginu heim til Íslands og ætlar hún ekki að sleppa mér svo glatt út í garðinn minn fína.
En inni get ég verið og því upplagt að skella í eina ferska og sumarlega ostaköku. Hún lukkaðist alveg þrælvel og var kláruð á örskammri stundu. Skemmtilegast var þó að gefa ungu fólki hana sem var hér í heimsókn, klárlega ekki á neinu lág-kolvetnafæði og þau fundu engan mun á henni og venjulegum sykruðum kökum. 1-0 fyrir sykurleysinu. En talandi um sykurleysi þá mæli ég með að fólk taki áskoruninni á http://lifdutilfulls.is/14-daga-sykurlaus  þar er verið að skora á okkur að taka þátt í 14 daga sykurlausu átaki sem ég held að margir hefðu gott af. Ég skráði mig og fæ því uppskriftir og ráðleggingar daglega þessa daga til að styðjast við og þetta er allt ókeypis. Endilega kíkið á síðuna þeirra.
Sumarleg og fersk ostakaka
 
Botn:
120 g möndlumjöl(gróft)
30 g brætt smjör
10 dropar stevía Via Health
30 g Sukrin
 
Fylling:
400 g rjómaostur
1 peli rjómi léttþeyttur
1 sítróna, börkurinn og safinn
1 msk matarlímsduft
( má hugsanlega sleppa vegna sítrónunnar en mér fannst kakan extra þétt og fín með því )
100 g Sukrin Melis
10 dropar stevía Via Health
 
Toppur:
1 pk sykurlaus Lemon J-ello (fæst í Kosti og Hagkaup)
 
Aðferð:
Blandið saman öllu í botninn og þrýstið í springform eða eldfast mót ef ekki á að skera kökuna í sneiðar. Bakið í 10 mín á 180°C.  Kælið vel. Rífið börkinn og kreistið safann úr sítrónunni. Notið allan safann í skál með matarlímsduftinu og sætunni og helminginn af rifna berkinum.Hrærið kröftuglega og bætið svo rjómaostinum saman við. Blandið síðast léttþeyttum rjómanum saman við og hrærið vel saman. Hellið þessari blöndu í formið og kælið.
 
Blandið nú saman J-elló pokanum við 300 ml af sjóðandi vatni og leysið vel upp.  Restin af sítrónuberkinum fer hér út í.
Kælið vökvann örlítið í ískáp. Hellið vökvahlaupinu næst yfir kökuna þegar blandan er farin að þykkna og látið allt standa í 2 tíma í það minnsta. Þetta er fersk og góð kaka, passlega sæt og súr og bara hreinlega æðisleg.

No comments:

Post a Comment